15.01.1980
Sameinað þing: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í B-deild Alþingistíðinda. (390)

213. mál, sparnaður í fjármálakerfinu

Fjmrh. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Fsp. þær á þskj. 37, sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson beinir til mín, eru, eins og hann sagði, í fjórum liðum. 1. tölul. fsp. hljóðar svo:

„Hvað hefur ríkisstj. gert til að beita sér fyrir sparnaði í fjármálakerfinu?“

Þess ber fyrst að geta varðandi þá þáltill. sem hv. þm. vitnaði til, að ekki lá ljóst fyrir hvað átt var við með hugtakinu „fjármálakerfinu“, þar sem það var ekki skilgreint nánar í till. Var þarna átt við hreinar ríkisstofnanir sem heyra beint undir viðkomandi rn.? Var þarna átt við stofnanir eins og viðskiptabanka í eigu ríkisins o.s.frv? Það lá því ekki alveg ljóst fyrir í till. hvað væri átt við með hugtakinu „fjármálakerfi“.

Ríkisstj., bæði sú sem nú situr og fyrrv. ríkisstj., hafa beitt sér fyrir sparnaði á fjölmörgum sviðum í ríkisbúskapnum. Þess ber þá fyrst að geta, að í fjárl. fyrir árið 1979 var gert ráð fyrir að allnokkur sparnaður næðist, einkum á þremur umfangsmiklum útgjaldaliðum, þ.e.a.s. vegna menntamála, heilbrigðismála og löggæslumála. Fjmrn. og fjárlaga- og hagsýslustofnun fylgdust með að slíkum sparnaði yrði við komið. Hins vegar hafa viðkomandi fagráðuneyti haft framkvæmdina með höndum og hefur talsverður árangur náðst þar, þó svo að ekki hafi tekist að standa fyllilega við það sem átti að reyna að framkvæma í því sambandi samkv. fyrirmælum fjárlaga, m.a. vegna deilna sem komu upp um framkvæmd málanna milli viðkomandi fagráðuneytis og starfsfólks í sumum tilvikum.

Á vegum fjárlaga- og hagsýslustofnunar er enn fremur að staðaldri unnið að ýmsum verkefnum til hagræðingar og sparnaðar. Sá háttur er jafnan viðhafður að vinna slík verk í náinni samvinnu við hin einstöku ráðuneyti. Í samvinnu við dómsmrn. hefur þannig verið unnið að endurskoðun á starfsemi Bifreiðaeftirlits ríkisins í því skyni að draga nokkuð saman starfsemi eftirlitsins og gera skoðun bifreiða ódýrari og fljótvirkari en nú er. Niðurstaða er að mestu fengin um það mál, en auk þess er unnið að aukinni vélvæðingu í dómsmálakerfinu.

Í samvinnu við sjútvrn. hefur starfsemi Framleiðslueftirlits sjávarafurða verið til sérstakrar skoðunar og er nú verið að athuga hvort koma megi fiskmati fyrir með öðrum hætti en gert hefur verið.

Í samvinnu við varnarmáladeild utanrrn. er verið að athuga möguleika til kostnaðarlækkunar við lögreglustjóraembættið á Keflavíkurflugvelli.

Auk fyrrgreindra atriða hefur verið gerð athugun á rekstrargrundvelli tæknideildar Húsnæðismálastofnunar ríkisins og á rekstrarmálum og stjórnunarháttum Fasteignamats ríkisins.

Þá má geta þess, að núv. ríkisstj. beitti sér fyrir 500 millj. kr. niðurskurði útgjalda skömmu eftir að hún tók við stjórnartaumum, auk þess sem hún hefur beitt sér fyrir ýmsum öðrum aðgerðum til sparnaðar og aðhalds. Sem dæmi þar um má nefna, að í fjmrn. og á vegum fjárlaga- og hagsýslustofnunar er nú unnið að framkvæmd eftirtalinna atriða:

1. Að ráðuneytum og ríkisstofnunum verði gert að gera áætlun um utanlandsferðir starfsmanna á árinu. Tilgreina skal í þessari áætlunargerð tilgang ferðar, dvalartíma, nafn starfsmanns og áætlaðan kostnað. Áætlanir þessar á síðan að senda venjulega boðleið um fagráðuneyti til fjárlaga- og hagsýslustofnunar. Þá hefur fjmrn. einnig rætt um það við ríkisbókara og hefur verið ákveðið að færa utanfararkostnað sérstaklega hjá hverri stofnun, bæði ferðakostnað og dvalarkostnað, þannig að hægt sé jafnan að fylgjast með því, að hve miklu leyti áætlanir þessar eru haldnar, og fá þá skýringar ef um brögð að því er að ræða að frá sé vikið.

2. Þá hefur verið ákveðið, að innheimtumenn ríkissjóðs skili jafnóðum öllum innheimtum tekjum til ríkissjóðs og innheimtumönnum verði þannig óheimilt að greiða gjöld vegna rekstrar embætta sinna og annarra verkefna með innheimtufé. Þess í stað fá innheimtustofnanir greiddar fjárveitingar úr ríkissjóði til starfsemi sinnar, en nokkur brögð hafa verið að því, að vísu ekki mjög veruleg, að sumar þessara stofnana hafa notað innheimtufé til að greiða kostnað við embættisrekstur eða til að greiða kostnað sem ætti í raun og sannleika að falla á aðra aðila, svo sem sveitarfélög.

