10.01.1980
Sameinað þing: 9. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í B-deild Alþingistíðinda. (335)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Mér er sérstök ánægja að því að fara nokkrum orðum um ríkisfjármálin í tilefni af þeirri fsp. sem hér hefur komið fram. Miðað við það furðulega moldviðri sem þyrlað hefur verið upp í þessum málum á undanförnum dögum, er satt að segja ekki vanþörf á því, þó að aðeins séu örfáir dagar þangað til gefst kostur á að ræða málið nánar því væntanlega verður nauðsynlegt að taka ríkisfjármálin til umr. á hinu háa Alþingi í næstu viku.

Ég vænti þess, að þær fréttir, sem frá fjmrn. hafa komið og gefa vísbendingu um atkomu ríkissjóðs á árinu 1979 miðað við bráðabirgðatölur, séu flestum þm. ánægjuefni, en ekki harms. Svo ætti að vera um alla þá sem hafa einhverja trú á því, að jafnvægi í ríkisbúskap sé mikilvægt fyrir efnahagsmál þjóðfélagsins. Vænti ég þess fastlega að a.m.k. þeir, sem hafa trú á því að það sé til góðs að ríkissjóður geti staðið skikkanlega, séu frekar ánægðir með þessar fréttir en hitt.

Sú hefur verið skoðun okkar Alþfl.-manna, og alls ekki okkar Alþfl.-manna einna, síður en svo, að jafnvægi í ríkisbúskap sé einn af mikilvægustu þáttum í þjóðarbúskapnum og forsenda fyrir því, að hægt sé að ná tökum á efnahagsmálum og verðbólgumálum í heild. Hins vegar hefur það vægast sagt gengið illa, þó svo margir flokkar þingsins hafi mikinn áhuga á því. Ég tek það sérstaklega fram, að sama sjónarmið og við höfum haft í þessum efnum hafa fjölmargir aðrir. Vil ég þá gjarnan nefna fyrrv. hæstv. fjmrh., sem ég held að þekki það manna best og sé manna fúsastur til að lýsa því yfir, hversu mikil nauðsyn sé á að tryggja jafnvægi í ríkisrekstrinum. Ég tek sérstaklega fram, að hann vann að því í síðustu ríkisstj., eftir því sem ég kynntist, bæði vel og röggsamlega, þó svo að sjónarmið hans hafi ekki alls staðar í þeirri hæstv. ríkisstj. haft fylgi.

Það, sem við Alþfl.-menn gerðum til þess að ná betri tökum á ríkisfjármálunum á þeim skamma tíma sem við höfðum til ráðstöfunar, var í fyrsta lagi að við reyndum að framfylgja ákvæðum laga um stjórn efnahagsmála o.fl., sem sett voru á Alþ. s.l. vor, þess efnis að spara skyldi í ríkisrekstrinum, skera niður útgjöld um 1000 millj. kr. Slíkt hefði verið auðveldara að framkvæma ef tekist hefði að ná því fram fyrir framkvæmdatímabilið, en ekki eftir að framkvæmdatímabili var lokið, eins og staðreyndin var þegar við komum að þessu máli. Okkur tókst hins vegar á örfáum dögum að ná fram niðurskurði í samræmi við þessi lagafyrirmæli um 500 millj. kr. Var það álit fjárlaga- og hagsýslustofnunar, að ekki væri þá unnt að framkvæma frekari niðurskurð miðað við þann stutta tíma sem eftir lifði af árinu. Í öðru lagi reyndum við að beita frekara aðhaldi við afgreiðslu umframfjárveitingabeiðna. Og í þriðja lagi lögðum við fyrir innheimtumenn ríkissjóðs að skila daglega innheimtum sínum þannig að það yrði engin bið á því að skattgjöld, sem þegnarnir greiddu, kæmust rakleiðis til ríkisins án ónauðsynlegra tafa á þeirri leið.

Mér dettur ekki í hug að halda að þessar aðgerðir einar geti áorkað því að breyting hefur orðið til hins betra í ríkisfjármálunum á síðustu mánuðum ársins, en vissulega mun enginn halda því fram að þær hafi engan þátt átt í því. Hvað svo sem því líður, og ég ætla síst að draga úr hlut fyrrv. fjmrh. og fyrrv. ríkisstj. í því máli, gerðist það 31. okt., eins og menn sjálfsagt muna, að ríkissjóður átti þá í fyrsta skipti í 4 ár inneign á hlaupareikningum sínum í Seðlabanka Íslands. Það var ekki búið að þurrka út skuld ríkissjóðs við Seðlabankann, síður en svo, heldur gerðist það í fyrsta skipti í 4 ár að ríkissjóður átti inneign á hlaupareikningum við Seðlabanka Íslands. slíkt hafði ekki gerst neinn dag 4 árin þar á undan. (Gripið fram í: Það var bara ein mínúta.)

