15.01.1980
Sameinað þing: 12. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (416)

15. mál, málefni hreyfihamlaðra

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil lýsa stuðningi mínum við þessa þáltill. sem hér liggur fyrir. En eins og fram kemur í grg. á að verða tekið fullt tillit til þarfa hreyfihamlaðra í nýbyggingum í framtíðinni. Og eðlilegt er að í samræmi við það verði einnig framkvæmdar nauðsynlegar breytingar á eldri byggingum, þar sem því verður við komið enda tel ég að allir stjórnmálaflokkarnir hafi tekið undir þá sjálfsögðu beiðni fatlaðra sem þeir beindu til flokkanna fyrir síðustu kosningar.

Sú opinbera stofnun, sem fatlaðir þurfa að sjálfsögðu oftast að leita til, er Tryggingastofnun ríkisins, en þar hagar svo til, eins og allir vita, að fattaðir eiga ekki auðveldan aðgang. Nú er fyrirhugað að stækka húsakynni Tryggingastofnunar ríkisins, þar sem tekinn hefur verið á leigu hluti fjórðu hæðar í húsi Egils Vilhjálmssonar, eða um 445 m2. Þar er fyrir hendi allgóð aðstaða fyrir fatlaða að því er varðar aðgang að lyftu o.fl., sem ekki er fyrir hendi í núverandi húsakynnum. Því hlýtur að vera mjög æskilegt að t.a.m. læknaþjónustan í Tryggingastofnuninni, sem fatlaðir þurfa oft að leita til, fái aðstöðu í þessum nýju húsakynnum. Vil ég beina þeirri eindregnu ósk til heilbr.- og trmrh., að hann hlutist til um að læknaþjónustan fái inni í þessum nýju húsakynnum, þar sem ljóst er að þar verður mun auðveldari aðgangur fyrir fatlaða en nú er fyrir hendi.

Ég ítreka stuðning minn við þessa þáltill. og vænti þess, að þm. styðji þetta mál og veiti því brautargengi hér á Alþingi.