10.01.1980
Sameinað þing: 9. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í B-deild Alþingistíðinda. (349)

Umræður utan dagskrár

Dómsmrh. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Áður fyrr datt hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni stundum ýmislegt í hug. Honum datt það sjálfum í hug og mikið af því voru frumlegar hugmyndir. Þannig er, að um þetta mál hefur þegar komið fram fsp. frá hv. þm. Pétri Sigurðssyni, sundurliðuð og þar spurt í smáatriðum, sem mér skilst að eigi að taka fyrir á þriðjudaginn kemur. Hv. þm. Ólafur Ragnar hefur stolið glæpnum af hv. þm. Pétri Sigurðssyni. Frumlegt getur það satt að segja varla talist.

Til þess embættis, sem hér um ræðir, var stofnað ásamt öðrum nýjungum sem gerðar voru till. um og tilraunir með í dómsmrn. þegar ég settist þar inn upp úr miðjum októbermánuði. Hér er um að ræða stöðu sem auglýst var með mánaðarfyrirvara, og til þessarar stöðu var stofnað áður en til kosninga kom. Hún á ekkert skylt við hugmyndir eða tilraunir til að útvega föllnum gæðingum í þingkosningum embætti, eins og hér var látið að liggja. Það var sem sagt mánaðar umsóknarfrestur, og þegar sá umsóknarfrestur rann út höfðu borist sex umsóknir. Þær voru frá Gunnlaugi Þórðarsyni, Hafsteini Einarssyni, Páli Skúlasyni, Birni Baldurssyni, Þorsteini L. Jónssyni og Finni Torfa Stefánssyni. Ég tel mig hafa lagt á það hæfnismat, sem ekki er hægt að vefengja, þegar ég tók um það ákvörðun að veita Finni Torfa Stefánssyni þetta embætti, þó svo að hann sé flokksbróðir minn. Nú vil ég hins vegar segja það — og þar er munurinn á þessari embættisveitingu og þeirri sem ég skrifaði um í júlímánuði 1978 og hv. þm. fjallaði um hér áðan — að við Finn Torfa var gerður ráðningarsamningur. Embættið var auglýst frá og með 1. jan. og það varð þess vegna að veita á þeim tíma. En vegna þess að hann er flokksbróðir minn og skoðanabróðir, þá er í þeim ráðningarsamningi búið svo um hnútana að viðkomandi er einasta ráðinn í eitt ár. Það er því næsta ráðh. í sjálfsvald sett að skipta um mann eða leggja starfið niður hafi hann aðrar hugmyndir þar um. Á þessu er grundvallarmunur, að um æviráðningu var að ræða í því tilfelli, sem hv. þm. nefndi, en um það er ekki að ræða hér. Hér er um að ræða tilraunastarf sem ég vil lýsa nokkru nánar. Ég dreg enga dul á það, að mér var ljóst að slík ákvörðun kann að orka tvímælis, þegar um flokksbræður er að ræða, og slíkt leggur okkur öllum, sem hér erum inni, oft tiltekinn vanda á herðar. En spyrja má líka: Eiga menn að líða fyrir það að vera flokksbræður annarra? Spurningin getur verið sú. Spurningin getur líka verið um það, hvort um misnotkun sé að ræða. Við hljótum að treysta á okkar eigin dómgreind í hvert eitt einasta sinn sem við tökum slíka ákvörðun.

Árum saman hafa verið umr. hér á hv. Alþ. um embætti svokallaðs umboðsmanns Alþingis. Þessu starfi er ætlað að vera þjónustustarf við borgarana og því er ætlað að vera óháð í þeim skilningi, að borgararnir geti til þessa umboðsmanns leitað, ef þeir telja af stjórnvaldsstofnunum á rétti sínum troðið. Þessu starfi er ætlað að vera leiðbeinandi um rangala kerfisins, og því er ætlað að vera með þessum hætti þjónusta við borgarana. Þó að umr. hafi staðið um þetta að ég hygg á tíunda ár, með hléum að vísu, hér á hv. Alþ., þá hefur þetta enn ekki komið til framkvæmda. Hér var að vísu flutt um slíkt embætti ítarlegt frv. 1972, en það varð ekki útrætt. Það, sem hér er um að ræða, er að gerð er tilraun, innan þeirra marka sem leyfileg eru, til þess að fikra sig í átt að þessu starfi. Auðvitað eru samfara þessu tilteknir erfiðleikar. Hér er um að ræða starfsmann í rn. Fyrst í stað verður hann ekki svo óháður sem æskilegt væri, en engu að síður er það hugmyndin. Og ég hygg að reynsla fyrstu 10 daga í sambandi við þetta starf sýni, hversu mikið borgararnir hafa til þessa embættis leitað, að slíkt starf hefur verið nauðsynlegt.