Menn töluðu um að þetta hefði gerst í eina mínútu, þetta hefði gerst eina nótt. Eitt dagblaðanna skrifaði í forustugrein, að þetta hefði verið gert með því að fjmrn. hefði breytt yfirdráttarskuld á hlaupareikningi við Seðlabanka Íslands í fast lán, og skrifaði leiðara um talnafalsanir fjmrh. Ég heimilaði ritstjóra viðkomandi blaðs að afla sér þeirra upplýsinga sem hann lysti um þetta hjá ríkisbókara og í fjmrn. Það varð til þess að daginn eftir birti þetta blað leiðréttingu, þar sem sagði að það væri ekki rétt að breyting á yfirdráttarskuld í fast lán hefði átt sér stað í valdatíð núv, fjmrh., það hefði gerst í júnímánuði í sumar, sem sé nokkrum mánuðum áður en núv. ríkisstj. tók við völdum og nokkrum mánuðum áður en þessi niðurstaða hafði verið fengin. Hins vegar sá blaðið enga ástæðu til að breyta leiðara sínum eða draga til baka fullyrðingarnar um falsanir sem ég hefði notað í því sambandi. Önnur blöð fullyrtu, sjálfsagt samkv. upplýsingum sem hv. þm., sem hér greip fram í, kannast við að hin hagkvæma staða hefði aðeins verið eina nótt, því að daginn eftir, 1. nóv., hefði ríkissjóður þurft að greiða 6 milljarða kr. í launakostnað og þá þegar hefði hallinn á hlaupareikningum ríkissjóðs við Seðlabankann numið 5 milljörðum kr. Ekkert blaðanna, sem þessar upplýsingar birti og lagði síðan út af þeim í leiðurum, hafði hins vegar fyrir því að spyrjast fyrir um það í fjmrn. hvort þetta væri svo.

Staðreyndin er sú, að þetta var rangt. Það er rétt, að við þurftum að greiða í upphafi nóvembermánaðar 6 milljarða kr. í launagreiðslur, en þegar 5. nóv. var skuld ríkissjóðs við Seðlabanka Íslands komin niður í 2.7 milljarða kr., var sem sé um helmingi lægri en blöðin fullyrtu samkv. fenginni heimild, sem þau vildu ekki gefa upp og lögðu síðan út af í leiðurum sínum. Þessi niðurstaða var vissulega vísbending um jákvæða þróun, en ekki flugeldasýning, eins og t.d. hv. þm., sem greip fram í áðan og ræddi um mínútumál, vildi halda fram. Hin hagstæða staða hjá ríkissjóði, inneign í hlaupareikningum hjá Seðlabanka Íslands sem varð í fyrsta skipti í 4 ár, 31. okt., varði ekki aðeins þann eina dag eða þá einu nótt. Þetta gerðist aftur alla dagana í lok nóvembermánaðar, 27., 28., 29. og 30. nóv., og alveg frá 3. des. til desemberloka, að þremur dögum undanteknum. Meginhluta tveggja síðustu mánaða ársins hélst þessi staða, sem í fyrsta sinn í 4 ár kom upp 31. okt. Vissulega held ég því að menn geti séð af þessu að sú vísbending, sem staða ríkissjóðs á hlaupareikningum í Seðlabanka Íslands 31. okt. gaf til kynna, var marktæk. Hún hafði í för með sér að nær allan desembermánuð og meginhlutann af seinni helmingi nóvember var ríkissjóður hagstæður og átti verulegt fjármagn inni á hlaupareikningum sínum við Seðlabanka Íslands. Þetta gefur einnig tiltekna vísbendingu um afkomu ríkissjóðs á árinu 1979, sem ég vona að sé ekki harmtíðindi fyrir hv. þm., a.m.k. ekki þá sem einhvern áhuga hafa á að ríkisreksturinn sé heldur jákvæðari en neikvæðari.

Menn hafa dregið í efa, m.a. hv. þm. sem gerði fsp. áðan, að þær upplýsingar, sem ég hef gefið í bráðabirgðayfirliti um afkomu ríkissjóðs í árslok 1979, væru réttar. Ég vil aðeins taka fram í því sambandi, að þarna verður auðvitað að miða við eitthvað, hafa einhvern samanburð.

