17.12.1979
Efri deild: 3. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í B-deild Alþingistíðinda. (35)

16. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Iðnrh. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er um að ræða, er svo hljóðandi:

„1. gr.: 1. gr. laga nr. 83/1974 orðist þannig:

Greiða skal 19% verðjöfnunargjald í Orkusjóð af seldri raforku á síðasta stigi viðskipta, þ.e. sölu til notenda, en notandi telst sá, sem endurselur ekki raforkuna. Verðjöfnunargjaldinu skal varið til þess að bæta fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða. Rafmagnsveitur ríkisins skulu fá sem svarar 80% af tekjum af verðjöfnunargjaldi, en Orkubú Vestfjarða 20%.

2. gr.: Í stað „1975“ í 16. gr. l. nr. 83/1974 kemur: 1980.

3. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi“. Verðjöfnunargjald af raforku hefur verið í lögum frá árinu 1974. Hafa lögin jafnan verið framleng til eins árs í senn og er það enn lagt til með þessu frv. Tilgangur verðjöfnunargjaldsins hefur verið að draga úr rekstrarhalla Rafmagnsveitna ríkisins og er svo enn. Árið 1977 voru gerðar þær breytingar á lögunum, að verðjöfnunargjaldinu var skipt milli Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða, þannig að Rafmagnsveiturnar fengu 80% gjaldsins og Orkubúið 20%, en Orkubúið tók til starfa 1. jan. 1978.

Í frv. er lagt til að gjaldið og skipting þess verði óbreytt.

Eins og alkunna er hafa Rafmagnsveitur ríkisins átt við stöðuga fjárhagsörðugleika að stríða, verðjöfnunargjaldið hefur ekki nægt til þess að standa undir rekstrarhalla þeirra. Rafmagnsveiturnar hafa því einnig orðið að taka mjög óhagstæð lán og viðskiptavinir Rafmagnsveitnanna hafa orðið að standa undir þeim gjaldskrárhækkunum fram yfir eðlilegar kostnaðarhækkanir. Þrátt fyrir verðjöfnunargjaldið hefur ríkissjóður orðið að leggja fram til Rafmagnsveitnanna 60 millj. kr. framlag á þessu ári. Nú er gert ráð fyrir að rekstrarhalli RARIK verði á árinu 1040 millj. kr. þrátt fyrir verðjöfnunargjaldið, en það nemur á árinu 2600 millj. kr., þar af til RARIK 2100 millj. Á næsta ári er ráð fyrir gert að raforkuvinnsla í dísilstöðvum á orkuveitusvæði RARIK verði um 5% af heildarraforkuöflun. Á árinu 1980 er gjaldið áætlað 3400 millj., þar af 2700 millj. til RARIK.

Fjárhagsafkoma Orkubús Vestfjarða er einnig mjög slæm, þannig er gert ráð fyrir að rekstrarhalli árið 1980 verði 500 millj. kr. þrátt fyrir verðjöfnunargjaldið.

Geta má þess, að á næsta ári er gert ráð fyrir að Orkubúið þurfi að framleiða 38% af orkunni með dísilvélum, með öllum þeim hækkunum sem því fylgja.

Svo sem greinilegt er af framansögðu er óhjákvæmilegt enn einu sinni að framlengja lögin um verðjöfnunargjaldið, og leyfi ég mér að leggja til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.

Ég bendi á, þar sem lög þau, sem hafa verið í gildi, falla úr gildi nú um áramótin, að nauðsynlegt er að koma þessum endurnýjunarlögum í gegn nú fyrir áramótin. Vænti ég þess, að hv. iðnn. flýti afgreiðslu málsins eftir föngum.