Mín von og minn draumur er sá — ef fleiri þm. væru um það sammála — að þetta starf þróist yfir í það að verða starf umboðsmanns Alþingis, sem verði þá flutt úr rn. og hingað í því skyni að tryggja algert sjálfstæði þess, að tryggja að það sé ekki undir þrýstingi neins staðar frá. Ég viðurkenni ágalla á starfinu eins og það hefur nú verið mótað. En það var sannfæring mín engu að síður, að þetta væri tilraunarinnar virði, og mér sýnist reynsla þessara fyrstu daga ætla að sanna það. (Gripið fram í: Segðu okkur frá reynslunni.) Reynslan er sú, að það hafa sennilega á fimmta tug borgara leitað til þessa embættis og fengið úrlausn. Því hef ég kynnst á þeim vikum, sem ég hef setið í þessu rn., hvað almennir borgarar í þessu landi eru oft lítt vitandi um réttarstöðu sína og um það, með hverjum hætti þeir geti fengið sín mál tekin fyrir, hvar þau eru niður komin í dómskerfinu, o.s.frv. Þetta er nú reynsla eftir að hafa fylgst með þessu starfi þessa örfáu daga og ég er sannfærður um að þegar upp verður staðið að ári liðnu, þá verður það skoðun okkar, að þessu formi megi e.t.v. breyta og þá væntanlega í þá veru sem ég hef hér lýst, en að starfið sé skynsamlegt og veiti borgurunum góða þjónustu. Það er þessi reynsla sem ég er að tala um.

Ég vil svo enn endurtaka það, að gerður er ráðningarsamningur við þann einstakling sem hlut á að máli. Sá ráðningarsamningur stendur einasta í eitt ár, m.a. vegna þeirrar óvissu, sem hér er í stjórnmálalífinu, og vegna þess að ég taldi það skynsamlega að staðið, þar sem um flokksbróður minn er að ræða. Starfið á að standa til tveggja ára. Við vorum sammála um að hafa þetta svo, þar sem svona væri í pottinn búið.

Mér er ljóst að embættisveitingum fylgja ævinlega vissir erfiðleikar. Enginn vill láta mann líða fyrir að vera skoðanabróðir. En á hinn bóginn geta embættisveitingar farið út í öfgar, eins og ég heyri að hv. þm. telur að orðið hafi í þessu tilfelli.

Þau ummæli hv. þm., að hér sé verið að skipa pólitískan gæðing, þýða væntanlega það, að hv. þm. óttast að viðkomandi einstaklingur muni misnota stöðuna í pólitísku skyni. Það held ég að sé ofætlun. Þetta held ég að eigi sér ekki stað í þessu tilfelli. Sjálfur hef ég verið menntaskólakennari í nokkur ár. Því fylgir t.d. að kenna stjórnmálasögu 20. aldar. Ég er flokksbundinn í Alþfl. og hef verið þm. nú á annað ár. Ég tel að mér hafi reynst fært að rugla því ekki saman, blanda því ekki saman, misnota ekki stöðu mína sem kennari, þó að ég jafnframt taki þátt í stjórnmálum. Mér segir svo hugur um, að þetta gildi um okkur fleiri. Mér skilst að t.d. hv. þm., sem tók til máls, hafi verið prófessor í stjórnmálafræðum, sem eru að einhverju leyti skyld þeim umr. sem oft fara hér fram, og ég treysti honum fullkomlega til að sýna meiri dómgreind í kennslustofu en hann sýnir oft hér í ræðustól, og er raunar viss um að hann gerir það. Þetta er nokkuð sem við verðum að búa við. Og ég dreg enga dul á að ég ber fyllsta traust til Finns Torfa Stefánssonar, sem ég réð í þetta embætti, vegna þess að ég taldi hann hæfastan af þeim umsækjendum, sem hér var um að ræða, og lagði á það kalt mat. En við gerðum ráðningarsamning sem stendur til eins ár. Það er ekki verið að æviráða mann á jötuna, heldur er svona að þessu staðið.

Hv. þm. bar fram átta spurningar sem mér sýnist að séu efnislega keimlíkar. Ég hygg að þeim hafi verið svarað hér.

Hann spyr fyrst: Hvers vegna er það nú gert sem áður var hneyksli? Ég endurtek það, hvernig að þessari ráðningu hefur verið staðið, og á því og hinu, sem hv. þm. ræddi um, er grundvallarmunur.

Hann spyr í öðru lagi: Hvers vegna ögrar hann þjóðinni og þinginu? Ég held að í þessum efnum sé ekki um ögrun að ræða, hvorki við þjóð né þing, af þeim ástæðum sem hér hefur verið lýst.