Hinn 12. júlí 1979 var gerð áætlun um afkomu ríkissjóðs til ársloka 1979. Á grundvelli þeirrar áætlunar um afkomu ríkissjóðs var m.a. gripið til þeirra ráðstafana af hæstv. þáv. ríkisstj. að gera ráð fyrir að leggja með brbl. á hækkað vörugjald og hækkaðan söluskatt til þess að afla aukinna tekna í ríkissjóð, og samið var við Seðlabanka Íslands um að hann veitti ríkissjóði bráðabirgðalán að upphæð 4.5 milljarða kr., sem ætti að endurgreiða á fyrstu þremur mánuðum ársins 1980. Samkv. greiðsluáætlun, sem gerð var 12. júlí 1979, var áætlað að staðan við Seðlabankann á árinu breyttist úr 26 milljörðum 358 millj. kr. eins og hún var við upphaf ársins, fyrst til hækkunar um 4 milljarða, síðan til hækkunar um 4.5 milljarða og yrði þannig 34 milljarðar 858 þús., lækkaði síðan um 5.1 milljarð þannig að niðurstaðan yrði tæplega 30 milljarðar kr. og hefði þannig skuldaaukning átt sér stað hjá ríkissjóði í Seðlabankanum um 3.7 milljarða kr. eða um það bil. Þetta var áætlunin sem hæstv. fyrrv. fjmrh. lagði til grundvallar tillögum þeim sem hann flutti í fyrrv. ríkisstj. um hækkun á sköttum með brbl. Í lok septembermánaðar var áætlað að skuldaaukning ríkissjóðs á árinu gæti orðið allmiklu meiri. Menn voru að tala um að það, sem ríkissjóður mundi skulda í árslokin hjá Seðlabanka, lægi einhvers staðar á milli 30 og 32 milljarða kr., en skuldin við upphaf ársins var 26.3 milljarðar kr., eins og ég sagði áðan. Samkv, tölum frá Seðlabanka Íslands og ríkisbókhaldi frá því á fyrstu dögum þessa mánaðar um stöðu ríkissjóðs við Seðlabankann í lok árs 1979 er staðan hins vegar sem hér segir:

Á hlaupareikningum ríkissjóðs er þá inneign upp á 6024 millj. kr. Ríkissjóðsvíxlar nema 4000 millj. kr., ógengisbundin verðbréf 21.8 milljörðum, umrætt bráðabirgðalán hjá ríkissjóði, sem á að greiðast upp á fyrstu þremur mánuðum ársins 1981, 4.5 milljörðum. Samtals eru þetta 24 milljarðar 357 millj. kr. Við þetta er síðan lagður verðbótaþáttur lána að upphæð 2 milljarðar 322 millj. kr. Heildarskuld ríkissjóðs við Seðlabanka Íslands samkv. bráðabirgðatölum er sem sé 26 milljarðar 679 millj. kr. Ég bið menn að hafa þessa tölu í huga miðað við áætlunina sem gerð var 12. júlí s.l., þar sem gert var ráð fyrir að skuldir ríkissjóðs hjá Seðlabankanum myndu verða tæplega 30 milljarðar kr. í árslok. Samkv. þessu yfirliti eru þær 26.6 milljarðar, og samkv. grófri áætlun, sem gerð var í septemberlok, var ráð fyrir því gert að skuld ríkissjóðs við Seðlabanka Íslands mundi nema milli 30 og 32 milljörðum. Þarna er því nokkurra milljarða kr. munur á þeim áætlunum, sem gerðar voru fyrst í júlí, en síðan í sept., á afkomu samkv. bráðabirgðatölum, til hagsbóta fyrir ríkissjóð.

Ef við berum saman þróunina frá upphafi árs 1979 til loka árs 1979 og nefnum sambærilegar tölur fyrir s.l. ár er samanburðurinn þessi: Frá ársbyrjun til ársloka 1978 uxu skuldir ríkissjóðs við Seðlabanka Íslands um 11.4 milljarða kr. Frá upphafi árs 1979 til loka árs 1979 uxu skuldir ríkissjóðs við Seðlabanka Íslands um 321 millj. kr. samkv. bráðabirgðatölum. 31. des. 1978 skuldaði ríkissjóður á hlaupareikningum sínum við Seðlabanka Íslands 9385 millj. kr. 31. des. 1979 átti ríkissjóður inni á hlaupareikningum sínum 6024 millj. kr. Ég vil taka það fram, að menn skyldu hafa jafnframt í huga að trúlega er sú krónutala, sem nefnd er í lok ársins 1979, milli 40 og 50% verðminni en sú krónutala sem nefnd var í árslokin 1978. Ég vil svo taka fram að endingu að hér er um bráðabirgðatölur að ræða, endanlegt uppgjör hefur ekki farið fram og fer ekki fram fyrr en í lok þessa mánaðar.

Hins vegar held ég að öllum sé ljóst, sem fylgjast með ríkisbúskapnum og þekkja til ríkisrekstrarins, að þessar bráðabirgðatölur gefa vísbendingu um mun jákvæðari þróun ríkisfjármálanna á síðasta ársfjórðungi 1979 en jafnvel bjartsýnustu menn þorðu að gera sér vonir um. Ég vil einnig taka fram, að ekkert hefur komið í ljós við athuganir fjmrn. og stofnana þess nú sem bendir til þess að þarna hafi átt sér stað skuldasöfnun hjá ríkinu, þ.e. að skýringin á þessu sé sú, að ríkissjóður skuldi viðskiptamönnum sínum umfram það sem eðlilegt er að gert sé í árslok.

Þetta ætla ég að láta nægja að sinni um afkomu ríkissjóðs eftir þeim bráðabirgðatölum sem eru handbærar nú.

