17.12.1979
Efri deild: 3. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í B-deild Alþingistíðinda. (36)

16. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Þessu frv. mun verða vísað til n., sem ég á sæti í, og ekki mun ég tefja fyrir afgreiðslu þessa máls þar, heldur fremur stuðla að því að þessu máli verði flýtt í gegnum þingið þar sem hér er um nauðsynjamál að ræða. Ég vil þó vekja athygli á því, að nokkrar upplýsingar skortir við framlagningu máls þessa. Drepið var á einstök atriði í ræðu hæstv. iðnrh., framsöguræðu hans með málinu, sem ég hefði gjarnan viljað fá nánari upplýsingar um nú þegar.

Þar sem hæstv. iðnrh. nefnir áætlaða dísilkeyrslu á næsta ári á vegum RARIK, þá vil ég gjarnan fá að vita hvort hann reiknar þar með að Alþfl. muni auðnast enn að koma í veg fyrir orkuöflun á Kröflusvæðinu, hvort hann reiknar með að Alþfl. muni enn standa í vegi fyrir samtengingu orkukerfisins með því að hindra framgang laganna um Landsvirkjun, hvort hæstv. ráðh. reiknar með að núv. ríkisstj. Alþfl. sitji áfram eða hvort líklegt sé að þingkjörinn maður muni senn skipa embætti iðnrh. Að þessu sinni mun ég ekki orðlengja um þann vanda sem þjóðinni er á höndum að hafa þess háttar ríkisstj. sem nú situr og þannig til komna. Ekki þætti sjálfsagt með öllu gott að þeim ráðum væri beitt til að losa okkur við hana sem mér væri skapi næst og verðugt væri. En hitt er alveg bráðnauðsynlegt, þegar fjallað er um þetta þýðingarmikla nauðsynjamál þjóðarinnar þar sem er verðjöfnun á raforku eins og nú er komið, að ráðh. greini okkur nánar frá tölulegum forsendum sem fram komu í ræðu hans.