16.01.1980
Efri deild: 18. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í B-deild Alþingistíðinda. (422)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Það frv. til l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins, sem hér liggur fyrir, er mikill lagabálkur og merkur. Ég vil í upphafi máls míns þakka hæstv. félmrh. fyrir þá miklu vinnu, sem hann sjálfur hefur lagt í það mál og látið vinna, því að frv. ber með sér að mjög rækilega hefur verið vandað til undirbúnings þessa máls. Í grg. frv. er rakinn nokkuð aðdragandinn, og vil ég aðeins bæta fáeinum orðum við þá sögu. Svo er mál með vexti, að 1. ágúst 1975 var af félmrn. skipuð nefnd manna til að endurskoða húsnæðismálalöggjöfina. M.a. var ætlunin að sú nefnd fjallaði ekki síst og jafnvel sérstaklega um það samningsatriði, sem ákveðið var í febrúarmánuði 1974 í viðræðum verkalýðssamtakanna og þáv. ríkisstj. í sambandi við kjarasamninga, varðandi byggingu félagslegra íbúða. Þessi nefnd, sem var skipuð í byrjun ágúst 1975, átti að hafa með höndum heildarendurskoðun húsnæðislaganna og um leið þetta samningsatriði sem síðan hefur verið endurtekið oftar en einu sinni, bæði með yfirlýsingum og óskum frá verkalýðssamtökunum og samþykki ríkisstj.

Ég skýri frá þessari nefndarskipun vegna þess að ég tel rétt að hún komi inn í þetta dæmi. Í þessa nefnd voru skipaðir tveir menn samkv. tilnefningu Alþýðusambands Íslands, þeir Benedikt Davíðsson og Óskar Hallgrímsson, einn maður frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, sem var Svavar Helgason kennari. Aðrir nm. voru þeir Ólafur Jensson framkvæmdastjóri, sem var skipaður formaður nefndarinnar, Gunnar Helgason, formaður húsnæðismálastjórnar þá, Gunnar S. Björnsson húsasmíðameistari og Þráinn Valdimarsson framkvæmdastjóri.

Þessi nefnd viðaði að sér allmiklum gögnum, en því miður tókst henni ekki að ljúka störfum þannig að hún skilaði endanlegu nefndaráliti og tillögum. Hins vegar lét formaður nefndarinnar mér í té nokkru fyrir stjórnarskiptin haustið 1978 hugmyndir og frv.-drög sem hann sem formaður hafði tekið saman, og mér er kunnugt um að skömmu eftir stjórnarskiptin, eða í sept. 1978, gekk formaður nefndarinnar, Ólafur Jensson, á fund núv. hæstv. félmrh. og lagði þessi sömu frv.-drög fyrir hann og skýrði þau. Annar nm., Gunnar S. Björnsson húsasmíðameistari, átti einnig tal við hæstv. félmrh. um svipað leyti og gerði grein fyrir þessum hugmyndum og öðrum sem fram höfðu komið.

Mér virðist eftir frv. að dæma að þessara ábendinga, þessara tillagna — sem að vísu urðu ekki tillögur nefndarinnar þar sem hún lauk ekki störfum, heldur ábendingar formanns og annars nm. — þeirra gæti sums staðar í þessu frv., og ég vil segja sem betur fer, því að mér fannst margt af þeim hugmyndum vera mjög athyglisvert og mundi vera til bóta.

Þessi nefnd var svo leyst frá störfum haustið 1978, nokkru eftir stjórnarskiptin, og aðrir tóku við, eins og grein er gerð fyrir í aths. við lagafrv.