Ég tek það enn og aftur fram, að hér er um bráðabirgðatölur að ræða. Endanlegt uppgjör fer fram innan hálfs mánaðar. Þá þarf ekki lengur um þessar tölur að deila, þá liggja þær fyrir. En ég held að það hljóti að vera alveg ljóst, þó svo að þessar bráðabirgðatölur kunni eitthvað að breytast, að þróunin tvo síðustu mánuði ársins hefur ótvírætt verið í jákvæða átt og er ótvírætt hægt að túlka hana þannig að menn geti átt von á betri afkomu ríkissjóðs á árinu 1979 en bjartsýnustu menn þorðu að gera sér vonir um í júlí og í sept. á því ári.

Þá ætla ég að víkja að þeim umr. sem verið hafa í fjölmiðlum upp á síðkastið, þar sem reynt hefur verið að skýra hina hagstæðu stöðu ríkissjóðs, sem er jákvæðari upp á nokkra milljarða kr. en gert var ráð fyrir, með því að ríkissjóður skuldaði nokkra milljónatugi til einstakra skóla; hvort ríkissjóður hafi sýnt hagstæðari útkomu með því að skulda einum skóla hér 600 þús. kr., öðrum skóla þar 1 millj. o.s.frv. Ég vek athygli á því, að hér erum við annars vegar að tala um nokkur hundruð þús. kr., en hins vegar um nokkra milljarða kr. Samanburðurinn verður því harla broslegur, svo að ekki sé meira sagt.

Áður en ég vík að því vil ég þó gjarnan láta þess getið, hvernig með þessi mál hefur verið farið af fjölmiðlum og hve sumir fjölmiðlar virðast gera sér far um að forðast að afla sér upplýsinga um þau mál sem þeir eru að fjalla um, þó að þær upplýsingar séu á reiðum höndum. Á baksíðu Þjóðviljans í dag er rætt við Björn Friðfinnsson fjármálastjóra Reykjavíkurborgar, þar sem haft er eftir honum, að fjmrh. hefði snuðað borgina um milljarð kr. í des., og látið að því liggja að þarna sé a.m.k. fundin að hluta til skýringin á því, hvernig á því standi að þróunin í ríkisfjármálum virðist hafa verið jákvæðari seinni hluta ársins en menn gerðu sér vonir um áður. Þetta er svo furðulegur fréttaflutningur að það tekur ekki nokkru tali og ég ætla ekki að fara öðrum orðum um hann en Björn Friðfinnsson gerir sjálfur í bréfi sem hann sendi fjölmiðlum og mér í morgun. Bréfið hljóðar svo:

„Reykjavík, 10. janúar 1980.

Í Þjóðviljanum í dag er ekki rétt farið með efni símtals við Einar Örn Stefánsson blaðamann um viðskiptastöðu ríkissjóðs gagnvart borgarsjóði um síðustu áramót. Í símtalinu svaraði ég spurningum blaðamannsins á þann veg, að það væri einkum þrennt sem hefði raskað áætlunum okkar varðandi stöðuna við ríkissjóð um áramót.

Í fyrsta lagi var framlag Jöfnunarsjóðs úrskurðað lægra en fyrri áætlanir Reykjavíkurborgar sýndu eða 28 þús. á íbúa í stað 30–31 þús., og sagði ég blaðamanni að við hefðum ekki fengið skýringu á því. Næmi mismunurinn allt að 180 millj. kr. fyrir borgarsjóð.“ — Mér hefur ekki unnist tími til að fá skýringar á þessu, en ég tek það fram, að hér er engin breyting á ferðinni sem gerð hefur verið að tilhlutan fjmrn., hvorki í des. né nóv., heldur um það að ræða að Reykjavíkurborg á von á því að framlag Jöfnunarsjóðs sé úrskurðað hærra en raunin varð á, og ég hef óskað eftir því að fá skýringar á þessu. Síðan segir Björn Friðfinnsson:

„Í öðru lagi hafði ríkissjóður ekki greitt okkur vegna launakostnaðar tónskóla miðað við fyrri greiðsluvenjur tæplega 40 millj. kr.“

Að því er mér er tjáð í menntmrn. nemur skuld ríkissjóðs við Reykjavíkurborg vegna tónlistarskóla ekki 40 millj. kr. í árslok, eins og fjármálastjórinn segir, heldur 17 millj. kr. Skýring getur hugsanlega verið að hluti af þessari upphæð gjaldfalli ekki fyrr en í jan., en þessi kostnaður er eins og kunnugt er ekki greiddur og gjaldfellur ekki fyrr en sveitarfélagið hefur lagt út fyrir honum.

