10.01.1980
Sameinað þing: 9. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í B-deild Alþingistíðinda. (346)

Umræður utan dagskrár

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Ég hafði nú hreint ekki gert ráð fyrir því að þurfa að koma hér upp aftur. En vegna ummæla hæstv. fjmrh. varðandi Reykjanesumdæmi, að það hefði skuldað ríkissjóði 54 millj. um síðustu áramót, vegna þess að gert hefði verið eitthvert nýtt góðverk með því að leggja fram í des. fé sem því ekki bar, þá vil ég upplýsa hæstv. fjmrh. um að þessi regla hefur verið í gildi í Reykjanesumdæmi frá því janúarbyrjun 1978, þ.e. í tvö ár. Þetta er því engin nýlunda sem hefði átt að koma á óvart, að ríkissjóður legði fram þetta fé í des. nú eins og hann gerði áður varðandi Reykjanesumdæmi. Ég tek það fram vegna þess að það var einmitt Reykjanesumdæmi sem hafði frumkvæði um að koma þessu á, að sjá um þessar endurgreiðslur á yfirvinnu kennara beint í gegnum ríkissjóð. Ég vil taka undir það, að þessi ráðstöfun var tvímælalaust til bóta og henni var vel fagnað af þeim sveitarfélögum sem fengu þessa fyrirgreiðslu á sínum tíma, og ég er viss um að það er gert enn, því að það er sjálfsagt að þakka það sem vel er gert, ekki síst þegar verið er að gagnrýna annað sem miður fer.

Ég tel mig einnig knúna til þess að nefna hér tölur, vegna þess að hæstv. ráðh. fullyrðir einu sinni enn, að engir reikningar hafi verið komnir inn vegna Reykjanesumdæmis eða ógreiddir um áramótin: Greiðslubeiðnum framvísað 29. nóv. 1979, þar af kvótagreiðslur, upphæð 6 847 268 kr. Akstur, upphæð 32 485 599 kr., eða samtals rúmar 39 millj. Fyrir 10. des. voru lagðar inn greiðslubeiðnir vegna kvótagreiðslna upp á rúmar 3 millj. og vegna aksturs upp á rúmar 6 millj., eða samtals 10 millj. Og síðan fyrir 31. des. upp á samtals tæpar 15 millj., sem að sjálfsögðu var ekki gert ráð fyrir að yrðu greiddar fyrir áramót. Þetta eru staðreyndir sem verða ekki hraktar. Ef ríkisbókhaldið eða hæstv. fjmrh. hefur ekki fengið upplýsingar um þetta, þá verður hann að biðja ágæta starfsmenn í menntmrn. að leita betur í möppunum, því að einhvers staðar liggja gögnin.