17.12.1979
Efri deild: 3. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í B-deild Alþingistíðinda. (39)

10. mál, Framleiðslueftirlit sjávarafurða

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Frv. það til l. um breyt. á l. um Framleiðslueftirlit sjávarafurða, sem hér liggur fyrir, var flutt á seinustu tveimur þingum, en hlaut þá ekki fullnaðarafgreiðslu. Ástæðurnar fyrir flutningi frv. eru hinar sömu og þegar það var flutt á seinustu þingum, og aths. með frv. eru hinar sömu og þá. Ég skal gera stuttlega grein fyrir þeim breytingum sem í þessu felast.

Í 3. mgr. 10. gr. laga um fiskvinnsluskóla segir: „Til þess að öðlast réttindi sem fiskmatsmaður skal nemandi hafa staðist próf úr fiskiðndeild og auk þess lokið 11 mánaða skipulagðri starfsþjálfun með prófi eða sérvöldu verkefni.“ Þau réttindi, sem hér um raðir, eru ekki skilgreind nánar.

Í 2. mgr. 9. gr. laga um Framleiðslueftirlit s jávarafurða segir hins vegar að lögreglustjóri löggildi matsmenn samkv. tilnefningu forstjóra framleiðslueftirlitsins.

Ekki hafa verið settar neinar reglur um það, hvað forstjóri Framleiðslueftirlitsins skuli styðjast við varðandi tilnefningu matsmanna til löggildingar. Varðandi mat á saltfiski, skreið og síld hefur venjan verið sú, að maður, sem hefur viljað afla sér löggildingar sem matsmaður, hvort heldur hefur verið um að ræða fiskiðnaðarmann eða óskólagenginn mann, hefur verið látinn starfa með löggiltum matsmanni ótiltekinn tíma uns hinn löggilti matsmaður hefur talið viðkomandi mann hafa sýnt nægilega hæfni til að starfa sjálfstætt að mati og hljóta löggildingu sem slíkur. Síðan hefur komið til kasta forstjóra Framleiðslueftirlitsins að meta niðurstöður hins löggilta matsmanns hverju sinni og taka síðan ákvörðun um tilnefningu til lögreglustjóra til löggildingar.

Þetta fyrirkomulag þykir skapa óviðunandi aðstöðu fyrir fiskiðnaðarmenn og er talið nauðsynlegt að afmarka námsefni og námstíma að skólanámi loknu til lokaprófs sem veitir matsréttindi. Fyrir því er lagt til í 2. gr. frv. þessa að settar séu nýjar fastmótaðar reglur um þau skilyrði sem fiskiðnaðarmenn, sem lokið hafa prófi frá Fiskvinnsluskólanum, þurfi að uppfylla til þess að þeim skilyrðum fullnægðum að geta hlotið löggildingu sem fiskmatsmenn fyrir saltfisk, skreið og saltsíld, þar eð menn, sem vilja afla sér löggildingar sem matsmenn, verða að hlíta þeim skilyrðum sem nú eru í gildi.

Fiskiðnaðarmenn hafa hingað til viðstöðulaust hlotið löggildingu til ferskfiskmats og freðfiskmats og verður svo væntanlega áfram.

Í 2. gr. er einnig sett aðhaldsákvæði sem ætlað er að tryggja að fiskiðnaðarmenn, sem mat vilja stunda, haldi við þekkingu sinni. Þá er einnig í sömu grein gerð sú breyting, að framvegis löggildi sjútvrh. matsmenn í stað lögreglustjóra. Þetta ætti að vera til hagræðis og bóta að öðru leyti vegna tengsla rn. við Framleiðslueftirlit sjávarafurða, og það ætti einnig að geta leitt til samræmdari krafna og reglna um löggildingu.

Í 3. gr. laga um Fiskvinnsluskóla er mælt fyrir um skyldu skólans til að halda námskeið fyrir starfsfólk í hinum ýmsu greinum fiskiðnaðarins. Í 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 71/1973, um mat á saltfiski til útflutnings, segir að Fiskmat ríkisins skuli halda námskeið fyrir fiskmatsmenn samkv. nánari ákvæðum þar um. Þessi reglugerð er eldri en lögin um Framleiðslueftirlit sjávarafurða. Samkv. sérstöku ákvæði 19. gr. laga nr. 108/1974 um Framleiðslueftirlitið, heldur fyrrgreind reglugerð þó enn gildi sínu. Í lögunum sjálfum eru hins vegar ekki nein bein ákvæði um námskeið á vegum Framleiðslueftirlitsins, en hins vegar í 3. mgr. 2. gr, almenn fyrirmæli um að það skuli veita leiðbeiningar um fiskverkun og meðferð sjávarafurða. Ekki virðist vera ástæða til að tveir aðilar haldi námskeið um sama efni, þ.e. um meðferð og mat sjávarafurða. Vegna ótvíræðra ákvæða í lögunum um Fiskvinnsluskólann um skyldu hans til að halda þess háttar námskeið þykir rétt að hann sinni þeirri skyldu einn, en að Framleiðslueftirlitið láti honum í té æskilegt og nauðsynlegt fulltingi í því efni. Þetta fyrirkomulag ætti og að létta nokkrum kostnaði af Framleiðslueftirlitinu.

Jafnframt þessu frv. flytur hæstv. menntmrh. frv. til l. um breyt. á lögum um Fiskvinnsluskólann sem er mjög tengt efni þessa frv. og æskilegt að þau geti fylgst sem mest að í meðförum þingsins og hljóti afgreiðslu nokkuð samtímis. Að öðru leyti leyfi ég mér að vísa til grg. fyrir frv. og legg til að því verði vísað til 2. umr. og sjútvn.