15.01.1980
Sameinað þing: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í B-deild Alþingistíðinda. (403)

57. mál, umboðsfulltrúar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Í öðrum norrænum löndum hefur lengi verið til starf umboðsmanns þjóðþings, og ég ætla að það sé samdóma álit manna að það hafi reynst vel og þetta starf sé nauðsynlegur hlekkur í stjórnkerfinu. Ég hef kynnst þessu einna mest í Danmörku, þar sem þetta starf var stofnað með stjórnarskrárbreytingu eða nýrri stjórnarskrá 1953, og valdist til þess óvenjuhæfur maður, einn fremsti lagamaður Dana, prófessor Stephan Hurwitz, sem byggði upp þetta starf þar af mikilli atorku og vitsmunum. Þar í landi er lögð svo mikil áhersla á þetta starf til verndar borgurunum og réttindum þeirra, að það er fest í stjórnarskránni.

Það er orðið alllangt síðan umr. hófust um það, að til slíks starfs yrði stofnað hér á landi, og hafa verið fluttar um það þáltill. og lagafrv. Það hefur ekki náð samþykki Alþingis enn. Rétt er að skýra frá því, að þetta mál er á verkefnaskrá stjórnarskrárnefndar og hefur verið rætt þar. Ég hef stungið upp á því, að í stað orðsins „umboðsmaður“ Alþingis komi „ármaður“ Alþingis. Ég ætla að merking þess orðs frá fornu fari í íslenskri tungu eigi mjög vel við hér. Ég vænti þess, að samstaða geti náðst um það í stjórnarskrárnefnd — þó að enn hafi ekki verið gengið til atkv. um það — að leggja til á sinum tíma við Alþ. að til þessa starfs verði stofnað á þennan veg, að í sjálfa stjórnarskrána verði sett um það ákvæði, svo mikilvægt er þetta starf. Fyrst og fremst er það auðvitað í því fólgið, að þeir borgarar, sem telja sig ekki ná rétti sinum með öðrum hætti, geti leitað ráða hjá þessum starfsmanni. Ég ætla að t.d. í Danmörku, þó að ekki fylgi mikið vald þessu starfi, sé svo mikið áhrifavald samt sem áður sem fylgir álitsgerðum og tillögum þessa starfsmanns, að allir telji sér skylt að hlíta því. Ég vildi láta þetta koma hér fram.

Að því er snertir það mál sem hér er spurt um, þá er til þessa starfs á vegum dómsmrn. stofnað af hálfu hæstv. ríkisstj. til bráðabirgða, eins og hæstv. ráðh. hefur upplýst. Í það starf hefur að mínu viti valist vel hæfur maður. Ég vona fastlega að þetta verði síður en svo til að tefja það, að slíkt starf verði fest í lögum og stjórnarskrá, heldur fremur að þetta starf verði til að sýna fram á gagnsemi og nauðsyn þess.