14.01.1980
Neðri deild: 16. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í B-deild Alþingistíðinda. (368)

26. mál, óverðtryggð framleiðsla landbúnaðarvara

Flm. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér birtist á þskj. 26, var fyrst flutt á haustþinginu í októbermánuði s.l., en kom þá eigi til umr. og því síður til afgreiðslu. Frv. var endurflutt á þessu þingi, þegar er skipt hafði verið í þingdeildir, og var það lagt fram hér í hv. Nd. 17. des. s.l. af níu þm. Sjálfstfl.

Frv. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„1. gr.: Ríkisstj. skal útvega fjármagn, er nemi 3 milljörðum kr., til að bæta bændum að nokkru halla af óverðtryggðum útflutningi landbúnaðarafurða á síðasta verðlagsári og til að greiða fyrir sölu á þeim búvörubirgðum, sem óseldar voru við upphaf þessa verðlagsárs.

Af fjárhæð þessari verði 2 milljörðum kr. þegar varið til endurgreiðslu á verðjöfnunargjaldi, sem Framleiðsluráð landbúnaðarins innheimti af framleiðslu síðasta verðlagsárs, en 1 milljarði til þess að greiða fyrir sölu á birgðum og framleiðslu búsafurða á fyrri hluta þessa verðlagsárs.

Byggðasjóði verði gert að leggja fram 1 milljarð kr. á ári að hámarki á næstu þremur árum til endurgreiðslu á láni sem tekið kann að verða í þessu skyni.

2. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi“.

Frv. það, sem hér er flutt, er lagt fram til að fá úr því skorið hvort Alþ. vill með þessum hætti greiða úr þeim vanda landbúnaðarins sem við blasir vegna þess að útflutningsbætur hafa ekki dugað til að mæta útflutningi á landbúnaðarvörum á síðasta verðlagsári. Þessi vandi landbúnaðarins lá fyrir allt síðasta ár og þrátt fyrir það var ekki á þeim vanda tekið, hvorki af Alþ., sem sat , veturinn 1978–1979, né af þáv. hæstv. ríkisstj.

Fyrrv. landbrh., Steingrímur Hermannsson, skipaði nefnd 5. júní s.l, til þess að gera m.a. tillögur um „lausn á vandamálum bænda vegna söluerfiðleika erlendis á umframframleiðslu landbúnaðarafurða, þannig að tekjuskerðing bænda verði sem minnst.“ Þessi nefnd hóf, að ég hygg, þegar störf og skilaði áliti 28. júlí eða innan tveggja mánaða. Nefndin, sem starfaði undir forustu Inga Tryggvasonar, klofnaði í áliti sínu um þetta mál og skipuðu meiri hl. nefndarinnar fulltrúar þriggja stjórnmálaflokka, þ.e. fulltrúi Sjálfstfl., fulltrúi Framsfl. og fulltrúi Alþb., svo og fulltrúar bændasamtakanna þeir Ásgeir Bjarnason formaður Búnaðarfélags Íslands og Jón Guðmundsson, Óslandi, sem var fulltrúi Stéttarsambands bænda. Þessir aðilar allir skipuðu meiri hl. nefndarinnar, en minni hl. skipaði fulltrúi Alþfl., hv. þm. Eiður Guðnason.

Í áliti meiri hl. nefndarinnar, sem birt er með þessu frv. sem fskj., kemur fram sem aðalatriði að ríkisstj. útvegi fjármagn er nemi 3 milljörðum, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Í heild er frv. byggt á áliti meiri hluta nefndarinnar og að hluta til á bókun Steinþórs Gestssonar, fulltrúa Sjálfstfl., sem gerð var á fundi harðindanefndar 28. júlí s.l. Bókun þessi og bókun annarra þeirra manna, er skipuðu meiri hluta nefndarinnar, eru prentaðar sem fskj. með frv.

Eins og ég sagði áðan lá fyrir allt s.l. ár að þarna var um mikinn vanda að tefla. Talið var s.l. vetur að á mundi skorta um 5 milljarða til þess að mögulegt væri að bændur gætu fengið fullt verð fyrir framleiðslu sína. Raunin varð sú, að nokkru minna skorti en þá var gert ráð fyrir. Gerðist það vegna breyttra aðstæðna, sem skýrast að meginhluta af eftirfarandi atriðum:

