15.01.1980
Sameinað þing: 12. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í B-deild Alþingistíðinda. (417)

15. mál, málefni hreyfihamlaðra

Guðrún Helgadóttir:

Forseti. Mig langar fyrir hönd míns þingflokks að taka undir þessa till. til þál. og styðja hana í alla staði. Ég er hins vegar ekki svo bjartsýn að halda að einhver bylting verði í þessum málum þó svo að vel sé undir hana tekið. Hér er um svo stórt mál að ræða að mikið þarf til svo að það verði leyst að sinni. Í okkar þjóðfélagi, sem því miður byggist á flestu öðru eða mörgu öðru en samfélagsanda, er auðvitað ekki við því að búast, að fullt tillit sé tekið til þeirra sem eru fatlaðir eða hreyfilamaðir. Gróðahyggjuþjóðfélög gera það sjaldnast, og fatlaðir eru gjarnan óarðbærir þjóðfélagsþegnar.

Til þess að eitthvert gagn verði að aðgerðum sem gera fötluðum lífið bærilegt, þannig að þeir geti lifað og notið sín og sinna hæfileika að því marki sem fötlun þeirra leyfir, þarf að gera miklu meira en þetta.

Á allra síðustu árum hefur vissulega nokkur framför orðið. Ég vil t.d. geta þess, að hér í höfuðstaðnum hefur ýmislegt verið gert til þess að auðvelda þessu fólki daglegt amstur. Til dæmis ganga nú tveir til þess gerðir strætisvagnar sem flytja fatlaða að eigin ósk hvert sem þeir þurfa að fara. Jafnframt hefur verið hafin breyting á gangstéttum þannig að hjólastólar eigi auðveldara með að komast út á götu. Við konur þekkjum það mál kannske ýmsum öðrum betur eftir að hafa baslað barnavögnum niður af gangstéttum og út á götur, svo að ekki þarf að segja okkur neitt um hvernig er að ferðast um í hjólastólum.

Hv. 10. landsk. þm. minntist áðan á Tryggingastofnun ríkisins. Það er auðvitað alveg rétt, að til vansa er hvernig að fötluðum er búið sem þangað þurfa að koma. Ég er hins vegar hrædd um að leiga á fjórðu hæð hússins við hliðina bjargi þar litlu, því að vitaskuld þurfa fatlaðir að sinna erindum á aðrar deildir en læknadeild stofnunarinnar. Og það er ekki létt verk að komast á hinar deildirnar þó að þetta húsnæði sé tekið. Að mínu viti þyrfti og hefði þurft fyrir löngu að byggja nýtt hús fyrir Tryggingastofnun ríkisins, og ekki bara fyrir hana, heldur þarf að koma starfsemi endurhæfingarráðs í sama hús og Tryggingastofnun ríkisins er. Það vita allir, sem starfa við þessi mál, og þá læknastéttin ekki síst, að fólk fær hér í landi ágæta þjónustu á sjúkrahúsum landsins og jafnvel ágæta endurhæfingu. En síðan verður fólk að yfirgefa sjúkrahúsin og stofnanirnar og þá er því nánast ekkert til hjálpar. Þessa sögu held ég að við þekkjum öll. Handa manneskjunni, sem orðið hefur fyrir einhverju áfalli sem gerir hana fatlaða, er hvorki húsnæði, atvinna né frambærilegur lífeyrir fyrir hendi, svo að venjulega fyllstu þetta fólk algeru vonleysi og fær ekki notið sín á nokkurn hátt.

Það er óþarfi að rekja frekar erfiðleika fatlaðra við að ferðast um. Það held ég að hafi komið hér skýrt fram í ræðu hv. 1. þm. Vesturl. En til eru lög frá 1970 sem heita lög um endurhæfingu. Þar er t.d. ákvæði í 14. gr. þar sem segir að hver sú manneskja, sem notið hefur endurhæfingar, skuli hafa forgang að atvinnu hjá ríki og sveitarfélögum. Þó að þetta séu landslög er aðeins eitt bæjarfélag, eftir því sem ég best man, búið að fallast á að framkvæma þetta atriði með því að geta þessa í auglýsingum um stöður. Reykjavíkurborg lét sér hins vegar sæma að fella það í borgarstjórn þegar ég bar fram till. um það. Jafnframt er í lögum þessum ákvæði um að sveitarfélög skuli að tillögu endurhæfingarráðs beinlínis sjá manni fyrir framfærslu á meðan hann er í endurhæfingu, og ekki bara honum, heldur jafnframt fjölskyldu hans. Ég held að ég segi ekkert óvarlegt, þó að ég haldi því fram að þetta hafi tvisvar sinnum gerst síðan 1970 og þá í svo litlum mæli að ekki var um neina framfærslu að ræða. Því miður verður það að upplýsast hér á hinu háa Alþingi, að lög þau, sem það setti um endurhæfingu, eru að mestu nafnið tómt, vegna þess að framkvæmd hefur hreinlega orðið sáralítil. Og það er auðvitað umhugsunarefni fyrir okkur þm. þegar það, sem við samþykkjum hér sem lög, er ekki framkvæmt. Mér er ljóst að fjármagn kann að hafa vantað. En mér hefur sýnst áhugi þm. allra flokka vera í þá veru hér a.m.k. nú, að menn vilji einlæglega koma einhverju viti í þessi mál. Þess vegna er kannske von til þess, að meira verði úr framkvæmdinni á þeim lögum sem við setjum héðan í frá varðandi fatlaða. Jafnframt því að koma endurhæfingarlögunum í framkvæmd þarf einnig að sjá um að stærstu sjúkrahús landsins hafi aðstöðu til endurhæfingar. Við vitum öll að aðstaða á Landspítalanum t.d. er til mikils vansa og endurhæfingarlæknar þar hafa margkvartað. Það hefur lengi staðið á að Grensásdeild Borgarspítalans fengi sundlaug sem er mikilvægt atriði í allri endurhæfingu fatlaðra.

Svona mætti lengi telja. Í stuttu máli sagt eru þessi mál öll í ólestri. Við höfum einfaldlega ekki gert ráð fyrir hinum fötluðu. Það er svolítið til í því sem fatlaður maður sagði við mig þegar ég sótti ráðstefnu um þessi mál úti í Finnlandi á þessu ári. Hann sagði: „Það er galli að við skulum ekki vera fleiri, þá gengi okkur kannske betur.“ Við hér á Íslandi ættum, af því að við erum líka fá, að taka höndum saman við þennan hóp.

Ég get að lokum getið þess, að almannatryggingalöggjöfin þarfnast líka gagngerrar endurskoðunar. Og ég vil beina því til hæstv. heilbr.- og trmrh., að endurskoðunarnefnd sú um almannatryggingar, sem nú situr að störfum, hraði þeim. Það virðist stundum eins og slíkar nefndir þurfi að skila hellum lagabálki í einu. Ég held hins vegar að ekkert sé á móti því, að þær sendi frá sér það sem þær hafa tilbúið. Lögin skiptast í nokkra málaflokka og ætti að vera hægt að ganga frá einhverjum þeirra þó að endurskoðuninni sé ekki allri lokið.

Ég vil fagna framkominni till. til þál. Ég held að aldrei sé of oft vakin athygli á þessum málum hér í hinu háa Alþingi og ég lýsi yfir stuðningi mínum og minna flokksmanna við tillöguna.