15.01.1980
Sameinað þing: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í B-deild Alþingistíðinda. (394)

213. mál, sparnaður í fjármálakerfinu

Fjmrh. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég get huggað hv. síðasta ræðumann og þingheim með því, að það er engin sérstök hætta á að við meginkrosstrén í baráttunni fyrir þingræði í landinu séum að bresta. En á hinu vildi ég vekja athygli, af því að fyrrv. fjmrh. er ekki viðstaddur, en hann mundi sjálfsagt hafa gert það ef hann væri við, að það er 21. nóv. sem hann óskar eftir því, sá ágæti maður, að tilnefningar séu gerðar í þessa nefnd. En eitthvað veldur því að tilnefningum í nefndina er ekki lokið fyrr en eftir mitt sumarið þar á eftir. Það var alla vega útilokað fyrir þáv. fjmrh. eða hvaða annan ráðh. að kalla nefndina saman þegar ekki hafði verið lokið tilnefningu í hana. (EKJ: Það getur ekki verið 21. nóv. Till. er samþ. 21. des.) Það stendur hérna. Það er þá villa. En ég vek alla vega athygli á því, að tilnefningum í þessa nefnd af hálfu þingflokkanna er ekki lokið fyrr en eftir mitt sumar. Ég býst því við, þó ég hafi ekki rætt það við „kerfismenn“ né heldur fyrrv. hæstv. fjmrh., að ætlunin hafi verið að kalla nefndina saman með haustdögum.

Ég hef síður en svo nokkuð á móti því að beita mér fyrir að þessi nefnd komi saman. Ef nefndarmenn vilja að ég óski eftir að nefndin sé kvödd saman mun ekki standa á mér að gera það. Við skulum því ekki gera úlfalda úr mýflugu. Hvorki fjmrh., embættismenn fjmrn. né menn í öðrum fjármálastofnunum hins opinbera eru á móti þessari nefnd, síður en svo. Ef þess er óskað af nm. að fjmrn. geri eitthvað til þess að nefndin geti komið saman eftir að tilnefningu hefur verið lokið, þá skal ég fúslega gera það og veita þessari ágætu nefnd, eins og mér ber skylda til þann tíma meðan ég sit í ráðherrastól, allar þær tiltækar upplýsingar og aðstoð sem ég get henni veitt. Mér finnst engin ástæða til annars en þn. eins og hér hefur verið um að ræða starfi og hún geti náð talsverðum og umtalsverðum árangri.

Að blanda öðrum atriðum inn í þessa umr., svo sem samskiptum manna vegna stjórnarmyndunarviðræðna og fleira slíku, tel ég algeran óþarfa.