17.01.1980
Sameinað þing: 13. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í B-deild Alþingistíðinda. (454)

12. mál, mengunarvarnir í fiskimjölsverksmiðjum

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Með þessari till. til þál. er hreyft miklu vandamáli, — máli sem þarf að gefa gaum að og láta ekki langan tíma líða án þess að hafist sé handa í stærri stíl en hingað til hefur verið gert. Þetta mál snertir mengunarvarnir og umhverfisvernd, sem er víðtækara mál. Ég vil í því sambandi minna á að á árunum 1975–78 var unnið að því að undirbúa almenna löggjöf um umhverfisvernd.

Það mun hafa verið vorið 1975 að skipuð var nefnd manna til að semja frv. að slíkri löggjöf, og var formaður þeirrar nefndar Gunnar G. Schram prófessor. Sú nefnd lagði fram mikla vinnu í þessu efni og skilaði frv. ári síðar. Var þá ákveðið að málið skyldi skoðað að nýju og leitað umsagna ýmissa aðila sem málið snerti verulega. Þetta frv. með grg. var þá sent til margra aðila og komu umsagnir frá 15 þeirra, og vil ég lesa hér upp frá hvaða aðilum þessar umsagnir komu, vegna þess að það gefur nokkra mynd af víðfeðmi málsins. Umsagnir bárust frá Ferðamálaráði Íslands, Heilbrigðiseftirliti ríkisins, Náttúruverndarráði, Hafrannsóknastofnuninni, Iðnþróunarstofnun Íslands, Landvernd, Rafmagnsveitum ríkisins, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Rannsóknastofnun iðnaðarins, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Sementsverksmiðju ríkisins, Skógrækt ríkisins, Skipulagsstjórn ríkisins og Vegagerð ríkisins. Þessi upptalning sýnir hversu víðtækt þetta mál er og hversu margvísleg sjónarmið þarf að hafa og mörg tillit að taka.

Nefndin fjallaði svo um allar þessar umsagnir, athugaði frv. að nýju, og síðan lagði ég fram á Alþ. vorið 1978 sem félmrh. fyrir hönd þáv. ríkisstjórnar frv. til l. um umhverfisvernd. Það má segja, að meginefni þess hafi verið tvíþætt: annars vegar að samræma og setja ný ákvæði um umhverfis- og mengunarvarnir, og í öðru lagi um yfirstjórn þessara mála, en það hefur verið og er einn annmarki á framkvæmd þessara mála hér, undir hversu marga aðila þau falla. Niðurstaðan varð sú hjá nefndinni og ákveðið var í frv. að sérstök stjórnardeild í stjórnarráðinu skyldi fjalla um þetta mál. Það var rætt um það í nefndinni, hvort stofnað skyldi sérstakt rn. í þessu skyni. Þáv. ríkisstj. taldi ekki ástæðu til þess, heldur yrði sérstök deild innan einhvers þeirra rn., sem fyrir voru, sem fjallaði sérstaklega um þetta mál, sameinaði yfirstjórn þess og bæri ábyrgð á framkvæmd þessara mála. Í frv.sjálfu var ekki tekin bein afstaða til þess, hvaða rn. þetta skyldi vera. Það var haft þó í huga, að eðlilegast væri að það væri félmrn. sem yrði þessi sameiningaraðili.

Þetta frv. var lagt fram vorið 1978 og vannst af eðlilegum ástæðum tímans vegna ekki tóm til að fjalla um það frekar eða afgreiða það. En við 1. umr. málsins hlaut frv. ágætar undirtektir, og m.a. eru minnisstæð ummæli hv. 4. þm. Norðurl. e., Stefáns Jónssonar, sem lauk ræðu sinni á þessa lund, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég vil aðeins í lokin segja það, að fyrir þá forsjón, sem kemur fram í þessu frv., og fyrir frumkvæði hæstv. ráðh. í þessu máli er ég reiðubúinn að fyrirgefa ýmislegt.“

Ég tel mjög æskilegt, að þetta frv. verði tekið upp og flutt að nýju, og ég vænti þess, að síðan þetta frv. var lagt fram — en tvenn stjórnarskipti hafa orðið síðan — hafi um frv. verið fjallað í viðkomandi ráðuneytum og vafalaust leitað frekari umsagna ýmissa aðila sem þar eiga hlut að máli. Ég tel brýna nauðsyn að við Íslendingar fáum sem fyrst almenna löggjöf um umhverfismál, m.a. um náttúruvernd og mengunarvarnir.

Í sambandi við mengunarvarnir kemur einnig annað atriði upp og það er hlutur íslensks iðnaðar. Ljóst er að mengunarvarnir við ýmiss konar atvinnufyrirtæki, ekki síst fiski- og síldarmjölsverksmiðjur, hljóta að verða mjög kostnaðarsamar. Fyrir allmörgum árum hóf hinn kunni hugvitsmaður, Jón Þórðarson á Reykjalundi, smíði og tilraunir með tæki til mengunarvarna, sem á sínum tíma voru prófuð í Álverinu, í Kísiliðjunni og á mörgum stöðum öðrum og hafa m.a. verið sett upp í Hafnarfirði. Í sambandi við þetta mál, ekki aðeins mengunarvarnir almennt, heldur hversu hægt væri að efla hlut íslensks iðnaðar og nýta íslenskt hugvit og framtak í þessum efnum, var það 5. okt. 1977 sem iðnrn. efndi til fundar í því rn. til að ræða þessi mál. Þangað komu m.a. fulltrúar frá heilbr.- og trmrn. auk fulltrúa frá iðnrn., fulltrúar frá Áburðarverksmiðju ríkisins, Sementsverksmiðju ríkisins, Álverinu, Raunvísindastofnun háskólans og frá allmörgum síldar- og fiskimjölsverksmiðjum, svo sem í Vestmannaeyjum, Hafnarfirði, Akranesi og Keflavík. Auk þeirra, sem ég nú hef talið, voru ýmsir fleiri sérfræðingar á þessum fundi. Sá fulltrúi, sem iðnrn. og félmrn. höfðu á sínum tíma tilnefnt í þá nefnd, sem undirbjó frv. um umhverfisvernd, Edgar Guðmundsson verkfræðingur, gerði ítarlega grein fyrir þessu máli á þessum fundi, þar sem hann ræddi einkum möguleikana á hinni íslensku framleiðslu í þessu efni, þ.e. tilraunir Jóns Þórðarsonar, og hversu mætti nota þær í sambandi við mengunarvarnir.

Ég skal ekki rekja þetta frekar, en bendi aðeins á að í októbermánuði 1977 var haldinn fundur með öllum helstu aðilum sem það mál snertir sem hér er hreyft. Um þessar mundir stofnaði svo hugvitsmaðurinn Jón Þórðarson fyrirtækið Lofthreinsun hf., sem hér hefur einnig verið gert að umtalsefni.

Ég tek undir það eindregið, að hér er mikið verkefni fyrir höndum hjá okkur Íslendingum að efla mengunarvarnir í verksmiðjum. Ég legg áherslu einnig á að þess sé gætt að efla hér íslenskan iðnað, og þegar liggur fyrir að tæki, sem smíðuð hafa verið, og tilraunir, sem gerðar hafa verið, benda til þess, að hér sé um að ræða framleiðslu sem a.m.k. í mjög mörgum, jafnvel í flestum tilvikum stendur erlendri framleiðslu fyllilega á sporði. Ég vildi í sambandi við þetta athyglisverða mál, sem hv. 1. flm. gerði ítarlega grein fyrir, láta þessi atriði koma fram.