29.05.1980
Sameinað þing: 69. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3241 í B-deild Alþingistíðinda. (3227)

205. mál, launasjóður rithöfunda

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Það, sem gerði það að verkum að ég stóð upp, var sú tillaga, óvenjulega tillaga, vil ég segja, sem hv. flm. bar fram í lok ræðu sinnar, þar sem hann leggur til að þetta mál verði borið undir atkv. án þess að það gangi til nefndar. Ég tel að hér sé um nokkuð óvenjulega málsmeðferð að ræða. Það skal fúslega játað, að þinginu mun vera að ljúka, að ég ætla. En hins vegar verður þess að geta, að till. kom mjög seint fram á þessu þingi og ekki við því að búast að hún yrði tekin til rækilegrar umr. svo seint sem hún kom fram. Um efni till. skal ég annars ekki fara mörgum orðum.

Það má vel vera að í þessu felist eðlileg málsmeðferð. En ég held að það sé mikil nauðsyn að við temjum okkur það sem verið hefur, að stærri og smærri þingmál gangi til þingnefnda og þau fái eðlilega umfjöllun hvað sem líða kann efni málsins. Mig undrar satt að segja að hv. flm. og frummælandi að þessari till. skuli bera upp slíka tillögu, því að það verður að telja að tillaga af þessu tagi, með hliðsjón af því hvernig málum hefur lengi verið háttað, sé óþingleg. Þess vegna get ég ekki með neinu móti tekið undir eða mælt með því fyrir mitt leyti að þessi till. verði nú látin ganga til atkv. Mér er fullkunnugt um að þessi till. hefur lítið verið rædd, ekkert verið rædd vil ég meina, a. m. k. ekki í þingflokki Framsfl. Þar hefur hún sáralítið verið rædd og ég vil meina ekkert. Ætli það muni ekki vera svipað um aðra þingflokka?

Annars hef ég ekki löngun til að fara að ýfa hér upp mál á síðustu þingmínútum. Það eru enn nokkur mál á dagskránni sem ég tel miklu meira virði að nota þá stund, sem eftir er, til að ræða og heyra sjónamið manna um, bæði utanríkismál og samgöngumál. Ég teldi miklu eðlilegra að eyða tímanum í að ræða þær skýrslur, sem þar er fjallað um, en fara nú að brjótast í því hér á síðustu mínútum að taka upp hætti í þinginu sem aldrei hafa tíðkast, a. m. k. ekki svo langt sem ég man. Að þessu leyti til vil ég beina til hv. þm., að þeir taki ekki undir slíka tillögu sem þessa, heldur fari að minni tillögu um að þessu máli verði vísað til allshn. Sþ. Það er tillaga mín að svo verði, hæstv. forseti.