Hann spyr í þriðja lagi: Ef þetta var rangt 1978, af hverju er það rétt nú? Ég hef lýst því, að á þessu er grundvallarmunur hvernig að er staðið.

Fjórða spurning sýndist mér vera sama og sú þriðja. Í fimmta lagi spurði hann: Hvað hafði Finnur Torfi Stefánsson fram yfir aðra umsækjendur? Finnur Torfi Stefánsson, sem embættið hlaut, hafði áður en hann gerðist þm. 1978 um nokkurra ára skeið rekið lögfræðiskrifstofu hér í borg og m.a. verið lögfræðingur fyrir verkalýðsfélög og sinnt erindum félagsmanna þar. Að sumu leyti er þar um skyld erindi og efni að ræða, og ég taldi að þessi reynsla m.a. gerði hann fullkomlega hæfan í þetta embætti. Ef hv. þm. er þeirrar skoðunar, að annar hafi verið hæfari, þá er ég auðvitað fullkomlega tilbúinn til að hlýða á rök hans um það.

Í sjötta lagi spyr hann: Af hverju barst hans umsókn rn. 19. des., þegar umsóknarfrestur var til 15. des.? (Gripið fram í: Það er vegna póstsamgangna.) Nei, það er ekki vegna póstsamgangna. Hér er um að ræða afgreiðslustimpil, þ.e. stimpil um það, hvenær bréfið er lagt inn í afgreiðsluna. En bréf koma með ýmsum hætti til starfsmanna rn. eða til mín persónulega, og þetta bréf barst einum eða tveimur dögum fyrir tilskilinn tíma til mín persónulega. Ég lét þann aðila í rn., sem hafði með það að gera að safna þessum umsóknum saman, um það vita. Ég hygg að það gildi líka um aðra umsókn. Tvær af þessum umsóknum hafa afgreiðslustimpil eftir 15. des.

Í sjöunda lagi spyr hann: Ætlar ríkisstj. að skipa í fleiri embætti? Nú er það svo, að ég get upplýst það, að ég hef skipað í fleiri embætti en þetta (ÓRG: Voru líka ráðningarsamningar þá?) Nei, t.d. skipaði ég sýslumann í Strandasýslu. Þar var ekki um ráðningarsamning að ræða. En eftir því sem ég hef talið mögulegt hef ég frestað öðrum embættaveitingum af þeim ástæðum sem hér hefur verið lýst. Ég nefni t.d. prófessorsembætti í sögu við Háskóla Íslands. Um það hefur verið skrifað í blöð og spurst fyrir um hvernig standi á að ekki hafi verið skipað í þá stöðu, og þær ástæður eru ekki ósvipaðar því sem hv. þm. lýsti. En þegar um það er að ræða, að ákveðið hefur verið — í þessu tilfelli af núv. ríkisstj. og í öðrum tilfellum með lögum — að í embætti þurfi að skipa fyrir tiltekinn dag og sá dagur rennur upp, þá getur svo farið, að ekki sé hægt annað en að ganga frá því. Og ég hygg að um ekkert annað embætti verði það sagt, að flokkssystkin mín eigi í hlut, en það er rétt í þessu tilfelli, að ég og Finnur Torfi Stefánsson erum í sama stjórnmálaflokki.

Í áttunda lagi spyr hv. þm. um það, hvort núv. dómsmrh. sé genginn inn í samtryggingarkerfi stjórnmálaflokkanna, og svarið er nei. Það er ekki um það að ræða. Ég er sannfærður um að ef mótun þessa embættis tekst eins og vonir standa til, þ.e. að þetta þróist yfir í að verða embætti umboðsmanns og þá væntanlega Alþingis.- og ég hygg að bæði ég og hv. fyrirspyrjandi séum áhugasamir um það, þá eigi eftir að koma í ljós að þetta embætti er tilraunarinnar virði.

Á þskj. 87 er fsp. frá hv. þm. Pétri Sigurðssyni um sama efni. Ég hygg að hér hafi öllu verið svarað, sem þar er um spurt, nema því sem spurt er um launakjör, og ég vil nota tækifærið og svara því (SvH: Vill ekki hæstv. ráðh. hinkra við eftir þeim fyrirspyrjanda?) Jú, að sjálfsögðu skal orðið við því.

Ég hygg að þetta mál hafi verið reifað. Þetta eru mínar skýringar á því sem hér hefur verið gert, og ég endurtek það enn einu sinni vegna þess sem hv. þm. las upp úr blaðagrein, að það er ráðið í þetta embætti til eins árs. Ég hygg að fyrr en varir komi þingið sér saman um að öðruvísi verði hér stjórnað og öðruvísi ríkisstj. komi. Ég tek undir það með hv. þm., að þetta eru erfiðar aðstæður, en stjórnkerfið verður engu að síður að ganga sinn gang.