17.12.1979
Neðri deild: 3. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (43)

8. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég er hlynntur því að sá skattur, sem hér er um að ræða, sérstakur skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, verði framlengdur. Þetta er skattur sem fráfarandi vinstri stjórn lagði á fljótlega eftir að hún kom til valda og ég tel eðlilegt að framlengja hann. Ég tel að það ætti að byrja á öðrum en fyrirtækjum og slíkum aðilum ef ætti að létta skattabyrði hér í landinu.

Ég sé að samkv. því frv., sem hér liggur fyrir frá hæstv. ríkisstj., er gert ráð fyrir að skattfrelsismörkin verði rýmkuð nokkuð. Hins vegar vantar í grg. með frv. upplýsingar um hverju þessi rýmkun skattfrelsismarkanna nemur í tekjumissi fyrir ríkissjóð frá því sem ella hefði verið. Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh., hvað megi gera ráð fyrir að rýmkun skattfrelsismarkanna þýði í upphæðum á árinu 1980 samkv. þeim áætlunum sem nú liggja fyrir.

Það kann að vera að hæstv. fjmrh. hafi ekki við höndina svör við þessari spurningu, og þá vænti ég þess, að þau komi fram við meðferð málsins í hv. fjh.- og viðskn. d., og hugsanlegt er að við þær upplýsingar komist menn að þeirri niðurstöðu, að sú rýmkun skattfrelsismarkanna, sem þarna er um að ræða, sé óþörf eða a.m.k. óþarfi að ganga jafnlangt og gert er ráð fyrir í frv. hæstv. ríkisstj.