„Í þriðja lagi hafði Tryggingastofnun ríkisins ekki getað sýnt okkur sömu lipurð og undanfarin ár að greiða okkur fyrir áramót eitthvað upp í desemberreikninga sjúkrastofnana borgarinnar, þótt þeir gjaldfalli í janúar.“

Þarna hafði sem sagt fjármálastjóri Reykjavíkurborgar óskað eftir að Tryggingastofnun ríkisins sýndi borginni þá lipurð að greiða borginni fé sem Tryggingastofnunin átti ekki að greiða fyrr en í janúar. Hér var ekki um 1 milljarð að ræða samkv. munnlegu samtali við fjármálastjóra í morgun, heldur 150 millj. kr. Síðar segir fjármálastjóri:

„Fullyrðingar um að ríkissjóður hafi snuðað borgina um milljarð kr. eru ekki frá mér komnar né heldur hugleiðingar um fallega reikninga Reykjavíkurborgar.

Loks er þess að geta, að ég bað blaðamanninn að hringja í mig síðar um daginn og lesa það fyrir mig sem hann hafði eftir mér haft. Blaðamaður lofaði því. Hann hlýtur að hafa hringt eitthvað annað.“

Þetta er dæmi um hvernig blöð, eins og Þjóðviljinn í þessu tilviki, leika sér að því að ljúga upp á saklausa menn, bera þá fyrir fréttum sem blaðið flytur, til þess að reyna að koma á núv. hæstv. ríkisstj., fjmrh. hennar, fjmrn. og embættismenn í fjármálakerfinu óorði af því að vera að hlunnfara borgarstofnanir um milljarð kr., eins og Þjóðviljinn gerir í þessu dæmi. Ég held að allir heiðvirðir blaðamenn hljóti að leiðrétta svona mistök, sem þeim vil ja á verða og geta á orðið, því ég vona að hér sé um mistök Þjóðviljans að ræða, en ekki að hann sé vísvitandi að gefa lesendum sínum rangar upplýsingar og vísvitandi að leiða þar mann til vitnis sem í skriflegri yfirlýsingu neitar að hafa rætt á þessum grundvelli við Þjóðviljann og samkv. upplýsingum bæði fjmrn., fjármáladeildar borgarinnar og Tryggingastofnunar væri að fara rangt með hefði verið rétt eftir honum haft.

Svo að ég víki að því sem ég var beinlínis spurður að, um skólakostnað, ætla ég fyrst að taka fram að öll laun, sem til hafa fallið vegna grunnskóla, voru greidd fyrir áramót, öll föst laun kennara, öll yfirvinna og öll stundakennaralaun. Það er því rangt, sem sagði í frétt í Ríkisútvarpinu fyrir þremur dögum, að ríkissjóður skuldi kennurum á grunnskólastigi laun sem átti að greiða þeim fyrir desemberlok. Það er rangt. Það hafa öll laun verið greidd, föst laun, yfirvinnulaun og stundakennaralaun, öll laun sem greidd eru samkv. stundaskrá.

Í öðru lagi er annar kostnaður, sem til fellur vegna grunnskóta, en þar er um að ræða kostnað sem sveitarfélögin greiða, en ríkissjóður endurgreiðir síðan með eftirágreiðslu þegar reikningum hefur verið framvísað. Þessi kostnaður er eins og annar kostnaður áætlaður í fjárlögum. Menntmrn. hefur þann hátt á, að það framreiknar miðað við vísitölu og verðbætur þann kostnað sem hér um ræðir, og síðan eiga fræðslustjórarnir í hverju umdæmi að sjá um að framsenda og uppáskrifa reikninga og sjá til þess, að fyrirmæli og áætlanir Alþ., sem á bak við búa, séu haldin. Allur kostnaður, allir reikningar, sem bárust til fjmrn. fyrir 12. des. s.l. og fjölluðu um kröfur sveitarfélaga um endurgreiðslu á reikningum vegna skólakostnaðar, hafa verið greiddir. Sú regla hefur ríkt í fjmrn. um langan tíma, og henni var fylgt nú eins og áður, að krefjast þess að reikningum, sem yrðu greiddir fyrir áramót, ætti að skila rn. fyrir tiltekinn tíma í des., svo að hægt væri að ganga frá þeim til greiðslu fyrir árslok. Ríkisstofnunum og öðrum slíkum aðilum var tilkynnt þetta nú eins og áður og miðað var við að reikningar væru komnir inn fyrir 12. des. Í fjmrn. var engu að síður tekin sú ákvörðun að taka einnig við til greiðslu reikningum sem bærust á þeim degi, þannig að fresturinn til að skila reikningum var framlengdur um einn dag eða allt til 13. des. Allir reikningar, sem fjmrn. fékk, allar kröfur um endurgreiðslur á reikningum vegna greiðslu sveitarfélaganna á skólakostnaði vegna grunnskóla, sem bárust á tilteknum tíma, voru greiddar fyrir áramót, að undanteknum örfáum reikningum vegna tónlistarfræðslu sem hafði farið mjög verulega fram úr áætlunartölu fjárlaga framreiknað. Eftir 12. des. bárust fjmrn. nokkrir reikningar til viðbótar og tilraun var gerð til að afgreiða þá einnig fyrir árslok. En ástæðan fyrir því, að það var ekki unnt, var einfaldlega sú, að milli jóla og nýárs voru að þessu sinni aðeins tveir vinnudagar, sem varð til þess að ekki var hægt að ljúka greiðslu þeirra reikninga, sem bárust eftir skilafrest, fyrr en nokkrir dagar voru liðnir af janúarmánuði.