En á þessum árum, 1975–1978, var einnig sett á laggirnar önnur nefnd, sem skyldi hafa sérstaklega með höndum, í samræmi við óskir verkalýðssamtakanna, hinar félagslegu íbúðir. Sú nefnd var skipuð í samráði við verkalýðssamtökin 14. sept. 1977 og var verkefni hennar að vinna að endurskoðun þeirra ákvæða laga um Húsnæðismálastofnun ríkisins sem fjalla um byggingu íbúða á félagslegum grundvelli, í samræmi við yfirlýsingar ríkisstj. um húsnæðismál frá 28. febr. 1974 og 26. febr. 1976. Þessari n., sem ég skipaði um miðjan sept. 1977, var falið sérstaklega að taka til meðferðar grg. og till. Alþýðusambands Íslands um húsnæðismál frá febr. 1977. Sérstök áhersla, segir í bréfi ráðh., skal lögð á að efla byggingu verkamannabústaða og tryggja nægilegt fjármagn til þeirra. Kannaðar skulu leiðir til þess að létta greiðslubyrði lána til kaupenda verkamannabústaða fyrstu 3–5 árin.

Í þessa nefnd voru skipaðir Gunnar Helgason, formaður húsnæðismálastjórnar, sem var skipaður formaður nefndarinnar, enn fremur þeir Björn Ólafsson, Magnús L. Sveinsson og Óskar Hallgrímsson samkv. tilnefningu Alþýðusambands Íslands, og auk þeirra Gunnar S. Björnsson og Þráinn Valdimarsson, sem báðir höfðu átt sæti í hinni fyrri nefnd. Þessi nefnd skilaði áliti haustið 1978, og er þess getið í grg. á bls. 15 og raunar víðar. Hún lauk störfum í nóvembermánuði 1978 og er byggt á till. hennar í veigamiklum atriðum í þessu frv.

Ég vildi rekja þessar tvær nefndarskipanir, sem ég fjallaði um sem félmrh. á þeim árum, og verkefni þeirra. Ég sé að þeirra starfa gætir allverulega í þessu frv.

Ég vil á þessu stigi máls benda á nokkur atriði sem ég tel að þurfi athugunar við í n., um leið og ég lýsi stuðningi við frv. og mæli með samþykkt þess að áskildum breytingum sem nánar yrðu ræddar í n. og af n. við hæstv. félmrh.

Ég nefni fyrst atriði sem ekki skiptir miklu máli, málfarslegt atriði, hvort ekki ætti að nefna þessa stofnun Húsnæðisstofnun í stað hins lengra orðs, Húsnæðismálastofnun.

Í 5. gr. frv. er svo kveðið á, að skipa skuli forstjóra fyrir stofnunina og enn fremur framkvæmdastjóra deilda, sem eru tvær eða raunar þrjár taldar í 2. gr. Ég vil varpa því fram, hvort ekki sé um óþarflega mikla og dýra yfirbyggingu að ræða að hafa stjórana svo marga og hvort ekki nægi að hafa einn forstjóra eða framkvæmdastjóra í stað þessara þriggja eða jafnvel fjögurra.

Í 8. gr. frv. er rætt um fjáröflun til Byggingarsjóðs ríkisins í fimm liðum og hefur fjáröflun til sjóðsins orðið hér mjög að umtalsefni af hálfu hv. þm., sem tekið hafa til máls nú við þessa 1. umr. Um fjáröflun til Byggingarsjóðs er auðvitað margt sem velkist í vafa, vegna þess m.a. að lántökur t.d. frá lífeyrissjóðum eru mjög breytilegar frá ári til árs. Hins vegar er rétt að geta þess, að það er mjög jákvætt atriði í sambandi við fjáröflun eða lántöku Byggingarsjóðs frá lífeyrissjóðunum, að ég held að megi fullyrða að allur þorri lífeyrissjóðanna hafi verulegan áhuga á því að verja sem mestu af ráðstöfunarfé sínu einmitt til Byggingarsjóðs. Það hefur komið glögglega fram á undanförnum árum, stundum orðið nokkur togstreita milli ýmissa stjórnvalda og stjórna lífeyrissjóða, vegna þess að ýmsir aðilar, sem hafa með höndum umsjá annarra sjóða, stofnlánasjóða, hafa lagt á það mikla áherslu að fá verulegt fé frá lífeyrissjóðunum til þeirra þarfa. Um þetta hefur orðið ágreiningur, og á þeim árum, sem ég sat í félmrn., hafði félmrn þá afstöðu að standa þar við hlið Byggingarsjóðs og lífeyrissjóðanna til þess að tryggja sem mest fjármagn frá þeim til húsnæðismálanna. Ég tel, að óhjákvæmilegt sé að halda þeirri stefnu áfram, og veit að hún er í samræmi við óskir verkalýðssamtakanna og yfirgnæfandi hluta af stjórnendum lífeyrissjóðanna sjálfra.

