17.01.1980
Sameinað þing: 13. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í B-deild Alþingistíðinda. (453)

12. mál, mengunarvarnir í fiskimjölsverksmiðjum

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Í þessari till. til þál. um mengunarvarnir í fiskimjölsverksmiðjum er hreyft stóru máli, hvort heldur það er metið frá tæknilegum, fjárhagslegum eða heilbrigðisverndarlegum sjónarmiðum. Í sjálfu sér er ég algjörlega sammála því, að hefjast þurfi handa um ítarlega athugun þessa máls. Sú athugun hlýtur að verða fjölþætt. Í fyrsta lagi þarf að kanna hina tæknilegu og fjárhagslegu hlið mjög vandlega. Á markaðnum eru margar gerðir hreinsibúnaðar sem byggjast á töluvert mismunandi aðferðum og tæknilegum lausnum, og þróun á þessu sviði hefur verið nokkuð ör á síðari árum. Nauðsynlegt er að gera ítarlega athugun og samanburð á gerð og eiginleikum þessa búnaðar, hreinsihæfni hans við mismunandi þurrkunaraðferðir hráefnis, og orkunotkun, sem er mjög mikilvægt atriði, stofnkostnaði og rekstrarkostnaði miðað við afkastagetu, svo og tæknilegri og markaðslegri stöðu mismunandi lausna.

Ég hef fengið í hendur skýrslu um hina tæknilegu hlið þessa máls, sem gerð var á vegum Iðntæknistofnunar Íslands og er dags. 30. des. s.l. Sú skýrsla er að vísu aðallega gerð til athugunar á markaðshæfni hreinsitækja sem framleidd eru af einu innlendu fyrirtæki, Lofthreinsun hf. Kópavogi, en almenn hæfni þessara tækja er þar þó borin saman við framleiðslu tveggja danskra og eins norsks fyrirtækis.

Í niðurlagi skýrslunnar hvetur höfundur hennar til þess, að leitað verði ódýrra og traustra lausna, þar sem fjárhagsbyrðar verksmiðjanna af lykteyðingu verði sennilega afar þurrar. Rætt hefur verið um að kostnaður við fullkominn hreinsibúnað gæti numið allt að einum milljarði kr. fyrir stærstu verksmiðjurnar, en þær eru, eins og frsm. gat um, 33 talsins á landinu, auðvitað mjög mismunandi stórar. Ekki vil ég taka neina ábyrgð á þeirri áætlun eða þessari tölu, en hitt er ljóst, að hér er um gífurlegar fjárhæðir að tefla. Ég hygg að skýrsla sú, sem ég vitnaði til, sé mikilvægt innlegg í þetta mál og á henni verði unnt að byggja áframhaldandi athuganir. Hún er hins vegar engan veginn endanleg eða tæmandi, eins og höfundur hennar tekur sjálfur fram, og raunar alls ekki ætlað að vera það.

Þá tel ég mikilvægt að eðli og skaðsemi þessarar mengunar verði betur rannsökuð en gert hefur verið. Enginn dregur óþægindin í efa, en mikilvægt er að afla frekari upplýsinga um skaðsemi hennar á heilsu fólks og umhverfi þess en nú liggja fyrir. Þegar þessum athugunum er lokið tel ég tímabært að settar verði fastmótaðar reglur um þær lágmarkskröfur sem fiskimjölsverksmiðjur þurfi að fullnægja. Það er misskilningur hjá flm., að Heilbrigðiseftirlit ríkisins hafi þegar gert til rn. till. um slíkar reglur. Að undirbúningi þeirra hefur verið unnið um nokkurt skeið af hálfu Heilbrigðiseftirlitsins og liggja þar nú fyrir drög að nýrri reglugerð um þetta efni. Hef ég séð þessi drög, en ekki fengið þau í hendur sem formlega tillögu Heilbrigðiseftirlits ríkisins. Hins vega hef ég nýlega móttekið bréf, dags. 4. þ.m:, sem forstöðumenn Heilbrigðiseftirlits ríkisins og Iðntæknistofnunar Íslands rita sameiginlega. Þar segir m.a. svo, með leyfi forseta:

„Eins og kunnugt er hefur margt verið rætt og ritað um mengun frá fiskimjölsverksmiðjum. Heilbrigðiseftirlit ríkisins hefur um nokkurt skeið unnið að reglugerðarsmíð um þetta efni. Ýmsir erfiðleikar hafa komið fram við ritun reglugerðarinnar, m.a. það að gera má ráð fyrir því, að allnokkur kostnaður muni verða því samfara að draga úr loft- og vatnsmengun frá fiskimjölsverksmiðjum. Heilbrigðiseftirlit ríkisins og Iðntæknistofnun Íslands eru sammála um að um nokkuð flókið verkefni er að ræða, þannig að taka verður tillit til margra aðila. Það er því sameiginleg till. beggja stofnananna, að heilbrmrn. skipi nefnd fulltrúa fiskimjölsframleiðenda, Heilbrigðiseftirlits ríkisins, Iðntæknistofnunar Íslands, Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og framleiðenda lofthreinsibúnaðar fyrir fiskimjölsverksmiðjur til þess að semja drög að reglugerð eða staðli um loft-, land- og vatnsmengun frá fiskimjölsverksmiðjum.“

Ég hef nú tilmæli bréfritara til athugunar. Mér virðist að fyrirliggjandi reglugerðardrög geti orðið ákjósanlegur grundvöllur að starfi slíkrar nefndar. Samkv. því, sem ég hef nú sagt, tel ég enn varla tímabært og raunar ekki framkvæmanlegt að láta gera þá áætlun sem þáltill. beinist að. Á málefninu hef ég hins vegar fullan skilning og velvilja og vil gjarnan stuðla að framgangi þess eins og aðstæður frekast leyfa.