14.01.1980
Neðri deild: 16. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í B-deild Alþingistíðinda. (371)

26. mál, óverðtryggð framleiðsla landbúnaðarvara

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Nokkur orð varðandi það frv. sem hér er nú til umr. — frv. til l. um greiðslu bóta vegna óverðtryggðrar framleiðslu landbúnaðarvara.

Í þessu máli hefur komið fram og kom fram á síðasta vetri eða síðasta ári nokkur samkeppni á milli Framsfl. og Sjálfstfl., sem lögðu fram nær samhljóða frv. um þetta mál.

Það leikur ekki nokkur vafi á að erfiðleikar bænda eru miklir um þessar mundir og margt, sem að þeim steðjar, sem veldur þeim leiða og illum draumförum. En það eru erfiðleikar hjá fleiri stéttum í þessu þjóðfélagi, eins og láglaunafólkinu í landinu sem enga reikninga getur sent þinginu.

Ég er tvímælalaust þeirrar skoðunar, að bændur þurfi á aðstoð að halda, en það er ekki svona aðstoð sem ég tel að bændur þurfi. Þetta heitir á mæltu máli að senda ríkissjóði reikning. Hér er komið með reikning fyrir fjárhæð sem er talsvert fyrir ofan þau mörk sem gildandi lög heimila, þ.e.a.s. 10% mörkin. Þetta er um leið lýsandi dæmi um þá röngu stefnu sem rekin hefur verið í landbúnaðarmálum. Ég minnist þess, að í sjónvarpi fyrir nokkrum dögum sagði einn af helstu ráðunautum landbúnaðarins í þessu landi að fara yrði að marka einhverja stefnu í landbúnaðarmálum. Þeir menn, sem fyrr á árum hrópuðu hátt um aukna framleiðslu og stækkun búa, eru nú að bíta í gamla súra eplið. Þeir menn, sem hvöttu bændur til að stækka bú sín og auka búvöruframleiðsluna, eru líka að bíta í gamla súra eplið. Og þetta epli er býsna súrt, ekki aðeins fyrir þá, heldur fyrir alla skattgreiðendur í landinu. Við erum ekki að tala um nokkrar milljónir, við erum að tala um nokkra milljarða.

Ég held að það væri nær að fara að huga betur að því, sem rætt hefur verið, að auka og hraða rekstrar- og afurðalánum til bænda til að aðstoða þá og aðstoða þá á þann veg að það komi þeim raunverulega að gagni. Ég átti sæti í nefnd sem fjallaði nokkuð um það mál. Sú nefnd sendi ríkisstj. álit sitt og niðurstöður. Ég hef raunar ekki orðið var við að framkvæmd yrði á því sem nefndin lagði til, og mun þar við að eiga sjálfan Seðlabankann.

Hér hefur verið minnst á að frv. þetta sé byggt að verulegu leyti á niðurstöðum svokallaðrar harðindanefndar. Ég vil minna á minnihlutaálit sem hv. þm. Eiður Guðnason lagði fram í þeirri nefnd um það mál sem hér er um fjallað. Þar er bent á aðrar leiðir, sem ekki skaðar að minnast örlítið á og rifja upp.

Í minnihlutaáliti þessu segir m.a. og er minnt réttilega á, að í gildandi lögum sé kveðið svo á, að útflutningsbætur skuli aldrei vera hærri en sem svarar 10% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar.

„Ætíð hefur verið litið á þessa 10% reglu sem hámarksreglu og henni verið beitt þannig. Mjög hlýtur að teljast varhugavert að auka útflutningsbætur umfram þetta hámark sem bundið er í lögum, einkum þó er fyrir liggur að brýna nauðsyn ber til að lækka útflutningsbætur frá því sem nú er, enda almennur skilningur á því, að draga þurfi markvisst úr framleiðslu búvöru. Í stað þess að auka útflutningsbætur sýnist eðlilegt, vegna þess sérstaka vanda sem við er að etja, að útvega verði nokkurt fjármagn, t.d. 2 þús. millj. kr., til þess að koma að verulegu leyti til móts við bændur, þannig að útflutningur landbúnaðarafurða umfram útflutningsbótahámark í lögum lendi ekki á þeim af fullum þunga. Verði þessu sérstaka fjármagni að 3/4 hlutum úthlutað eftir framleiðslumagni fyrir tilstilli útflutningsbótakerfisins og að 1/4 til að auðvelda þeim bændum að hætta búskap sem þess óska.