Í þessari 5. gr., þar sem talað er um fjáröflun, tel ég því að lántökur úr lífeyrissjóði séu ákaflega mikilvægur þáttur, og getur um allan framgang þessara mála oltið mjög á því, hvernig haldið er á þeim málum. En í sambandi við 5. gr. tel ég æskilegt að bæta þar við heimild til að afla meira fjármagns, þ.e. með útgáfu skuldabréfa af hálfu sjóðsins, og ekki aðeins hugsanlegt, heldur sennilegt að afla megi sjóðnum töluverðs fjármagns með slíkri heimild.

Í 9. gr. er mælt svo fyrir, að Byggingarsjóður ríkisins skuli vera í vörslu Seðlabanka Íslands, en að afgreiðsla lána úr sjóðnum og innheimta skuli fara fram á vegum veðdeildar Landsbanka Íslands. Að vísu er í niðurlagi greinarinnar veitt heimild til handa ráðh. til að ákveða, að fengnum till. húsnæðismálastjórnar, að almennum innlánsstofnunum skuli heimilað að annast afgreiðslu lána og innheimtu þeirra. Ég vil beina því til hæstv. ráðh. og n. að athuga hvort á ekki beinlínis að gera að aðalreglu að almennar innlánsstofnanir geti haft þessa afgreiðslu með höndum, en ekki gera ráð fyrir því sem meginreglu að það sé Landsbankinn einn, þó þessi heimild fylgi að vísu.

Í 12. gr. frv. er talað um heimildir til að veita lán, og þar er atriði sem ég tel einnig að þurfi nokkurrar athugunar við, og það er hvort lán, sem Byggingarsjóður veitir, eigi að fylgja íbúðunum eða húsunum, sem lánað er til, eða hvort þau eigi að fylgja einstaklingunum sem þau fá. Í sambandi við síðarnefndu tilhögunina kemur það nefnilega mjög inn í þetta mál allt saman, hvort eigi ekki að takmarka það verulega hversu oft megi veita sama einstaklingi lán til íbúðarbyggingar eða kaupa. Þetta er mál sem ég tel að þurfi sérstaklega að taka til athugunar.

Í 13. gr. er svo fyrir mælt, að lánstími skuli vera 21 ár í stað 26 ára, og þar er náttúrlega um breytingu að ræða, sem veldur lántakendum þyngri búsifjum en verið hefur. Tel ég mjög athugandi hvort ekki ætti að reyna að halda hinum lengri lánstíma sem er í lögunum. Þetta mál snertir auðvitað hina vandasömu útreikninga og áætlanir um fjármögnun sjóðsins, en ég tel að þetta um lánstímann eða styttingu hans þurfi að athuga mjög vandlega.

Í 27. gr. frv. er heimilað að veita lán til að taka í notkun tækninýjungar. Þetta er auðvitað ágætt ákvæði. Hér þarf að taka til athugunar einnig að sumir aðrir sjóðir hafa þetta sama verkefni, og vil ég nefna þar sérstaklega Iðnlánasjóð sem þegar hefur veitt mörg lán í slíku skyni. Ég ætla að rétt væri að samræma þetta, svo að ekki verði hætta á því að úr fleiri sjóðum en einum sé kannske að þarflitlu verið að veita lán, heldur yrði þarna samstarf milli þeirra sjóða sem vilja og hafa það verkefni að efla tækninýjungar.

