29.05.1980
Sameinað þing: 70. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3250 í B-deild Alþingistíðinda. (3236)

Þinglausnir

Forseti (Jón Helgason):

Ég mun nú gefa yfirlit yfir störf Alþingis:

Þingið hefur staðið frá 10. des. til 21. des. 1979 og frá 8. jan. til 29. maí 1980, alls 155 daga.

ÞINGFUNDIR hafa verið haldnir:

Í neðri deild

91

Í efri deild

106

Í sameinuðu þingi

70

Alls

267

ÞINGMÁL og úrslit þeirra:

I. Lagafrumvörp:

1.

Stjórnarfrumvörp:

a.

Lögð fyrir neðri deild

44

b.

Lögð fyrir efri deild

41

c.

Lögð fyrir sameinað þing

2

87

2.

Þingmannafrumvörp:

a.

Borin fram í neðri deild

22

b.

Borin fram í efri deild

14

36

123

Úrslit urðu þessi:

a.

Afgreidd sem, lög:

Stjórnarfrumvörp

52

Þingmannafrumvörp

11

63

b.

Vísað til ríkisstjórnarinnar:

Stjórnarfrumvörpum

2

Þingmannafrumvörpum

2

4

c.

Ekki útrædd:

Stjórnarfrumvörp

34

Þingmannafrumvörp

22

56

123

II. Þingsályktunartillögur:

Bornar fram í sameinuðu þingi

62

Úrslit urðu þessi:

Ályktanir Alþingis

15

Ekki útræddar

47

62

III. Fyrirspurnir

Í sameinuðu þingi 44. Sumar eru fleiri

saman á þingskjali svo að málatala

þeirra er ekki nema

25

Allar voru fyrirspurnir þessar ræddar eða svarað

skriflega nema einni, sem var tekin aftur.

Mál til meðferðar í þinginu alls

210

Skýrslur ráðherra voru

8

Tala prentaðra þingskjala

655

Yfirlit þetta sýnir þann fjölda mála, sem lögð hafa verið fyrir Alþingi, það sem nú er að ljúka störfum, og hverja afgreiðslu þau hafa hlotið, en að öðru leyti segir það lítið um þingstörfin.

Þegar þingið hófst skömmu fyrir jól sat að völdum starfsstjórn sem hafði ekki stuðning meiri hl. Alþingis. Tveir fyrstu mánuðir þingtímans fóru að mestu í viðræður utan þingfunda um myndun nýrrar ríkisstj. Þó voru á þeim tíma samþykkt allmörg ný lög sem meiri hl. þm. var sammála um að ekki mætti dragast að afgreiða.

Við myndun ríkisstj. urðu miklar breytingar á skipan manna í fastanefndir þingsins og hafði það nokkur áhrif á störf sumra þeirra. En stærsta verkefnið, sem beið þá afgreiðslu, var setning fjárlaga sem dregist hafði þangað til, og var það aðalviðfangsefni þingsins fram að páskahléi. Síðan hefur verið unnið að afgreiðslu annarra efnahagsmála, svo sem vegáætlunar og lánsfjárlaga, auk margra annarra. Þar má m. a. nefna tvo lagabálka á sviði félagsmála: lög um öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum og lög um Húsnæðisstofnun ríkisins. Í þinglokin komu landhelgismál einn sinni enn á dagskrá þar sem lögð var fram og samþykkt þáltill. um staðfestingu á samningum við Norðmenn um Jan Mayen.

Þau mál, sem Alþingi hefur nú fjallað um, eru því fjölbreytt eins og jafnan áður og snerta hag og afkomu hvers Íslendings og þjóðarheildarinnar á margvíslegan hátt. Það er því eðlilegt að um þau séu skiptar skoðanir og ýmislegt gagnrýnt, bæði utan þings og innan. Slík gagnrýni er líka nauðsynleg, enda væri virðing Alþingis ekki mikil hjá þjóðinni ef ekki væri talið sjálfsagt að gera meiri kröfur til þess en tekst að uppfylla hverju sinni. Ég er líka sannfærður um að hjá hverjum þm. býr einlægur vilji og ósk um að lengra megi ná í framtíðinni.

En að þessu sinni er löggjafarsamstarfinu lokið. Ég þakka hæstv. ríkisstj. og hv. alþm. ánægjulegt samstarf á þessu þingi og umburðarlyndi í minn garð. Sérstakar þakkir færi ég varaforsetum sem jafnan hafa veitt mér bestu aðstoð. Skrifurum þingsins þakka ég ágætt starf. Skrifstofustjóra og öllu starfsfólki Alþingis flyt ég kærar þakkir fyrir mikið og gott starf og ánægjulega samvinnu. Að lokum óska ég hv. alþm. og fjölskyldum þeirra gæfu og gengis og góðrar heimkomu og heimferðar. Það er von mín að öll megum við hittast heil til starfa á næsta þingi.

Landsmönnum öllum óska ég árs og friðar.