Þessi fjárútvegun er ekki hugsuð sem viðbót við útflutningsbætur, heldur sérstök tímabundin fyrirgreiðsla, en þó með þeim skilyrðum, að eftirgreindar breytingar verði gerðar:

Hámarksákvæðið um 10% í framleiðsluráðslögunum miðist hér eftir við 10% af framleiðsluverðmæti sauðfjár- og nautgripaafurða eingöngu, m.ö.o. þeirra afurða sem út eru fluttar. Hámarksákvæðið miðist hér eftir við hvora afurðagrein um sig, þ.e. bætur á útflutning hvorrar fari ekki fram úr 10% af framleiðsluandvirði hennar sérstaklega. Sett verði sérstakt hámark á útflutningsbætur á hverja sölu, þannig að útflutningsbætur greiðist í hlutfalli við útflutningsverð, en fari aldrei yfir 10% af verðinu. Umboðslaun til söluaðila reiknist ævinlega af útflutningsverðinu einu.“

Í framhaldi af þessu langar mig aðeins að minna á að á síðasta vetri urðu miklar umr. á þingi þegar einn hv. þm. upplýsti að Samband ísl. samvinnufélaga tækiumboðslaun af útflutningsuppbótum. Þetta er mál sem þingið hefur ekki kannað nægilega rækilega, og þetta mál hefur ekki fengið þá meðferð hér á þingi sem ég tel það þyrfti að fá, því að ef það reynist rétt að Samband ísl. samvinnufélaga taki umboðslaun af útflutningsuppbótum, sem eru skattfé almennings, þykir mér illa farið. Skilyrðin voru fleiri.

Á næstu þremur árum eftir lok verðlagsárs 1979–1980 verði hámarkstölurnar í liðum 1) og 2) hér að ofan, þ.e. í minnihlutaáliti hv. þm. Eiðs Guðnasonar, lækkaðar í áföngum í 7%, þ.e. um 1% á ári.

Verðlagningarkerfi búvara verði tekið til endurskoðunar, þannig að greiðsla fyrir afurðirnar standi í beinu sambandi við söluverðmæti þeirra og markaðsaðstæður. Sérstaklega verði kannað hvort heppilegt sé að 1) komið verði á samningum milli bænda og mjólkurvinnslustöðva um mismunandi verð á mjólk eftir árstíðum og stiglækkandi verð á mjólk með auknu framleiðslumagni; 2) komið verði á samningum milli dilkakjötsframleiðenda og sláturleyfishafa um stiglækkandi verð á dilkakjöti með auknu framleiðslumagni.

Fjárfestingarstefnan í landbúnaði verði tekin til heildarendurskoðunar er miði að því að koma í veg fyrir framleiðsluaukningu. Fyrstu aðgerðir þeirrar endurskoðunar leiði til þess að jarðræktarframlög verði afnumin í áföngum á næstu þremur árum. Fjórðungi þess, sem þannig sparast, verði varið til stuðnings við nýjar búgreinar, svo sem garðyrkju, ylrækt, fiskeldi, framleiðslu svína-, hænsna- og nautakjöts. Öðrum fjórðungi þess, sem þannig sparast, verði varið til þess að aðstoða þá bændur er vilja hverfa frá búskap. Fjárfestingarlán verði ekki veitt til nýframkvæmda við peningshús yfir nautgripi og sauðfé næstu þrjú árin. Fjárfestingarlán verði ekki veitt til nýframkvæmda við vinnslustöðvar landbúnaðarafurða næstu þrjú ár.

Þetta kom fram í minnihlutaáliti hv. þm. Eiðs Guðnasonar þegar hv. harðindanefnd var að undirbúa þann reikning sem nú hefur verið sendur Alþ. og óskað er eftir að verði greiddur. Þær umr., sem hafa farið fram um landbúnaðarmál hér á hinu háa Alþingi, hafa snúist nær eingöngu um reikninga af þessu tagi, en minna um hvað gera skuli til þess að taka upp nýja og breytta stefnu í landbúnaði.