14.01.1980
Neðri deild: 16. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í B-deild Alþingistíðinda. (370)

26. mál, óverðtryggð framleiðsla landbúnaðarvara

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Segja má að óþarft sé að kveðja sér hljóðs um þetta mál nú við 1. umr. Hvort tveggja er, að ég er einn af flm. þess, og svo hitt, að hv. 1. flm., 2. þm. Norðurl. v., hefur þegar gert glögga grein fyrir málinu.

Frv. þetta fjallar um greiðslu bóta vegna óverðtryggrar framleiðslu landbúnaðarvara. Það er alkunna, að í höfuðatvinnuvegum okkar skiptast á skin og skúrir. Sérstaklega á það við um landbúnaðinn, að hann er mjög háður tíðarfari, veðri og vindum. Og það er rétt, sem hér kom fram, að hvað tíðarfar snertir er mikill munur á árunum 1978 og 1979. En hæstv. landbrh. má ekki heldur gleyma því, að offramleiðsla er vandamál. Því má hann ekki telja að of mikils tvískinnungs gæti í þessu máli. Svo er það einnig, að nú á tímum er uppi í þjóðfélaginu launajöfnunarstefna sem segir að allir þegnar þjóðfélagsins eigi að fá sitt lágmarkskaup greitt, einnig bændur ekki síður en aðrir. Ef farið væri út í þá sálma að kryfja þá löggjöf, sem nú gildir, til mergjar mætti ábyggilega benda á að bændur hefðu verið hlunnfarnir í launmálum árum og jafnvel áratugum saman miðað við strangasta skilning á þeirri löggjöf sem nú gildir um þau efni.

Við hljótum allir að vera sammála um að það skiptast á skin og skúrir í landbúnaði. Árið 1979, sem nú er liðið, er eitt kaldasta ár á þessari öld og raunar frá því að reglulegar veðurathuganir hófust hér á landi fyrir u.þ.b. 135 árum. Það er því engin furða þó að slíkt tíðarfar skilji eftir sig nokkur merki. Frv., sem hér liggur fyrir, er alfarið byggt á tillögum meiri hl. nefndar sem ríkisstj. skipaði til að athuga þessi mál, bæði vandamál vegna söluerfiðleika erlendis á umframframleiðslu landbúnaðarvara og svo þau vandamál sem leiddi af hinu kalda tíðarfari.

Ég vek einnig athygli á því, að þetta frv. fer alls ekki fram á að bændum verði greitt umrætt tjón að fullu. Það er hvað eftir annað tekið fram, bæði í 1. gr. frv. og grg., að bændum skuli bætt þetta tjón aðeins að nokkru leyti. í 1. gr. segir: „til að bæta bændum að nokkru halla“ o.s.frv. Í grg. er tekið fram, að stórlega skorti á að fullt verð hafi náðst fyrir framleiðslu síðasta verðlagsárs. Og í bréfi hæstv. landbrh. til nefndarinnar, þegar hún var sett á fót, er hún beðin að athuga málið þannig að tekjuskerðing bænda verði sem minnst.

Í þessu frv. er það nýlunda að vísað er á Byggðasjóð til þess að greiða hluta af þeim bótum sem hér er lagt til að greiddar verði. Ég tel að hér sé bent til réttrar áttar. Á síðari tímum, skulum við segja, hefur hlutverk Byggðasjóðs verið fært út að nokkru leyti, eins og dæmin sanna, þannig að mér finnst rétt að hann láti einmitt til sín taka vandamál af því tagi sem hér um ræðir.

Það er dálítið einkennilegt, að frá því að sú nefnd, sem landbrh. setti á stofn, skilaði störfum hefur ekki verið hraður framgangur á þessu máli. Það liggur við að taka megi undir það sem segir í grg., að það hafi verið ámælisverður sofandaháttur í málinu. Vissulega er málið þess eðlis, að því hefði þurft að hraða meira en gert hefur verið. Þetta var eina málið sem sjálfstæðismenn fluttu á 101. löggjafarþingi. Nú sitjum við á 102. löggjafarþingi.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál á þessu stigi, en að sjálfsögðu lýsa fyllsta stuðningi mínum við það. Ég leyfi mér að vænta þess, að það verði skoðað vandlega og áhersla lögð á að hraða för þess eftir hinni venjulegu boðleið á þessu löggjafarþingi.