14.01.1980
Neðri deild: 16. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

26. mál, óverðtryggð framleiðsla landbúnaðarvara

Iðnrh. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð til áréttingar því sem ég sagði áðan.

Hv. þm. Friðjón Þórðarson taldi að í orðum mínum hefði falist andstaða við launajöfnun. Ég finn ekki að það felist sérstök launajöfnun í þessu frv., því að það er verið að óska eftir að þeir, sem höfðu mesta framleiðslu, fái mest út úr þeirri viðbót sem hér er verið að leggja til að ríkið greiði. Hins vegar má kannske segja að þetta sé launajöfnunarhugsun af þeirra hálfu gagnvart öðrum stéttum. Hitt stendur óhaggað, að þeir bændur, sem hafa haft mesta framleiðsluna fá mest út úr þessu með því að þessi leið verði farin.

Þá langar mig að víkja að öðru, sem hér kom fram. Það var varðandi lán úr Bjargráðasjóði sem var drepið á áðan, að það væru vond kjör og nánast óaðgengileg að fá þau lán vaxtalaus, en verðtryggð. Þetta get ég ekki skilið. Mér finnst vildarkjör að fá lán vaxtalaust, þó að þau séu verðtryggð, og ekki geti nokkur stétt ætlast til að fá betri kjör. Ekki veit ég annað en fjármagn hafi verið útvegað í þessi lán í Bjargráðasjóð, og mér kemur á óvart ef það er ekki. Hitt kann að vera, að seint gangi að afgreiða harðindalán úr sjóðnum vegna þess að seint berist þau gögn sem þarf til að lán sé afgreitt. Það hef ég náttúrlega ekki kynnt mér vegna þess að þetta er í öðru rn. en því sem ég veiti nú forstöðu, en ekki hefur komið kvörtun um þetta í mín eyru.

Loks vil ég víkja að því síðasta sem mér þótti athyglisvert af því sem hv. þm. Pálmi Jónsson sagði, þ.e. að ef framleiðsla bænda hefði þetta umrædda verðlagsár ekki verið meiri en svo að hún hefði selst á innlendum markaði, auk þess sem 10% útflutningsuppbætur fengjust út á, hefði þessi reikningur ekki komið fram. M.ö.o.: það var staðfesting á því sem ég var að halda fram áðan, að reikningurinn kemur fram vegna meiri framleiðslu, betra árferðis en var gert ráð fyrir. Það er verið að óska eftir því að góðærið, aukaframleiðslan sé greidd aukalega.