29.05.1980
Sameinað þing: 69. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3238 í B-deild Alþingistíðinda. (3220)

Kosning sjö manna og jafnmargra vara í stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. hefur nú tekið af mér ómakið með því að upplýsa hver það var sem óskaði eftir að kosningu í húsnæðismálastjórn yrði frestað í vetur. En ég mótmæli þeim orðum hv. 1. þm. Norðurl. v., að það hafi strandað þar á Sjálfstfl. Þvert á móti óskaði Sjálfstfl. eftir því hvað eftir annað í vetur, í janúarmánuði, að kosningar færu fram í þær nefndir og ráð sem eftir var þá að kjósa, en á það gátu aðrir ekki fallist.

Hv. þm. talaði hér um að menn þyrftu ekkert að hrökkva við þó að hér þyrfti að kjósa. Við hrökkvum í sjálfu sér ekkert við, en það kom okkur engu að síður á óvart að það þyrfti að fara fram hér skrifleg kosning um þetta dagskrármál. Það kom okkur á óvart. Við vissum það ekki fyrr en rétt núna þegar þingfundur byrjaði að hluti úr þingflokki Sjálfstfl. sætti sig ekki við það framboð sem búið var að ákveða á þingflokksfundi s. i. miðvikudag. Það var að vísu enginn þessara hæstv. ráðh. á þeim þingflokksfundi fremur en oftast áður, en það breytir ekki þeirri staðreynd, að framboðíð hafði verið ákveðið. Staðreyndin er enn fremur sú, að það var ekki vitað fyrr en rétt fyrir fundarbyrjun að þessir félagar okkar sættu sig ekki við þá ákvörðun sem þingflokkurinn hafði tekið. Okkur var, eins og stundum áður, stillt upp við vegg og sagt: Ef þið verðið ekki við tilmælum okkar um að taka tiltekinn mann inn í öruggt sæti semjum við við hina. — svona einfalt er það.

Svo segir hv. 1. þm. Norðurl. v. að hann vilji ekki blanda sér í þessi mál Sjálfstfl. Það er einmitt það sem hann er að gera með því að ganga til samninga við hluta af þingflokki Sjálfstfl., styðjandi að vísu ágætan mann, eins og hér hefur komið fram, formann málefnanefndar Sjálfstfl. um húsnæðismál.

Kosning í stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins fór þannig, að A-listi hlaut 31 atkv., B-listi 18 atkv. og C-listi 8 atkv. Samkv. því voru kjörnir:

Aðalmenn:

Þráinn Valdimarsson framkvæmdastjóri,

Gunnar Helgason forstjóri,

Guðmundur Gunnarsson verkfræðingur,

Ólafur Jónsson framkvæmdastjóri,

Jóhann Petersen skrifstofustjóri,

Jón H. Guðmundsson skólastjóri,

Gunnar S. Björnsson byggingameistari.

Varamenn:

Hákon Hákonarson vélvirki,

Ólafur Jensson framkvæmdastjóri,

Grímur Runólfsson framkvæmdastjóri,

Sigurður Magnússon rafvélavirki,

Salome Þorkelsdóttir alþm.,

Gunnar Gissurarson tæknifræðingur,

Óli Þ. Guðbjartsson bæjarfulltrúi.