29.05.1980
Sameinað þing: 69. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3243 í B-deild Alþingistíðinda. (3230)

231. mál, utanríkismál 1980

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það er nú liðinn alllangur tími frá því að ég kvaddi mér hljóðs í þessum umr. og ég átti, úr því sem komið var, naumast von á því, að það yrði talið ómaksins vert að taka þetta mál á dagskrá. En það verð ég að segja að þetta eru nokkuð óeðlileg vinnubrögð. Og hér hafa menn í dag verið að tala um óeðlileg vinnubrögð á Alþingi! En allt, sem hefur verið talað um í því efni, þó mikilvægt sé og ég vil ekki draga úr því, er hégómi á við það að fara svo með utanríkismálin, þann höfuðmálaflokk sem alltaf hlýtur að vera, að það sé lögð fram skýrsla, flutt framsöguræða og nokkrar aðrar ræður, en svo sé skrúfað fyrir frekari umr. og það undir hælinn lagt hvenær þeim verði fram haldið.

Ég flyt að sjálfsögðu ekki þá ræðu núna sem ég ætlaði mér að flytja fyrir viku eða tíu dögum, m. a. vegna þess að ég sé ekki að það sé nokkurt svigrúm eða ráðrúm til þess eins og nú er komið. En ég vil þó freista þess að víkja nokkuð að einu atriði sem ég hafði hugsað mér að gera, og það geri ég að gefnu tilefni.

Í skýrslu utanrrh. er vikið að Evrópuráðinu. Þar er tekið fram að á síðasta ári hafi Evrópuráðið orðið 30 ára. Það má því segja að ærið tilefni sé á þessum tímamótum að víkja nokkru nánar að starfsemi Evrópuráðsins en frá er greint í skýrslu þessari. Ég mun því í þessum umr. og því, sem ég segi hér á eftir, víkja að Evrópuráðinu og þátttöku Íslands í því.

Til þess að gera sér grein fyrir eðli og starfi Evrópuráðsins verða menn að hafa í huga hvaða ástæður lágu til stofnunar þess. Það var þá efst í hugum manna að tvær styrjaldir, sem höfðu átt upptök sín í Evrópu, en urðu að heimsstyrjöldum, höfðu leikið Evrópu grátt og skilið hana eftir í flakandi sárum. Um aldir hafði Evrópa staðið fremst allra heimsálfa hernaðarlega, efnahagslega og menningarlega. Það má segja að á þessum tíma hafi öll helstu afrek mannsandans átt upptök sín í Evrópu eða orðið til fyrir evrópsk áhrif. Mönnum varð ljóst eftir síðari heimsstyrjöldina að staða Evrópu var ekki hin sama og áður. Menn fundu köllun hjá sér til að stöðva hnignun glæsilegrar menningar sem hafði skapað svo mikla tign, fegurð og auð. Menn töldu að leiðin til þess væri sú að koma á nýrri pólitískri skipan í Evrópu svo að hún mætti á ný skipa sinn rétta sess í heimsmálunum. Þessi menn voru sannfærðir um að framtíðarinnar biðu hinar stóru ríkisheildir. Þeir höfðu í huga að Bandaríki Norður-Ameríku og Sovétríkin voru orðin tvímælalaust forusturíki heimsins í krafti stærðar sinnar. Þetta var það ástand og þessar voru þær hugmyndir sem lágu til grundvallar við stofnun Evrópuráðsins.

Hugsjón Evrópuráðsins verður best lýst með formálsorðum að stofnskrá þess, er undirrituð var í Lundúnum 5. maí 1949, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisstjórnirnar, er undir þetta skjal rita, eru sannfærðar um, að leitin að friði byggðum á réttlæti og alþjóðlegri samvinnu sé lífsnauðsynleg fyrir verndun mannlegs samfélags og menningar, og hafa því ákveðið að koma á fót Evrópuráði, um leið og þær leggja enn einu sinni áherslu á tryggð sína við þau andlegu og siðferðilegu verðmæti sem eru sameiginleg arfleifð þjóða þeirra og hin raunverulega uppspretta persónufrelsis, stjórnmálafrelsis og laga og réttar, en þessi meginatriði mynda grundvöll alls sanns lýðræðis.“

Þetta segir í formálsorðum að stofnskrá Evrópuráðsins. Til að vinna að framgangi þessara hugsjóna var Evrópuráðið stofnað. Sérhvert aðildarríki Evrópuráðsins verður að hafa þessar hugsjónir í heiðri.

