15.01.1980
Sameinað þing: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í B-deild Alþingistíðinda. (378)

211. mál, þjónusta strandstöðvarinnar í Hornafirði

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Vegna fsp. hv. 2. þm. Austurl. vil ég segja þetta:

Það er óhemjudýrt að halda uppi vakt allan sólarhringinn allt árið um kring. Sérstaklega varð slíkt dýrt eftir samningana sem gerðir voru við opinbera starfsmenn 1977. Því er eðlilegt að við og við sé kannað hjá fyrirtæki á borð við Póst og síma - og ætti auðvitað að gera slíkt hjá fleiri fyrirtækjum og oftar — hvort draga megi úr kostnaði sem þessum án þess að skerða þjónustuna við borgarana um of.

Að undanförnu hefur farið fram athugun á því, hve mikið muni kosta að fjarstýra öllum tækjabúnaði loftskeytastöðvarinnar á Höfn í Hornafirði frá Gufunesi og hve mikið mundi sparast ef næturvaktinni yrði sinnt frá Gufunesi — þá er átt við tímann frá 0.30 til 8. — Enn fremur gengur könnunin út á það, hvort línur milli Reykjavíkur og Hafnar í Hornafirði séu nægilega öruggar til slíkra nota. Tæknilega er þetta engum vandkvæðum bundið. Gufunes hlustar á öll viðtæki loftskeytastöðvarinnar á Höfn og hefur full afnot af sendum stöðvarinnar. Gufunes getur m.ö.o. sinnt öllum viðskiptum stöðvarinnar í Höfn að næturlagi án þess að bæta þurfi við mannskap þar, að því er fullyrt er af póst- og símamálastjórn. Aftur á móti, eins og hv. fyrirspyrjandi kom inn á, ef um er að ræða einhverja fleiri þjónustuliði, eins og t.d. ef læknir fer úr einu húsi í annað og vill láta ná í sig þangað, er öll slík þjónusta erfiðari að sjálfsögðu, þó að hún sé möguleg.

Við megum ekki gleyma því, og út á það er þessi aths. og bréf til komin, að viðskiptamenn stöðvarinnar á Höfn vilja auðvitað miklu heldur tala við sér kunnuga menn með staðarþekkingu. Staðarþekking loftskeytamanna þar liðkar sem sagt mjög til um öll viðskipti, það er á hreinu. Bátur getur tilkynnt að hann sé með 10 tonn af ýsu og 20 tonn af þorski og þarf ekkert að segja meira, því loftskeytamaðurinn veit hvað hann þarf að panta marga bíla og annað því um líkt.

Við megum ekki gleyma því heldur, að í framtíðinni, líklega innan eins áratugs, verður þessu öllu saman breytt, skipin fá sín símanúmer, við hringjum í skipin heiman frá okkur og skipin hringja í það númer sem þau vilja í landi, þannig að hin persónulega þjónusta fellur öll niður af sjálfu sér. Það er mjög líklegt að þetta verði innan áratugs. Alveg eins verður það í bílum. Við getum keyrt um götur Reykjavíkurborgar og valið númer á Akureyri í símtæki okkar í bílnum. Skipið getur einnig, hvar sem það er statt, pantað hvaða númer sem er, ekki aðeins hér á landi, heldur í útlöndum. Þá fellur öll handvirka og persónulega þjónustan niður, eins og víða er orðið erlendis.

Eins og ég sagði er þessi breyting engum vandkvæðum bundin tæknilega séð. Aftur á móti eru línur milli Reykjavíkur og Hafnar í Hornafirði enn þá engan veginn nægilega öruggar til að taka þennan hátt upp, og verður það ekki gert á meðan svo er. Unnið er að uppsetningu tvöfalds örbylgjukerfis milli þessara staða, — kerfis sem er óháð rafmagnsbilunum og mjög öruggt. Þegar það kerfi verður komið í gagnið og hefur fengið fulla reynslu, þá fyrst kemur til álita hvort fjarstýra eigi stöðinni í Höfn frá Reykjavík að næturlagi. Áætlað er að það kerfi verði komið í gagnið í vor, þ.e.a.s. að lokinni þessari vertíð. Við verðum auðvitað að sýna fyllstu aðgæslu og reyna að spara það sem við mögulega getum án þess að skerða þjónustuna um of. En hættan er sú og reyndin er sú, að alls staðar þar sem reynt er að spara eru ýmsir óánægðir með það.

Fjarstýring gæti sem sagt orðið að veruleika í vor eftir þessa vertíð, og þá er tímabært að taka ákvörðun um hvort hún verður tekin upp eða ekki.