15.01.1980
Sameinað þing: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í B-deild Alþingistíðinda. (387)

212. mál, beinar greiðslur til bænda

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég verð að biðja félaga minn, hv. 5. landsk. þm., að sýna nokkra þolinmæði og láta sefast. Hann fékk samþykkta í fyrra dæmalaust vanhugsaða till. til þál. sem þar með er því miður orðin viljayfirlýsing Alþingis. Það hefur að sjálfsögðu komið í ljós að mjög torvelt er að framkvæma till. og næstum óframkvæmanlegt. Það er heldur engum hagur í því að slíkt fyrirkomulag sé tekið upp.

Ég benti á þetta í fyrra, ég benti á það í hittiðfyrra og árið þar áður, því að þetta er ekki nýtt mál hér í þingsalnum. fyrra lagði ég fram á þskj. 497 ítarlegt nál., þar sem ég gerði úttekt á málinu, nál. er frá minni hl. allshn. Vitnaði minni hl. til umsagna sem borist höfðu um málið. Þær voru allar á eina leið, að skakkt væri að taka upp þetta fyrirkomulag. En þrátt fyrir að umsagnir, sem voru ekki einasta frá sölusamtökum bænda, frá bönkum, heldur frá bændafundum, frá Stéttarsambandi bænda o.s.frv., væru allar á eina leið og neikvæðar fyrir till. lagði meiri hl. allshn. til að till. yrði samþ., sem og var gert.

Ég vil leyfa mér að lesa niðurlagsorð nál. minni hl., með leyfi forseta. Þau hljóða svona:

„Þótt vandlega sé leitað í samþykktum bændafunda undanfarinna þriggja ára finnast þess ekki nokkur dæmi að bændur hafi tekið undir hugmynd till. Hugmyndin er ekki frá bændum sjálfum komin og þeir óska ekki eftir þeirri tilhögun sem hún gerir ráð fyrir. Hugmynd Eyjólfs leiðir til aukins kostnaðar og framleiðslukostnaður vex ef hún verður að veruleika. Nær væri að nýta betur það fjármagn, sem fer til þessara mála. Árið 1978 voru t.d. stimpilgjöld til ríkisins af afurðalánum 170 millj., og hver og einn þáttur sem sparast skilar sér í lægra afurðaverði. Því verður ekki trúað að flm. og þeir, sem gerast þeirra ábekingar, vilji vinna bændum tjón, heldur vaki fyrir þeim að klekkja á samtökum þeirra (sjá grg. till. og framsöguræður), en með því að reiða til höggs að sölusamtökum bænda lendir höggið að sjálfsögðu beint á bændum og síðan á neytendum í landinu.“

Ég læt þessum lestri lokið. Ég lagði til að till. yrði breytt, en ég varð undir í þeirri togstreitu, enda er Eyjólfur mikill kappi. En Alþ. var óheppið að láta að vilja hans í fyrravor.

Ég vil mótmæla harðlega því orðbragði sem hv. þm. hafði hér um mæta bankamenn. Þeir eru sjálfsagt eitthvað misjafnir, en svona ummæli eru ekki. (EKJ: Þau voru um stofnanir, en ekki bankamenn.) Þetta eru mikilsverðar stofnanir og svona orðbragð þoli ég ekki, því að ég er viðkvæmur maður fyrir ljótum orðum.

Ég vil biðja hv. þm. að sýna biðlund og varðveita hugarró sína. Það er mikilsvert að hafa þessi mál í stöðugri skoðun, en ég legg áherslu á að það beri að vinna að þeim með hagsmuni bænda og neytenda fyrir augum og eftir óskum bænda og neytenda.