Starfssvið Evrópuráðsins hefur í framkvæmd orðið mjög víðtækt. Verkefni þess er að koma á meiri einingu meðal aðildarríkjanna í þeim tilgangi að tryggja og hrinda í framkvæmd þeim hugsjónum og meginmarkmiðum, sem eru sameiginleg arfleifð þeirra, og auðvelda efnahagslegar, menningarlegar og félagslegar framfarir. Að þessum markmiðum er unnið með umræðum um sameiginleg vandamál, með samkomulagi og samstilltum aðgerðum í málum, sem snerta efnahag, félagsmál, menningu, vísindi, lög og rétt, og með því að viðhalda og efla mannréttindi og mannfrelsi.

Evrópuráðið er pólitísk stofnun og skipulag þess við það miðað: annars vegar ráðherranefndin, sem er fulltrúi ríkisstjórnanna, og hins vegar ráðgjafarþingið, sem er fulltrúi þjóðþinga aðildarríkjanna. Aðildin að þessum meginstofnunum Evrópuráðsins fer ekki eftir höfðatölu. Ísland hefur því einn fulltrúa í ráðherranefndinni til jafns við önnur aðildarríki og þrjá fulltrúa af 170 þm. á ráðgjafarþinginu, sem eru fulltrúar 380 millj. manna.

Ráðgjafarþing Evrópuráðsins gegnir mikilsverðu hlutverki. Þar eru bornar fram og ræddar tillögur og gerðar samþykktir í fjölmörgum málum sem varða Evrópuráðið og þátttökuríki þess. Þingið starfar að ýmsu leyti líkt og þjóðþing gera í lýðræðislöndum.

En Evrópuráðið hefur ekki aðeins verið vettvangur umræðna. Ráðið hefur beinlínis stuðlað að einingu Evrópu á áþreifanlegan hátt. Þing og ráðherranefnd hafa lagt mikla áherslu á gerð svokallaðra Evrópusáttmála og samninga um fjölmörg mál sem varða flest eða öll aðildarríkin. Slíkir sáttmálar eða samningar öðlast ekki gildi gagnvart hverju einstöku aðildarríki nema það samþykki hann og staðfesti. Hafa nú um 100 Evrópusáttmálar eða samningar af þessu tagi verið gerðir. Öll þessi starfsemi hefur orðið til þess að auka samstöðu þjóða Evrópuráðsins á öllum þessum sviðum og orðið til þess að glæða framfarir. Yfirleitt er það svo við gerð Evrópusamninga að tilhneiging er til að miða við þau ríki, sem lengst eru komin, og þurfa hin, sem skemmra eru komin, því oft að breyta lögum sínum til samræmis. Nýmæli á sviði löggjafarinnar, sem tekin eru upp í einstökum aðildarríkjum, eru fljótlega kynnt og athuguð innan Evrópuráðsins og hefur þetta mikið gildi til þess að þoka löggjöf aðildarríkjanna almennt í framfararátt.

Ég hef hér vikið lítillega að starfi Evrópuráðsins. En allt er breytilegt og öllu miðar annaðhvort aftur á bak eða nokkuð á leið. Hvert er förinni raunverulega heitið? Hvað verður í framtíðinni um evrópska samvinnu? Það eru spurningar sem þessar sem er ekki óeðlilegt að við víkjum að í umr. á Alþingi Íslendinga um utanríkismál.