Þetta er það sem gert er á hverju ári, og gerðist núna eins og oftast eða alltaf áður. Þannig hafa allir reikningar í þessu sambandi, sem komið höfðu til fjmrn. fyrir tilsettan tíma, verið greiddir. Hins vegar, eins og ég sagði áðan, ganga þessir reikningar fyrst frá fræðslustjórum í umdæmunum til fjármáladeildar menntmrn., sem framsendir þá síðan til afgreiðslu í fjmrn. Ég er með í höndunum fréttatilkynningu frá menntmrn. sem út var send í dag. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Vegna yfirlýsinga í fjölmiðlum um reikningsskil ríkissjóðs vegna rekstrarkostnaðar skóla vill rn. taka fram eftirfarandi:

Almennir grunnskólar eru reknir sameiginlega af ríki og sveitarfélögum. Kostnaður við skólahaldið skiptist milli þessara aðila í samræmi við ákvæði í lögum og reglugerðum. Í stórum dráttum er skipting kostnaðar með þeim hætti, að ríkissjóður greiðir beint mestan hluta launakostnaðar vegna kennslu, en sveitarfélög annast ýmsan annan rekstur. Ríkissjóður endurgreiðir síðan sveitarfélögum ýmsa kostnaðarliði við skólahaldið, ýmist mánaðarlega eða eftir á, við uppgjör rekstrarreiknings einu sinni á ári. Þar sem ríkissjóði ber að endurgreiða samkv. lögum á grundvelli reikninga sveitarfélaga hlýtur ríkissjóður eðli málsins samkv. oftast að vera í nokkurri skuld við sveitarfélögin, þótt þær skuldir séu ekki í öllum tilfellum gjaldfallnar.

Menntmrn. hefur reynt, eftir því sem kostur er, jafnt á þessu ári sem undanfarin ár að hraða sem mest öllum greiðslum til sveitarfélaga. Rn. hefur m.a. beitt sér fyrir því, að yfirvinna kennara samkv. stundaskrá og laun stundakennara eru nú greidd jafnóðum og beint frá fjmrn. í stað þess að sveitarfélög þurftu áður að leggja út þann kostnað og bíða síðan eftir endurgreiðslu ríkissjóðs. Hér er um greiðslur að ræða sem í des. námu um 276.8 millj. kr., sem ríkissjóður greiðir áður en þær eru gjaldfallnar samkv. lögum. Þetta fyrirkomulag var tekið upp s.l. haust í öllum fræðsluumdæmum eftir að það hafði verið reynt í tveimur umdæmum áður.“

M.ö.o.: í desembermánuði greiðir ríkissjóður, sem honum ber samkv. lögum ekki að greiða fyrr en í jan., fyrir sveitarfélögin 276.8 millj. kr., sem er nokkru hærri upphæð en hv. fyrirspyrjandi sagði að ríkissjóður skuldaði sveitarfélögum vegna eftirágreiðslu fyrir gjaldfallinn kostnað vegna grunnskólakerfisins. Þetta eru greiðslur sem sveitarfélögin hefðu að réttu lagi átt að inna af hendi í desembermánuði og ekki getað krafið ríkissjóð um samkv. grunnskólalögunum fyrr en í janúar. Ríkissjóður greiddi þetta hins vegar beint til kennara án þess að millifæra það til sveitarfélaganna í desember. Með þessum hætti urðu greiðslur til kennara greiðari og hraðari en ella hefði orðið og byrðinni létt af sveitarfélögunum. Og það, sem ríkissjóður hefur greitt í þessu sambandi fyrir sveitarfélögin í desembermánuði, nemur hærri fjárhæð en hv. fyrirspyrjandi sagði áðan að ríkissjóður skuldaði sveitarfélögunum vegna eftirágreiðslukröfu. Tók þó hv. fyrirspyrjandi sérstaklega fram í ræðu sinni að stór hluti af þeirri fjárhæð, sem fyrirspyrjandi nefndi, gjaldfélli raunar ekki fyrr en eftir áramótin. Ég er því hræddur um að ef dæmið væri upp gert á þeim eina grundvelli, hvað ríkissjóður hefði greitt fyrir sveitarfélögin í des. vegna skólakostnaðar og hvað sveitarfélögin eiga inni hjá ríkissjóði, mundu þeir reikningar halla heldur betur á sveitarfélögin.