3. Nú er unnið sérstaklega að skipulagningu og stjórn sjúkrahúsamála í landinu, þar með talið að endurskoða daggjaldakerfið, og ríkisstj. hefur fyrir sitt leyti tekið ákvörðun um að vinna að því, að fjárveitingar til Landakotsspítala, Borgarspítala og Sjúkrahúss Akureyrar verði í formi beinna fjárframlaga úr ríkissjóði. Það er að sjálfsögðu talsverð breyting frá því sem verið hefur.

4. Ákveðið hefur verið, að hert verði ákvæði um ráðningar starfsfólks til stofnana og fyrirtækja ríkisins. Í því tilliti er nú verið að endurskoða lög um ráðningarnefnd ríkisins, þannig að óheimilt verði að endurráða í lausar stöður án samþykkis ráðningarnefndar og þurfi þannig ávallt að fá samþykki ráðningarnefndar í hvert skipti sem endurskipað eða endurráðið er í stöðu, án tillits til þess hvort sú staða hafi verið heimiluð áður. Þetta hefur ríkisstj. gert til þess m.a. að beita sér fyrir sparnaði í fjármálakerfinu.

Þar sem ekki kemur nánar fram en til var vitnað áðan, hvorki í fsp. né heldur í umræddri þáltill. sem samþ. var, hvað átt sé við með orðinu „fjármálakerfi“, liggur auðvitað ljóst fyrir að ekki er hægt að svara þessari spurningu með öðru en almennum orðum, eins og ég hef reynt að gera. Sumt af því, sem ég hef hér sagt, á svo til eingöngu við stofnanir sem falla undir fjármálakerfið, en annað á einnig við aðrar stofnanir.

2. tölul. spurningarinnar er, hver hafi verið árangur nefndar þeirrar sem þingflokkarnir skipuðu samkv. ályktun Alþ. frá 21. des. 1978 til aðstoðar ríkisstj.

Svar við því er, að hinn 21. nóv. s.l. var stjórnmálaflokkunum skrifað bréf þar sem óskað var tilnefningar í þessa nefnd. Hins vegar drógust svör stjórnmálaflokkanna mjög á langinn. Svör bárust ekki frá Alþfl. fyrr en með bréfi dags. 13. júní, þar sem greint er frá því að Ágúst Einarsson sé tilnefndur af hálfu Alþfl. Nokkru síðar, eða 19. júní, var tilkynnt af Alþb. að Ólafur Ragnar Grímsson væri tilnefndur í nefndina af hálfu þess flokks. Símleiðis var tilkynnt að Jón Helgason væri tilnefndur af hálfu Framsfl. Og síðla sumars var enn fremur tilkynnt símleiðis að Eyjólfur Konráð Jónsson og Ellert Schram mundu verða í nefndinni af hálfu Sjálfstfl. Því lá fyrir að það var ekki fyrr en eftir mitt sumar sem tilnefningar flokkanna höfðu farið fram. Mátti því, ef miðað var við fyrri venjur, gera ráð fyrir að þáv. ríkisstj. hugsaði sér ekki að kalla nefndina til starfa fyrr en á haustdögum, eins og oft gerist og gengur með nefndir sem skipaðar eru þingmönnum. Samkomudagur þeirra er gjarnan miðaður við þann tíma þegar Alþ. tekur til starfa. Hins vegar gerðist það, eins menn muna, að nokkuð varð róstusamt á Alþ. eftir að það kom til starfa, svo að nefndin var ekki kölluð saman. Þar sem ætla má að með hugtakinu „fjármálakerfi“ sé átt við ýmsar stofnanir, sem teljast ekki til stofnana ríkisins og heyra því ekki undir beina stjórn ráðh., er því eðlileg að mati núv. ríkisstj., að það bíði ríkisstj., sem hefur víðtækara umboð en sú sem nú sigur, að nefndin sé kölluð saman, því að það hlýtur að vera á valdi ríkisstj. og nefndarinnar sameiginlega samkv. orðanna hljóðan í hinni samþ. þáltill. að ákveða hvað stofnanir heyri undir valdsvið og verksvið nefndarinnar.

Í þriðja lagi spyr hv. þm., hvort einhverju af þeim markmiðum hafi verið náð, sem nefnd eru í 2. mgr. þáltill., og þá hverjum. Vísa ég í því sambandi til þeirra svara sem ég hef þegar gefið við spurningu eitt og spurningu tvö.

Í fjórða lagi spyr hv. þm. hver sé fjöldi starfsmanna í fjármálakerfinu við samþykkt þáltill., hver hann hafi verið og hver hann sé nú.

Svar fjárlaga- og hagsýslustofnunar er orðrétt á þessa leið, með leyfi forseta:

„Upplýsingar um þetta atriði liggja ekki fyrir, enda er afar óljóst við hvað er átt með hugtakinu „fjármálakerfi“; eins og áður er getið. Eðlilegt er að nefndin sjálf skilgreini hvaða starfsemi hún vilji fella undir hugtakið „fjármálakerfi“

Lýkur þar því svari fjárlaga- og hagsýslustofnunar sem mér hefur verið fengið í hendur, en ég bað þá stofnun að undirbúa þau svör sem ég hef hér gefið, eins og eðlilegt má telja miðað við verksvið fjárlaga- og hagsýslustofnunar.