Á fyrstu árum Evrópuráðsins kom strax upp sú spurning hvernig aðildarríki ráðsins mættu koma á nánari samstöðu og hvaða form sú samstaða ætti að hafa. Um þetta voru þá háðar miklar umræður á ráðgjafarþinginu og hefur raunar svo verið lengst af fram til þessa dags. Í samræmi við upphaflega hugmynd hinnar svokölluðu Evrópuhreyfingar, sem var undanfari stofnunar Evrópuráðsins, lögðu margir fulltrúar, einkum frá Frakklandi, Ítalíu, Belgíu og Hollandi, áherslu á stofnun eins konar sambandsríkis. Aðrir, þ. á m. margir fulltrúar frá Bretlandi og Norðurlöndunum, kusu fremur samvinnu milli sjálfstæðra ríkja innan Evrópuráðsins. Hér var um djúpstæðan skoðanamun að ræða. Hins vegar töldu allir stofnun Evrópuráðsins vera mikilvæga og frumlega tilraun til að styrkja einingu Evrópu.

Viðfangsefni dagsins var að viðhalda þeirri einingu sem þegar var komið á með stofnun Evrópuráðsins. Það þurfti að vinna að því að þau lönd, sem lengst vildu ganga, fjarlægðust ekki þau sem skemmra vildu ganga. Þróun Evrópuráðsins hefur mótast af þessari viðleitni. Það hefur reynst hafa nægilegan sveigjanleika til að verða vettvangur landa, sem höfðu sameiginlegt markmið, en voru mjög á öndverðum meiði um hversu ná skyldi því markmiði. Tengja hefur þurft saman aðila með mjög mismunandi sjónarmið til að koma í veg fyrir klofning sem mundi gera víðtækari samvinnu Evrópuríkjanna örðuga. Evrópuráðið hefur verið sér meðvitandi um þessa hættu og hefur talið það skyldu sina að koma í veg fyrir hana. Viðleitni ráðsins beinist því mjög að því að sætta aðila og samræma skoðanir þeirra. Ráðið hefur því myndað ágætan ramma fyrir evrópska samvinnu.

En spurningin um stofnun sambandsríkis Evrópu hefur stundum verið áleitin á þeim tíma sem Evrópuráðið hefur starfað. Upp úr umræðunum um ríkisstofnun kom fram hugmyndin að evrópsku yfirvaldi með takmörkuðu starfssviði, en raunverulegum völdum. Þetta var kjarninn í hinni svokölluðu Schumann-áætlun, sem sett var fram árið 1950. Í framhaldi af þessu stofnuðu þegar árið 1951 sex Evrópuríkjanna Kola- og málmsteypuna með sterku framkvæmdavaldi á sínu sviði. Síðan var það að sömu ríki mynda árið 1957 Efnahagsbandalag Evrópu með afar víðtæku starfssviði, en ekki jafnsterku framkvæmdavaldi í byrjun. Jafnframt komu þessi ríki á fót Kjarnorkustofnun Evrópu. Stofnun þessara samtaka hefur af sumum verið talin hin merkustu spor í áttina til sameiningar Evrópu. Það hefur þá verið litið á þessar stofnanir sem kjarna innan Evrópuráðsins og fordæmi til frekari einingar. Opinber tengsl eru milli ráðgjafarþings Evrópuráðsins og þessara stofnana, þar sem mál þessara stofnana eru árlega rædd á ráðgjafarþinginu.

Sumir hafa haldið fram, að Efnahagsbandalag Evrópu ætti að vera hinn raunverulegi stofn að bandaríkjum Evrópu, þannig að önnur Evrópuráðslönd ættu að fá þar inngöngu og samtökin ættu ekki einungis að fela í sér efnahagslega einingu Evrópu, heldur og stjórnmálalega. Á þessu máli eru margar hliðar sem ég ætla ekki að fara að ræða hér.

En Efnahagsbandalagið hefur sín vandamál, svo sem kunnugt er. Í því sambandi er oft talað um ágreining varðandi landbúnaðarmál og annað þess háttar, en hinir raunverulegu erfiðleikar Efnahagsbandalagsins rista dýpra. Það er deilt um hvort á að standa við það ákvæði Rómarsáttmálans að meirihlutaákvörðun ráði í stjórn samtakanna í stað þess fyrirkomulags, að engin ákvörðun sé raunverulega gild nema öll aðildarríki bandalagsins standi að henni. Þetta er spurningin um hvort ríki vill slá af fullveldi sínu með því að lúta sameiginlegu framkvæmda- og löggjafarvaldi þar sem meiri hlutinn ráði samkv. góðum lýðræðisreglum.

