10.01.1980
Sameinað þing: 9. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

Umræður utan dagskrár

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Mér datt það svona í hug, að ástæðan fyrir því, hversu seint umsókn umrædds manns um embættið kom fram, hefði verið erfiðar póstsamgöngur við kotið í Hjaltadal norður, þar sem hann á heima, og er afreksmaður að því leyti að búa á eyðibýli. En það fauk einu sinni skekta á mann fyrir vestan. (Gripið fram í: Mætti ég fá nánari skýringar hjá hv. þm.?) Nánari skýringar, ég er ekki spursfífl né svargikkur hv. þm. Það fauk einu sinni skekta á mann fyrir vestan. Hann gerbreyttist við þetta, að vísu ekki líkamlega nema að því leyti sem brotnaði á honum nefið. Breytingin, sem orðið hefur á hæstv. dómsmrh. frá því sem hann óð hér grundina í hné gegn siðspillingunni í þjóðfélaginu, er slík, að mér dettur ekki annað í hug en að a.m.k. sex manna far hafi fokið á hann.

En erindi mitt var ekki að ræða þetta mál efnislega, heldur að lýsa furðu minni á þeim fundar- og þingsköpum sem við sjáum hér dæmi um, án þess að ég vilji gagnrýna með hörðum orðum nýjan hæstv. forseta Sþ. Útbýtt hefur verið fsp. um þetta efni frá hv. 1. landsk. þm. Pétri Sigurðssyni. Það hefur löngum verið fundið að því, að illa sé með tíma þingsins farið vegna umr. utan dagskrár, en þó þykir þetta nauðsynlegur þáttur í starfi þingsins og er það líka. Og það er aðallega til þess að þm. gefist kostur á að ræða mál sem eru mjög brýn, mjög brýn dagskrármál í þjóðfélaginu, og þá gjarnan að beina máli sínu til framkvæmdavaldsins um líðan einstakra þátta eða málefna. Hér hefur verið borin fram fsp. um málið, en samt er það svo, að gefinn er kostur á að ræða það utan dagskrár. Þó er málið alls ekki þann veg vaxið að það sé neitt dagaspursmál að það komi til umr. hér. Og það er ekki einu sinni haft fyrir því að gera fyrirspyrjanda, í þessu tilfelli hv. 1. landsk. þm., aðvart um að þessi umr. eigi að fara fram.

Ég stytti mál mitt, herra forseti, en ég krefst þess, að þessari umr. verði frestað þegar í stað þann veg, að hv. 1. landsk. gefist kostur á að taka þátt í umr. Ég hef ekki kynnt mér það sérstaklega, hvort sá hængur er á, að þessi fsp. hafi ekki verið komin á dagskrá, enda mátti þá kippa henni inn á dagskrána með afbrigðum ef á það hefði skort. En ég vænti þess fastlega, að hæstv. forseti fallist á þá eindregnu kröfu mína, að þessum umr. verði ekki fram haldið, af þeim ástæðum sem ég hef nefnt, enda þurfum við að fá meira af þessari umr. og þá ekki á fastandi maga.