Í fyrsta lagi var nokkur samdráttur í mjólkurframleiðslu á árinu 1979 miðað við það sem gert hafði verið ráð fyrir. Mjólkurframleiðslan varð um 116 millj. lítra á móti 119 millj. lítra árið 1978, en spár sögðu til um í upphafi 1979 að mjólkurframleiðslan gæti orðið um 125 millj. lítra það ár. Nokkur söluaukning varð á framleiðslu búvara innanlands og á það auðvitað sinn þátt í að minnka þennan vanda. Á þeim sökum var hætt við útflutning á 500 tonnum af smjöri, svo sem gert hafði verið ráð fyrir í áætlunum Framleiðsluráðs, og hefði kostað mjög mikið fé í útflutningsbótum ef af hefði orðið eða þá að þeim mun meira hefði orðið að skella á herðum bænda í því sem á vantaði að fullt verð næðist. Í fjórða lagi fór það svo, að dilkakjötsmarkaður fyrir nokkurt magn af dilkakjöti í Noregi lokaðist vegna farmannaverkfalls. Af þeim sökum var um nokkru meiri dilkakjötsbirgðir að ræða í landinu í lok verðlagsárs en ella hefði orðið. Þó kemur þar á móti að dilkakjötsframleiðsla haustið 1979 varð nokkru minni en árið áður, enda þótt slátrað væri fleiri dilkum, en haustið 1979 var slátrað alls 961 þús. dilkum. Samdráttur varð samt að magni til um 840 tonn af dilkakjöti. Hins vegar var kjöt af fullorðnu um 620 tonnum meira vegna mikillar slátrunar á fullorðnu fé. Heildarkjötframleiðslan haustið 1979 varð því um 220 tonnum minni en árið áður þrátt fyrir verulega fjölgun sláturfjár. Niðurstaða úr þessu dæmi varð sú, að í lok verðlagsársins skorti 3487 millj. kr. til þess að bændur gætu fengið fullt verð fyrir framleiðslu þess árs. Þetta fé var allt innheimt af framleiðendum með svokölluðu, verðjöfnunargjaldi.

Frv. þetta gerir ráð fyrir að þessum vandamálum verði mætt með því, að af 3 milljörðum kr., sem gert er ráð fyrir að ríkisstj. útvegi, verði 2 milljörðum þegar varið til endurgreiðslu verðjöfnunargjaldsins, sem alls nam nærri 31/2 milljarði kr. Það, sem á skortir, beri því bændur sjálfir af framleiðslu þessa árs. 1 milljarði verði hins vegar varið til þess að greiða fyrir sölu á þeim birgðum sem óseldar voru í lok verðlagsársins eða til voru við upphaf þess verðlagsárs sem nú stendur.

Það fjármagn, sem hér er um að tefla, 3 milljarðar kr., er gert ráð fyrir í frv. að ríkisstj. útvegi, og má hugsa sér að það verði útvegað í fyrstu lotu með lántöku, en frv. gerir ráð fyrir að Byggðasjóði verði gert að leggja fram allt að 1 milljarði kr. að hámarki á ári í þrjú ár til endurgreiðslu á slíku láni.

Byggðasjóður fær samkv. lögum 2% af útgjöldum fjárlagafrv. Ef gert er ráð fyrir að þau lög séu haldin mundi Byggðasjóður fá, miðað við það fjárlagafrv. sem nú liggur fyrir, um 6.4 milljarða kr. til ráðstöfunar. Nú er það svo, að samkv. því fjárlagafrv., sem fyrir liggur, eru þessi lög ekki haldin og framlög til Byggðasjóðs skert um 15%, en ekki er nú vitað hvernig um það mál fer. Það er þó ljóst að Byggðasjóður hefur verulega fjármuni til starfsemi sinnar. Enda þótt hlutverk hans sé þýðingarmikið er eðlilegt að því sé gefinn gaumur á hvern hátt hann geti sinnt í auknum mæli þörfum landbúnaðarins til viðbótar við það sem gert hefur verið á undanförnum árum.

Á það má benda, að á síðasta ári, þegar ráðstöfunarfé Byggðasjóðs var til muna minna en það ætti að vera á þessu ári, var Byggðasjóði gert að taka á sig greiðslur vegna afborgana og vaxta af fé til byggðalína sem nam 1130 millj. kr. Þetta var gagnrýnt þá, enda var þar um að ræða mun stærra hlutfall af ráðstöfunarfé Byggðasjóðs en hér er gert ráð fyrir að hann þurfi að taka á sig til að sinna landbúnaðinum. Deila má um hvort af þessum verkefnum sé eðlilegra hlutverk Byggðasjóðs. Ég vil þó halda því fram, að það sé a.m.k. ekki síður hlutverk Byggðasjóðs að koma til liðs við landbúnaðinn, eins og frv. gerir ráð fyrir, en að taka á sig skuldbindingar vegna raforkuframkvæmda.