Þessi hugmynd um sambandsríki Evrópu hefur stundum átt sér öfluga fylgjendur og baráttumenn á vettvangi Evrópuráðsins. Umræður á ráðgjafarþinginu hafa stundum snúist mjög um framtíðarskipan Evrópu á grundvelli slíkra hugmynda. Í slíkum umræðum hef ég jafnan lýst þeirri skoðun, að vegna smæðar okkar Íslendinga ætti engin þjóð meira undir samvinnu Evrópuþjóðanna en einmitt við, en jafnframt ætti engin þjóð meira á hættu en við með því að slá af fullveldi okkar.

Í umræðum um þessi mál hefur stundum verið varpað fram þeirri spurningu, hvort hlutverki Evrópuráðsins hafi ekki verið lokið með tilkomu Efnahagsbandalags Evrópu eða verði það eftir því sem aðildarríkjum Efnahagsbandalagsins fjölgar og því vex fiskur um hrygg. Í þessu sambandi hafa menn bent á að Efnahagsbandalagið væri vaxtarbroddurinn í raunverulegum aðgerðum til sameiningar Evrópu. Menn hafa og varað við tvíverknaði þar sem væru tvenn samtök Evrópuríkja sem byggðu starfsemi sína á hugsjóninni um Evrópusamvinnu. En samt sem áður er augljóst að níu ríki Efnahagsbandalagsins geta ekki einokað hugsjónina um Evrópusamvinnu.

Það er hlutverk Evrópuráðsins að koma á og efla samvinnu allra ríkja í Evrópu. Þetta hefur Evrópuráðinu tekist í Vestur-Evrópu og fræðilega séð er hægt að hugsa sér að Austur-Evrópulönd gangi í Evrópuráðið þegar þau kunna að fullnægja því óhjákvæmilega skilyrði að þau búi við lýðræðislega stjórnarhætti. Af þessu er ljóst hve víðtæku hlutverki Evrópuráðið í raun og veru gegnir. Þessu hlutverki getur Evrópuráðið ekki gegnt nema sameina innan sinna vébanda allar þjóðir sem vilja ná markmiðum Evrópuhugsjónarinnar, eftir hvaða leiðum sem farnar eru. Það er einmitt þetta sem Evrópuráðinu hefur tekist að gera. Evrópuráðið hefur verið rammi um samvinnu þjóða með ólík viðhorf, en hins vegar með sömu grundvallarsjónarmið.

Samkv. þessu kemur ekki til greina að leggja Evrópuráðið niður. Það hefur hlutverki að gegna sem engin önnur stofnun Evrópuríkja er fær um að sinna, hvort heldur er Efnahagsbandalag Evrópu eða aðrar. Öll Evrópuráðsríkin eru sammála um þetta. Það sýnir styrkleika Evrópuráðsins og hversu mikils er metin aðild að ráðinu að strax eftir að hrundið var einræðisstjórnum í Portúgal og Spáni sóttu ríki þessi um inngöngu í Evrópuráðið og starfa nú í hópi 21 aðildarríkis sem þar er. Bæði þessi ríki hafa nú sótt um inngöngu í Efnahagsbandalag Evrópu, en það er eins um þau og önnur ríki Efnahagsbandalagsins að þau telja aðild sína að Evrópuráðinu þó nauðsynlega jafnframt, hvað þá ríki eins og Ísland sem ekki eru aðilar að Efnahagsbandalaginu.

Þá er ekki fjarri lagi að spyrja: Hvaða gagn hefur þá Ísland haft að aðild sinni að Evrópuráðinn? Var það í sjálfu sér rétt ákvörðun sem Alþingi tók árið 1950 þegar það samþykkti að Ísland gengi í Evrópuráðið? Ég held að það geti ekki verið nokkur vafi á því, að það hafi verið rétt ráðið. Raunar er næstum óhugsandi að Íslendingar einir lýðræðisþjóða í Evrópu standi utan Evrópuráðsins. Ísland er órjúfanlegur hluti Evrópu landfræðilega, sögulega og menningarlega. Við Íslendingar hljótum því að vera með á vettvangi Evrópuráðsins, þar sem fjallað er um mál sem varða Evrópu svo mjög bæði í nútíð og framtíð.

