16.01.1980
Neðri deild: 19. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í B-deild Alþingistíðinda. (443)

65. mál, greiðsla opinberra gjalda 1980

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur tekið til meðferðar frv. til l. um greiðslu opinberra gjalda fyrri hluta ársins 1980 og leggur til að það verði samþ. með þeirri breytingu, að í stað orðsins „ógreitt“ í 1. málsl. 3. gr., þar sem stendur: „skal greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem ógreitt er, talið frá og með gjalddaga“ komi: gjaldfallið. Ástæðan fyrir þessari breytingu er sú, að nm. óska eftir að það verði skýrt, að ekki sé heimilt að innheimta dráttarvexti af öðru en því sem fallið er í gjalddaga. Að vísu verður að líta svo á, að frv. beri það með sér, því að í 1. gr. stendur: „Skal fyrirframgreiðslan falla í gjalddaga með fimm jöfnum fjárhæðum hinn 1. febrúar, 1. mars, 1. apríl, 1. maí og 1. júní 1980.“ Og síðan kemur í 3. gr.: „Séu gjöld samkv. lögum þessum ekki greidd innan mánaðar frá gjalddaga, skal greiða ríki dráttarvexti af því sem ógreitt er, talið frá og með gjalddaga.“ Þarna er ávallt vitnað til gjalddaga. En til þess að taka af öll tvímæli leggur n. til að í stað orðsins „ógreitt“ komi: gjaldfallið.

Þá voru uppi umr. í n. um að sveitarfélögin fengju að innheimta hærra hlutfall en 70% eða 75%. Fyrir n. lá beiðni frá Sambandi ísl. sveitarfélaga um að hlutfallið yrði eigi lægra en 70% og er það hér lagt til grundvallar. Þar sem annað hefur ekki komið fram af hálfu þeirra samtaka þótti eigi unnt að breyta því.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál, en vil aðeins endurtaka það, að n, leggur til að frv. verði samþ. með þessari einu breytingu.