Ég sé ekki ástæðu til að rekja efnisatriði þessa frv. í mörgum orðum. Ég sé ekki heldur ástæðu til þess, nema tilefni gefist til, að rekja sögu þessara mála hér á Alþ. í fyrravetur eða það sem þá var gert til að reyna að þoka þessum málum fram. Að því mun verða vikið ef tilefni gefst til. Hitt er ljóst, að landbúnaðurinn á við mikla erfiðleika að etja um þessar mundir. Hér hefur verið rakið að bændur hafi orðið að taka á sig um nálega 31/2 milljarð vegna þess að verð hefur ekki fengist að fullu fyrir framleiðslu þeirra. Til viðbótar við það hafa á síðasta ári orðið óvenjuleg harðindi í landinu. Þessi harðindi hafa einkum lagst yfir landið norðanvert. Af þeim sökum er nú erfiðara um vik fyrir bændastéttina að taka á sig slíka bagga sem hér er um að ræða en ella væri. Hægt er að nefna nokkur dæmi um hvaða áhrif þessi harðindi hafa haft, enda þótt það verði ekki gert með neinu tæmandi móti.

Það er ljóst að vegna vorharðinda s.l. vor urðu bændur að taka á sig mjög aukinn fóðurkostnað í heitum landshlutum, og þó e.t.v. nokkuð misjafnlega eftir einstökum byggðarlögum. Að sjálfsögðu hefur þetta að nokkru leyti náð yfir landið allt. Þetta hefur verið athugað t.a.m. í fimm hreppum í Norður-Þingeyjarsýslu. Kom í ljós að í þeim fimm hreppum, sem eru tiltölulega fámennir, varð aukinn fóðurkostnaður s.l. vor samtals 725 mill j. kr. Hér er því um mjög verulegan kostnaðarauka í þessum eina þætti að ræða.

Til viðbótar var um að ræða aukna áburðarnotkun til að reyna að mæta fyrirsjáanlegum grasbresti. Þrátt fyrir það varð spretta léleg og heyfengur til muna minni, víða 10–20% minni en í meðalári. Grasleysi er í úthaga um norðanvert landið, þannig að sá peningur, sem þarf að beita á úthaga, hefur minna fyrir sig að leggja þar en venja er til. Af þessum sökum einnig urðu bændur að fækka bústofni sínum, og þó að því fylgi að vísu ekki tekjuskerðing á þessu ári mun það segja til sín á næsta ári og þegar fram í sækir.

Fallþungi dilka varð minni að heita má um land allt eða að 1.3–1.4 kg á dilk, en um norðanvert landið víðast hvar sem nemur 2–21/2 kg á dilk. Af þessum sökum einum er um tekjuskerðingu að ræða sem á meðalsauðfjárbúi um norðanvert landið er víða á bilinu frá 11/2–21/2 millj. á bónda. Allt þetta kemur niður á nettótekjum bóndans, því að kostnaðurinn hefur ekki orðið minni þrátt fyrir að þessi áföll hafi orðið.

Ýmislegt fleira má tína til, sem ekki er þörf á að gera hér. Má t.d. nefna að garðræktin í landinu er talin hafa skilað á síðasta ári framleiðslu sem er 540 millj. kr. minna virði en árið áður.

Hið erfiða árferði segir auðvitað til sín á öllum sviðum landbúnaðarins. Þessar orsakir eru til þess að fjárhagsstaða bænda um s.l. áramót var til muna lakari — og miklu lakari víðast hvar a.m.k. — en hefur verið undanfarin ár. Af þeim sökum er miklu meiri þörf en ella að afgreiða það frv. sem hér liggur fyrir, og ég vænti þess, að hv. d. og hv. Alþ. taki frv. með því hugarfari og með þeim hætti að hér er um nauðsynjamál að ræða, sem ekki má dragast lengi að verði afgreitt.

Vissulega hefði verið ákaflega rík þörf fyrir að afgreiðslu frv. hefði lokið fyrir s.l. áramót, þannig að þá hefði verið hægt að greiða úr vegna þeirra skakkafalla sem bændur hafa orðið fyrir af þeim sökum sem að framan er lýst. Um það þýðir ekki að fást, eins og nú er komið, þó að það tækist ekki. Enn ríkari ástæða er þó til hins, að frv. fái nú greiða leið í gegnum Alþingi.

Ég sé að hv. þm. Stefán Valgeirsson o.fl. þm. ásamt honum hafa lagt fram frv. sem er svipaðs eðlis. Ég vil aðeins segja um það á þessu stigi, að ég vonast til að þeirri n., sem væntanlega fær þau frv. bæði til meðferðar, takist að verða sammála um afgreiðslu þessa máls. Um það skal auðvitað ekki spáð, en ég vonast til þess að svo megi til takast.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta mál, herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.