15.01.1980
Sameinað þing: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í B-deild Alþingistíðinda. (406)

57. mál, umboðsfulltrúar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs m.a. til þess að vekja athygli á þeim umr. sem urðu hér í fyrra um ráðningu blaðafulltrúa. Þetta hefur nú verið ítarlega gert af a.m.k. tveimur ræðumönnum, og sé ég ekki ástæðu til að endurtaka það, en undirstrika það sem þar kom fram, að furðuleg eru þau sinnaskipti sem hafa orðið hjá mönnum sem gagnrýndu harðlega þá ráðningu þá.

En um þetta mál almennt vil ég segja, að að sjálfsögðu er það rétt sem hér hefur verið bent á, að um allt annað starf er að ræða þar sem umboðsfulltrúi dómsmrn. er eða umboðsmaður Alþingis. Það er vitanlega mikill misskilningur að bera þetta saman. Ég vona að það sé tilviljun ein, að slíkt nafn er valið. En þó virðist mér felast í því nokkur auglýsingamennska, verið að gefa til kynna að það mikilvæga mál sé þar á góðri leið. Þetta er vitanlega mikill misskilningur.

Ég hef verið hlynntur hugmyndinni um umboðsmann Alþingis. É er hins vegar í ákaflega miklum vafa um þetta starf. Ég hef ekki getað séð enn þá hvert er verksvið þessa manns. Ég er ekki á nokkurn máta að kasta rýrð á manninn sjálfan, þetta er ungur ágætismaður og ekkert við hann út af fyrir sig að athuga. En almenningur gerir kröfu til þess að hafa beinan aðgang að starfsmönnum rn., m.a. ráðherra, ekki síst í þeim ákaflega viðkvæmu málum sem dómsmrh. fjallar um, — ákaflega viðkvæmum málum einstaklingsins, — þannig að ég hygg að það sé mikið spor aftur á bak að setja þarna mann á milli. Ef þetta á hins vegar að vera maður sem tekur við kvörtunum gagnvart dómstólum, þá verða menn að hafa í huga það grundvallaratriði, að dómstólar og framkvæmdavald eru aðskilin í okkar þjóðfélagi, og allar aðfinnslur af hendi rn., sem því miður eru oft óhjákvæmilegar, það skal ég viðurkenna, eru yfirleitt viðkvæmari í meðferð og að mínu mati getur aðeins dómsmrh. í raun og veru sinnt slíkum málum sjálfur, og hann á ekki að skjóta sér undan því. Þess vegna verð ég að endurtaka það, að ég á ákaflega erfitt með að sjá hvert starfssvið þessa manns er.

Inn í þær umr., sem hér hafa farið fram, hefur aðeins spunnist skipun formanns flugráðs. Ég á sæti í flugráði og vil því ekki láta það fram hjá mér ganga. Ég verð að segja að ég varð ákaflega undrandi þegar ég sá þessa skipun. Mér skilst að talið hafi verið óviðeigandi að flugmálastjóri væri jafnframt formaður flugráðs, og segja má að slíkt sé í ýmsum tilfellum óeðlilegt, ég get tekið undir það. En svo hefur það þó verið í þessu tilfelli frá upphafi og flugmálastjóri er viðurkenndur af öllum, sem um flugið fjalla eða hafa þar mála að gæta bæði hér og erlendis, sem úrvalsmaður og brautryðjandi á þessu sviði. Ég tel ákaflega ómaklegt, að á meðan hann er nú erlendis sjálfur og ekki viðstaddur er annar maður skipaður formaður, og á hann þó ekki eftir nema örstuttan tíma í starfi. Er þetta lítil viðurkenning á hans ágæta starfi.

Ég vil ekki gagnrýna þann mann sem er skipaður. Hann er ágætur starfsmaður. En ég tek undir það sem ég heyrði áðan. Það er að mínu mati fáránlegt að skipa rekstarstjóra Flugleiða formann flugráðs. Flugleiðir eru nú og hljóta að verða mjög undir smásjánni og allur rekstur Flugleiða athugaður. Uppi er mikil gagnrýni, og ég tel nauðsynlegt að ríkisstj. og jafnvel Alþ. láti þau mál til sín taka. Flugráð hlýtur að blandast inn í þau mál, og sá maður, sem þarna er formaður og er rekstrarstjóri Flugleiða, er óhæfur að mínu mati að gegna starfi formanns, ef flugráð á að fjalla að einhverju leyti um þessi alvarlegu mál í fluginu hjá Flugleiðum. Ég vil taka undir þá gagnrýni, sem kom fram, og endurtek furðu mína á skipun formanns flugráðs.