09.01.1980
Neðri deild: 15. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í B-deild Alþingistíðinda. (323)

41. mál, Skattadómur og rannsókn skattsvikamála

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins vekja athygli á því, að ég tel að í núgildandi lögum séu mjög víðtækar heimildir og mjög víðtæk ákvæði um refsingar gegn skattalagabrotum. Á hv. Alþ. hefur því verið tekið á þeim málum af mikilli alvöru. Við búum við skattalög sem eru tiltölulega ný, nr. 40 frá 1978, og um refsingar er fjallað í 107. gr. þeirra laga. Það er út af fyrir sig, held ég, nokkuð upplýsandi fyrir alla að ég lesi þá grein en hún hljóðar þannig:

„Skýri skattaðili af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju því sem máli skiptir um tekjuskatt hans eða eignarskatt skal hann greiða sekt allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Einnig má, að fullnægðum sömu saknæmisskilyrðum, sekta skattaðila, sem ekki hefur talið fram til skatts, um allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem áætluð reyndist of lág, ef skattur er reiknaður að nýju samkv. 2. mgr. 96. gr. Álag samkv. 106. gr.“ — sem er allt að 25% —„ dregst frá sektarfjárhæð“ — enda hefur það þá verið komið til áður.

„Skýri framteljandi rangt eða villandi frá einhverjum atriðum er varða framtal hans, má gera honum sekt allt að 1 millj. kr., enda þótt upplýsingarnar hafi ekki áhrif á skattskyldu hans eða skattgreiðslur“ — sem sagt aðeins hafi verið um villandi upplýsingar að ræða.

„Verði brot samkv. 1. mgr. uppvíst við skipti dánarbús skal úr búinu greiða sekt allt að fjórfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Sé svo ástatt sem í 2. mgr. segir má gera búinu sekt allt að 500 þús. kr.

Hver sá, sem af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi lætur skattyfirvöldum í té rangar eða villandi upplýsingar eða gögn um atriði varðandi skattframtöl annarra aðila“ — ég tek það fram: annarra aðila „eða gegnir ekki skyldu sinni samkv. 92. gr., skal greiða sekt allt að jafnhárri þeirri fjárhæð er undan skyldi dregin með upplýsingunum eða vanrækt var að gefa upplýsingar um.“ Sem sagt ef aðili fullnægir ekki upplýsingaskyldu í sambandi við lög þessi, t.d. gefur ekki upp laun eða á annan hátt. „Sömu sekt skal sá sæta sem aðstoðar við ranga eða villandi skýrslugjöf til skattyfirvalda. Að öðru leyti skal hver sá sem vísvitandi vanrækir skyldu sína samkv. ákvæðum 91. og 94. gr. greiða sekt allt að 1 millj. kr.“

Síðan kemur: „Sektir samkv. lögum þessum geta eigi orðið hærri en 20 millj. kr. Sektir má jafnt gera lögaðila sem einstaklingi.“

Þetta er meginhluti þessarar greinar. Út af fyrir sig held ég því að menn geti verið sammála um að ekki hefur á það skort að löggjafinn hafi sett reglur um sektir og refsingar sem skipta gífurlegu máli. Um allt þetta mál skal hin nýja ríkisskattanefnd fjalla. Ríkisskattanefnd, sem er með nýju formi og átti að taka til starfa um s.l. áramót, hefur ekki enn verið skipuð, vegna þess, eftir því sem mér skilst, að í frv. til l. um tekjuskatt og eignarskatt er lögð til lítils háttar breyting á þeirri skipan mála, en ríkisskattanefndin skal um þetta fjalla. Og ég vil leggja á það áherslu, að þetta þarf að athuga í réttu samhengi, þ.e.a.s. hvort ljóst sé að ríkisskattanefnd skuli hafa sama hlutverk áfram, því að gert var ráð fyrir því að mál út af brotum, sem koma til meðferðar dómstóla, skyldu rekin að hætti opinberra mála. En hitt er svo annað mál, að oft og tíðum hefur skort á að við hefðum nægilegan mannafla til að gegna þessum málum í eftirliti okkar.

Ég held að það skorti ekki löggjöf um þessi mál, en framkvæmd þeirra hefur oft og tíðum ekki verið nægilega sterk. Menn skyldu vara sig nokkuð á því að leggja of mikla áherslu á löggjafaratriði, en minni á framkvæmd þeirra laga sem fyrir eru. Ég held að menn hafi oft brennt sig á því í þessu landi að það vantar peninga á ýmsum sviðum til að framkvæma þau lög sem Alþ. hefur sett. Ég tel að það ætti að vera almennt sjónarmið að réttara væri að leggja það fjármagn í að gera það, sem menn ákváðu með þeim lögum, heldur en setja ný lög sem menn hafa ekki heldur peninga til að framfylgja, þannig að ekki verði svigrúm til að framkvæma neitt af þeim annars góðu verkum sem menn ætla sér.