10.01.1980
Sameinað þing: 9. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í B-deild Alþingistíðinda. (343)

Umræður utan dagskrár

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. og reyndar einnig hæstv. menntmrh. fyrir þær fróðlegu upplýsingar sem þeir hafa veitt hér í dag.

Ég sé ekki ástæðu til að tína upp í smáatriðum það sem fram kom í ræðu hæstv. fjmrh., en vil undirstrika að allt, sem ég sagði í ræðu minni áðan, stendur óhaggað. Eins og mig grunaði var þarna samspil á milli rn. Það var hins vegar menntmrn. sem stöðvaði greiðslurnar í stað fjmrn. að þessu sinni.

Það er misskilningur hæstv. fjmrh., að ég hafi dregið í efa réttmæti fréttaflutnings hans, eins og hann sagði. Þvert á móti sagðist ég ekki draga hann í efa, en vildi hins vegar mótmæla því, að á sama tíma og þessar fréttir kæmu fram væru þessi umræddu vanskil við sveitarfélögin sem hefði mátt leysa. Hitt fannst mér miður, að hlusta á ummæli og aðdróttanir hæstv. fjmrh. í garð starfsmanna — trúnaðarmanna — menntmrn. heima í héruðum, fræðslustjóranna, þegar hann gefur í skyn að þeir fari illa með og sói fjármunum ríkisins án heimildar. Einnig var miður að hlusta á hann bera á borð það skilningsleysi að telja það broslega stöðu að hér væru sveitarfélögin að tala um milljónir eða jafnvel hundruð þúsunda þegar ríkissjóður væri að glíma við milljarða. Þessi orð gefa tilefni til að draga þá ályktun að hæstv. fjmrh.hafi ekki sett sig inn í stöðu hinna einstöku sveitarfélaga. Nokkur hundruð þús. kr. eða nokkrar millj. geta orðið þeim hlutfallslega jafnþung byrði og milljarðarnir ríkissjóði. Ég geri ekki ráð fyrir að hæstv. ráðh. hefði viljað standa frammi fyrir því, að sveitarfélögin hefðu orðið að hætta að aka börnum á milli heimilis og skóla víða úti um landsbyggðina vegna vanskila ríkissjóðs af þeim sökum. Einn stærsti liðurinn í þeim tölum, sem ég nefndi, er einmitt vegna skólaakstursins.

Ég vil leyfa mér að þakka hv. þm. sem hafa lagt gott til þessara mála í umr., því að ég tel að þessar umr. hafi verið góð lexía fyrir hv. þm. um dæmigerð vandamál í verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, þegar ekki fara saman stjórnun og fjármálaleg ábyrgð.