Í 32. gr. frv. er ákveðið að hámarkslánsfjárhæð megi nema allt að 80% af áætluðum byggingarkostnaði. Hér er heimild til þess að lána allt að 80%. Ég er því fyllilega samþykkur og hef oft áður gert till. um það, að í þá fjárhæð verði komist hið allra fyrsta. Hins vegar er í því uppkasti að reglugerð, sem fylgir þessu frv., reglugerð um almenn veðlán Byggingarsjóðs ríkisins, á bls. 49, ákveðið í 5. gr. hvernig þetta skuli framkvæmt á næsta áratug. Þar er ákveðið að á árinu 1980 skuli lánahlutfallið aldrei vera lægra en 30% og síðan hækkandi fram til ársins 1990 í 80%. Ég vil nú leggja á það mikla áherslu, að-reynt verði að finna leiðir til þess að láta þétta mark, 80%, koma til framkvæmda miklu fyrr en hér er gert. Ég veit að það er vandasamt, en veltur mjög á því, hvernig tekst að leysa þessi tvö meginatriði um fjáröflun, sem ég minntist á, annars vegar lán úr lífeyrissjóðum landsmanna og hins vegar með sjálfstæða verðbréfasölu sjóðsins. En það er annað í þessu sem þarf líka athugunar við. Það er lagt algerlega á vald ráðh. á hverjum tíma hvernig þetta skuli framkvæmt, þar sem hér er gert ráð fyrir að þetta sé reglugerðarákvæði. Og spurningin er sú, sem ég vildi varpa fram, hvort ekki væri ástæða til að binda þetta betur í lögunum sjálfum, hversu fljótt skuli reynt að ná þessu marki, að komast upp í 80% lánveitingar.

Í 37. gr. frv, ræðir um stjórnir verkamannabústaða. Þar er breytt nokkuð frá þeim till. sem nefndin, sem skipuð var árið 1977, lagði til. Það er einkum eitt atriði sem mér finnst þar þurfa nánari skoðunar við, hvort húsnæðismálastjórn eða félmrh. á ekki að tilnefna einn mann í þessa stjórn. Ég teldi æskilegra að svo væri. Það var einnig gert ráð fyrir því í till. nefndarinnar sem fjallaði um félagslegar íbúðir, og til þess að tryggja sem best samstarf og tengsl milli verkamannabústaðanna í sveitarfélögunum við húsnæðismálastjórn og yfirstjórn þessara mála í félmrn. teldi ég æskilegra að þaðan kæmi einnig fulltrúi. Það mætti auðvitað gera án þess að fækka þeim fulltrúum sem verkalýðsfélögin tilnefna.

Loks er það 67. gr. sem ég vil nefna í þessu stutta yfirliti eða ábendingum, og hún er um tækni- og þjónustudeild Húsnæðismálastofnunar. Þar vil ég varpa því fram, hvort ekki sé nægilegt að tækni- og þjónustudeild sé Húsnæðismálastofnun — og að sjálfsögðu byggingaraðilum og verkamannabústöðum og öðrum slíkum — til aðstoðar og leiðbeiningar, veiti einnig umsækjendum um íbúðalán almennar upplýsingar og ráðgjöf, eins og hér segir, en hvort ekki sé óþarft að þessi tækni- og þjónustudeild reki sjálfstæða teiknistarfsemi í keppni við almennar teiknistofur. Ég fyrir mitt leyti tel það óþarft og að mörgu leyti óheppilegt. Ég tel að það ætti að takmarka starfsemi tækni- og þjónustudeildarinnar við ráðgjafarstörf og upplýsingar án þess að hún væri í beinni keppni við hinar almennu teiknistofur í landinu.

Ég vildi við þessa 1. umr. aðeins benda til athugunar fyrir hæstv. ráðh. og fyrir n. á nokkur þeirra atriða sem ég tel að beri að athuga. Þau eru mörg fleiri, þótt ég hafi ekki nefnt þau hér, sem verður þá komið á framfæri við n. á sínum tíma. Ég vil ljúka máli mínu með því að endurtaka, að mér finnst frv. markvert spor til umbóta í húsnæðismálum, og ég lýsi yfir stuðningi og fylgi við það með ýmsum breytingum, sem kæmu þá til umr. í n., og vil þakka ráðh. fyrir undirbúning málsins.