Það er á ráðgjafarþingi Evrópuráðsins sem hin stóru mál eru rædd. Þar er kveikjan að flestum þeim viðfangsefnum sem ráðið lætur til sín taka. Þar eru samþykktar ályktanir og áskoranir sem síðan ganga til ráðherranefndarinnar til meðferðar og oft til framkvæmda í formi Evrópusamninga, sem ég áður vék að. Mörg þessara mála varða okkur Íslendinga miklu, en önnur minna. En á vettvangi ráðgjafarþingsins gefst okkur tækifæri til að leggja okkar til málanna. Stundum getur þessi aðstaða verið okkur mjög mikilsverð. Besta dæmið um það er landhelgismálið og barátta okkar fyrir útfærslu fiskveiðimarkanna og efnahagslögsögu okkar. Það má segja að þegar mest lá við í þeim efnum hafi fulltrúar Íslands á ráðgjafarþinginu ekki látið sér úr greipum ganga nein tækifæri til að kynna málstað Íslendinga og túlka stefnu okkar og sjónarmið hvar sem við var komið í umræðum á þinginu, svo sem í almennum stjórnmálaumr., umræðum um hafréttarmál og umræðum um fiskveiðimál. Okkar viðurvist og þátttaka á þessum vettvangi var þeim mun þýðingarmeiri þar sem hér var að mæta okkar höfuðandstæðingum, Englendingum og Þjóðverjum.

Herra forseti. Vegna þess að nú eru þinglausnir fram undan hef ég ekki góða samvisku af því að lengja mál mitt miklu frekar, þó að full ástæða hefði verið til að gera það. Ég vil þó aðeins með nokkrum orðum minna á að Ísland hefur samþykkt um 40 Evrópusamninga, slíka samninga sem ég gat um í máli mínu áður. Og Ísland hefur með aðild sinni að Evrópuráðinu verið í sumum tilvikum í forustusveit þeirra ríkja sem best og afdrifaríkast starf hafa unnið á þessum vettvangi. Ég nefni í því sambandi t. d. aðild Íslands að Mannréttindasáttmálanum, Viðreisnarsjóðnum og svo gæti ég lengi haldið áfram.

Ég vil svo vekja athygli á því, hvað aðild okkar að Evrópuráðinu þýðir á einum mjög þýðingarmiklum vettvangi. Evrópuráðið heldur uppi afar víðtæku starfi sérfræðinga í mörgum helstu vísindagreinum. Ísland á aðild að þessum sérfræðinganefndum og tekur að sínu leyti fullan þátt í þessu starfi. Þetta starf er Íslandi að kostnaðarlausu vegna þess að allur kostnaður af þátttöku Íslands í þessu starfi er greiddur af Evrópuráðinu sjálfu. En Ísland nýtur til jafns við alla aðra aðila Evrópuráðsins gagns af þessu starfi, sem er ómetanlegur fengur fyrir hina íslensku þjóð. — Ég nefndi kostnað. Það má minna á að Ísland ber 0.12% af heildarkostnaði Evrópuráðsins. Það er ekki hátt í tölum þó að við miðum við smæð okkar hér.

Ég gæti bent á mörg önnur dæmi sem mundu lýsa þýðingu Evrópuráðsins fyrir Ísland. Það verður kannske best sagt með þeim orðum sem framkvæmdastjóri Evrópuráðsins sagði um þetta í ræðu árið 1965 þegar hann var í opinberri heimsókn hér á Íslandi. Hann orðaði þetta þannig, að það væri hlutverk Evrópuráðsins fyrst og fremst að aðstoða smáríkin til þess að geta öðlast það sem ekki er á valdi nema stórþjóðanna. Ég er ekki í nokkrum vafa um af kynnum mínum af starfsemi Evrópuráðsins að þetta er rétt. Því kemur ekki til greina annað en að Ísland leggi áfram áherslu á aðild sína að Evrópuráðinu. En því segi ég þetta að fyrr í þessum umr. fannst mér votta fyrir einhverjum efa í þessum efnum. Það er algerlega órökstutt og á miklum misskilningi byggt.