Síðan segir í frétt menntmrn.:

„Greiðsla ríkissjóðs vegna kostnaðar við grunnskóla sem og annar kostnaður ríkisins er ákveðinn af Alþ. í fjárlögum ár hvert. Alþ. ákvað við gerð fjárlaga ársins 1979 talsverða lækkun á tillögum rn. um framlög til rekstrar grunnskóla. Þrátt fyrir að reynt var að koma á ýmsum sparnaði og aðhaldsaðgerðum, sem fólu í sér m.a. fækkun kennslustunda, takmörkun yfirvinnu o.fl., fóru greiðslur ríkissjóðs vegna rekstrar grunnskóla um 630 millj. kr. fram úr verðbættum fjárveitingum fjárlaga.“ — Rekstrarkostnaður grunnskóla fór þannig 630 millj. kr. fram úr framreiknuðum fjárveitingum Alþ., uppfærðum til verðlags. — „Greiðslustaða hinna ýmsu fræðsluumdæma,“ segir menntmrn. síðan, „er hins vegar mjög misjöfn eða frá því að vera innan fjárlaga til þess að fara tæpar 250 millj. fram úr verðbættum framlögum.“

Ég vil aðeins taka fram, að mér er fullkunnugt um það t.d. í einu fræðsluumdæmi, sem hélt sig innan fyrirmæla Alþ. um annan kostnað vegna grunnskólarekstrar, sem sveitarfélögin greiða og eiga endurgreiðslukröfu á til ríkissjóðs, að í skólum þar var að undirlagi fræðsluyfirvalda staðið gegn því að farið yrði í aukavinnugreiðslum fram úr þeim mörkum sem Alþ. ákvað í því skyni. Og niðurstaðan hefur orðið sú, að ekki var farið fram yfir þær heimildir, framreiknaðar og uppfærðar, til núverandi verðlags, sem Alþ. gaf. Hins vegar hafa önnur sveitarfélög farið þarna langt fram yfir, vegna þess að þar hefur verið heimilaður meiri aukavinnukostnaður en Alþ. gerði ráð fyrir við afgreiðslu fjárlaga. Í sumum tilvikum hefur þarna að magni til í jafnvirðiskrónum verið farið 10% fram yfir þær heimildir sem Alþ. hafði veitt. Ég tel að það sé skylda bæði fjmrn., fjmrh., menntmrn. og þeirra, sem með þessi mál fara í menntmrn., að reyna að stemma stigu við slíku. Ég vil taka það fram, að fjármáladeild menntmrn. hefur staðið sig mjög vel þar, og ber a.m.k. okkur alþm., sem förum með fjárveitingavaldið, að þakka þeim fyrir verk þeirra í því sambandi að reyna að halda útgjöldum vegna skóla innan við það sem Alþ. hefur ákveðið, vegna þess að ef einstaklingar, sem fara með ríkisins fé, geta ávísað sjálfir á ríkissjóð með þeim hætti að fara eins og þeir vilja fram úr þeim fjárlögum sem Alþ. afgreiðir þá er náttúrlega tilgangslaust fyrir Alþ. að vera að fara með fjárveitingavald. Þá er valdið annarra en okkar hv. alþm.

Síðan segir í fréttatilkynningu rn.:

„Aðhaldsaðgerðir rn. á öðrum sviðum gerðu það að verkum að greiðslustaða rn. í heild veitti svigrúm meginhluta ársins til að endurgreiða skólakostnað grunnskóla tafarlaust. Þessi staða raskaðist síðustu 2–3 mánuði, m.a. vegna þess að greiðslum vegna stundakennslu og yfirvinnu var hraðað. Varð því þessa mánuði að taka upp þann hátt að nýju að greiða sveitarfélögum mánuði eftir á. Afgreiðsla reikninga var með þeim hætti, að þeir reikningar, sem bárust rn. fyrir 20. nóv., voru afgreiddir um mánaðamót nóv.— Des., en þeir reikningar, sem bárust eftir þann tíma og fram í miðjan des., voru afgreiddir til greiðslu um áramót. Undantekningar voru að sjálfsögðu frá þessari reglu, þar sem þannig stóð á, að greiðslur voru innan marka fjárlaga, og í þeim tilvikum er fræðslustjórar upplýstu að sveitarsjóðir stæðu sérstaklega illa fjárhagslega, þá var greitt strax.“

Þetta var sem sé ekkert vandamál hjá þeim fræðsluumdæmum sem héldu sig innan þeirra marka sem Alþ. uppálagði þeim. Þetta var ekki heldur vandamál gagnvart þeim sveitarfélögum sem að áliti fræðslustjóra höfðu að vísu farið fram úr, en voru mjög illa stæð. Hins vegar tók fjármáladeild menntmrn. þá ákvörðun að veita aðhald í þeim fræðsluumdæmum sem höfðu farið mjög verulega fram úr þeim heimildum sem Alþ. veitti til fjárgreiðslna í þessu sambandi. Það er tvímælalaust skoðun mín, að ekki hafi aðeins verið rétt af menntmrn., heldur bókstaflega skylda þeirra manna þar, sem með þessi mál fara að gera það. Ef alþm. vilja afsala sér fjárveitingavaldinu í þessum efnum, skulu þeir gera það umbúðalaust, en ekki með því að atyrða embættismenn ríkisins fyrir að gera það sem þeim ber til þess að reyna að halda þannig á málum að ákvarðanir Alþ. um fjárútgjöld úr ríkissjóði verði ekki sniðgengnar.

