16.01.1980
Neðri deild: 19. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í B-deild Alþingistíðinda. (444)

65. mál, greiðsla opinberra gjalda 1980

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil nú fagna því að þessi orðalagsbreyting, sem ég lagði til, var samþ. á fundi fjh.- og viðskn., þegar hún fjallaði um það frv., sem hér liggur fyrir, um greiðslu opinberra gjalda fyrri hluta ársins 1980. Ég vil bæta því við þau fáu orð sem ég sagði fyrr í dag um þetta mál, að hlutfall ríkis af innheimtu opinberra gjalda, sem fara í gegnum Gjaldheimtuna í Reykjavík, er um 58%, borgarinnar tæplega 40% og afgangurinn eru gjöld sem eru innheimt fyrir aðra aðila. Upphæðin kemur til með að verða um 5 milljarðar árið 1979 — að vísu eru inni í þeirri upphæð áður gjaldfallnar skuldir — þannig að hér er ekki um lítinn tekjulið að ræða. Ég vil enn fremur segja að það er alvarlegt mál, þegar opinberir aðilar eru farnir að reikna með sektarvöxtum sem föstum tekjuliðum við gerð fjárhagsáætlana sinna, bæði ríki og sveitarfélög.

Þegar svo er komið að opinberir aðilar skattleggja borgarana í svona ríkum mæli til að standa undir rekstri eða framkvæmdum sínum og duttlungum, þá vil ég segja að þjóðfélagið sé sjúkt. Þetta vita alþm. Þetta gellur á okkur hvert sem við förum í hinu daglega lífi. En það kemst aldrei á dagskrá hér á hv. Alþ. Það er alveg augljóst að hér þarf að leita lækninga og þarf við læknisaðgerða sem duga. Það eru miklir stjórnsýsluerfiðleikar sem blasa við Alþ. og Alþ. virðist ófært um að leysa. En ég held að smábætur eins og um er að ræða í þessu frv., bætur sem eru hluti af stærra máli, skattalagafrv., séu engin lausn þó að Alþ. sé á síðustu stundu neytt til að hlaupa til og samþykkja kafla og kafla í lausnum sem ekki eru varanlegar, enda kemur fram í fyrirsögn þessa frv. að um greiðslu opinberra gjalda á fyrri hluta ársins 1980 sé að ræða.

Ég held að við verðum að fara að gera okkur ljóst, að það gengur ekki að landið sé stjórnlaust öllu lengur, það gengur ekki að við séum að samþykkja í smáskömmtum einn og einn kafla eða eitt og eitt atriði í lögum bara vegna þess að við reynumst óhæfir til þess að gegna þeim trúnaðarstörfum sem fólkið hefur kosið okkur til að gegna. Það er ekkert annað en ræfildómur Alþingis og stjórnmálaflokkanna sem hér er að verki. Og ég segi alveg eins og er, að ég tek undir það með mörgum þm., sem við mig hafa talað, og ég tek undir það með almenningi, að við verðum að fara að taka okkur á, ef við eigum ekki að staðfesta það, að þessi 60 manna hópur, sem hingað hefur valist, sé óhæfur til forustu í þjóðfélaginu.