16.01.1980
Neðri deild: 18. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í B-deild Alþingistíðinda. (435)

65. mál, greiðsla opinberra gjalda 1980

Fjmrh. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkrar setningar.

Áður en menn gera þá breytingu, sem hv. þm. Albert Guðmundsson orðaði, bið ég menn að athuga mjög vel sinn gang og leita umsagna hjá lögfræðingum fjmrn. um hvaða breytingu slíkt mundi hafa í för með sér. Menn skulu gera sér ljóst að krafan, sem ríkissjóður á, er skatturinn í heild eins og hann er á lagður. Síðan er honum skipt á tiltekna gjalddaga. Um leið og ekki er greitt á gjalddaga gjaldfellur krafan öll að sjálfsögðu. Þetta er regla sem gildir í miklu fleiri fjárskuldbindingum en gagnvart opinberum gjöldum. Ég held að menn ættu að skoða mjög vel hug sinn og íhuga hvað mundi fylgja í kjölfarið ef þeirri reglu yrði breytt, það mundi draga dilk á eftir sér, sem ég held að menn mundu ekki telja ákjósanlegt að dreginn yrði, ef menn kynntu sér það mál frekar.

Ég vildi sem sagt biðja hv. fjh.- og viðskn., um leið og hún athugar þessa ábendingu, að kynna sér hvaða afleiðingar það mundi hafa ef slík breyting yrði gerð.