„Sú vinnuaðferð,“ segir síðan hjá menntmrn., sem hér var viðhöfð af hálfu menntmrn. beindist að því að jafna greiðslustreymið milli ríkissjóðs og sveitarfélaga án þess að auka skuldir ríkissjóðs við sveitarfélög þegar á heildina er litið, jafnhliða því sem reynt var að tryggja að ekki yrði farið fram úr heildarfjárveitingum til menntamála.

Við hvort tveggja var staðið. Greiðslustaða ríkissjóðs gagnvart sveitarfélögum vegna rekstrar grunnskóla er síst lakari um þessi áramót en verið hefur undanfarin ár.“

Menntmrn. fullyrðir í fréttatilkynningu sinni, að það sé rangt sem haldið sé fram, að rn. og fjmrn. hafi vísvitandi stefnt að því að bæta greiðslustöðu ríkissjóðs gagnvart sveitarfélögum með því að safna ógreiddum reikningum sveitarfélaga vegna grunnskólakostnaðar, en greiða þá ekki. Menntmrn. fullyrðir þvert á móti að greiðslustaða ríkissjóðs gagnvart sveitarfélögum vegna rekstrar grunnskóla sé síst lakari um áramótin síðustu en verið hefur. Sama kemur fram í yfirlýsingu frá ríkisbókara, sem ég er með í höndunum. Ríkisbókari segir einnig í yfirlýsingu sinni frá því, að ætla megi að skuldaaukning ríkissjóðs á árinu 1979 vegna grunnskóla sé mjög óveruleg. — Menntmrn. segir að hún sé engin. Ríkisbókari segist ætla að hún sé mjög óveruleg. Það moldviðri, sem verið er að þyrla upp núna, er því á rangindum byggt og leiðir til rangrar og villandi niðurstöðu.

Spurningin er því sú, hvort sveitarfélög hafi skaðast á þessum viðskiptum. Svo er ekki. Sveitarfélögin hafa hagnast á þeirri breytingu sem gerð var í haust, þegar ríkissjóður fór að greiða milliliðalaust og beint til kennara yfirvinnu- og stundavinnugreiðslur. Þau hafa ekki skaðast á því, þvert á móti hafa þau hagnast á því, og það, sem ríkissjóður hefur lagt fram í því sambandi, er meira fé en nemur kröfu sveitarfélaga á hendur honum vegna endurgreiðslu á þeim reikningum sem gjaldfallnir kunna að hafa talist fyrir áramót, en þessar ástæður lágu fyrir því, eins og ég sagði áðan, að menntmrn. framsendi ekki aths.laust. Hins vegar er mér alveg ljóst hvað einstök sveitarfélög varðar, þó svona sé staðið að þegar á heildina er lítið, að þan geta verið verr sett í þessu sambandi núna en áður, þó að staðan í heild sé svona.

Mér er líka kunnugt um, svo að það séu lokaorð mín í þessu sambandi, að í tilteknu fræðsluumdæmi, þar sem vandræðin eru hvað verst, hefur það gerst að ekkert sveitarfélag fékk fyrir áramót endurgreiddan framlagðan kostnað vegna grunnskóla. En líka er til skýring á því. Fyrstu greiðslur sveitarfélaga vegna grunnskóla fara fram í septembermánuði. Þeir reikningar eru í flestöllum tilvikum framsendir menntmrn. og síðan fjmrn. til endurgreiðslu mánuðinn á eftir, þ.e.a.s. í októbermánuði. En í hinu tiltekna fræðsluumdæmi barst enginn reikningur frá fræðslustjóra fyrr en um mánaðamótin nóv.–des. Enginn reikningur, sem greiddur var af sveitarfélögum í septembermánuði vegna grunnskóla, var þannig sendur menntmrn. og fjmrn. fyrr en í lok nóvembermánaðar. Enginn reikningur, sem greiddur var af sveitarfélögum í októbermánuði, var heldur sendur fyrr. Þetta er ekki sú venja sem fræðslustjórar viðhafa í þessu sambandi, því að þeir senda jafnan reikningana nokkurn veginn jafnóðum og þeir berast. Það gerðist hins vegar ekki í þessu tilviki. Þess vegna hafa sveitarfélög í hinu tiltekna fræðsluumdæmi lent í því að fá ekki endurgreiðslur fyrir áramót. En það er hvorki vegna þess að fjmrn. hafi tafið greiðslur þeirra reikninga né heldur menntmrn., heldur vegna hins, að fræðslustjóri umdæmisins framsendi ekki þessa reikninga fyrr en um mánaðamótin nóv.–des. Ég hef óskað eftir því við fjármáladeild menntmrn. að það gangi úr skugga um hvað veldur.