17.01.1980
Sameinað þing: 13. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (456)

12. mál, mengunarvarnir í fiskimjölsverksmiðjum

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég vil, eins og aðrir hv. þm. sem tekið hafa til máls á undan mér um þessa þáltill. um mengunarvarnir í fiskimjölsverksmiðjum, lýsa yfir fylgi mínu við málið. Að mínum dómi er óafsakanlegt hversu hefur verið látið dragast að gera ráðstafanir til að losa íbúa þéttbýlisstaðanna í grennd við fiskimjölsverksmiðjurnar við þau viðbjóðslegu óþægindi sem stafa af ólyktinni frá þessari starfsemi. Aftur á móti hlýt ég að vekja athygli á því, að þar sem ólykt er frá fiskimjölsverksmiðjunum, frá bræðslunum, þar er ólykt af sóðaskap sem haldið getur áfram þótt ólyktin sé fjarlægð. Það er mála sannast, að í ofurkappi okkar og dugnaði við nýtingu á gæðum sjávar höfum við ekki gefið okkur tóm til að ástunda hina fegurstu eða æskilegustu umgengni í meðferð hráefna. Sú saga er gömul, en því meir sem við höfum tekið úr sjónum af verðmætum okkar til framfærslu, því meir hefur úrkastið orðið, og því miður hefur sóðaskapurinn í meðferð sjávarafla aukist á liðnum áratugum.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson drap lauslega á það áðan, að mögulegt kynni að vera ekki aðeins að bæta hag fiskimjölsverksmiðjanna með því að hreinsa frárennslisvatnið í sambandi við framleiðslu soðkjarna í staðinn fyrir að láta grútinn með öllu saman fara í sjóinn, heldur gætum við einnig haft hag af því að hreinsa útblástursloftið eða nýta útblástursloftið frá verksmiðjunum, þannig að við losnuðum þá við hvort tveggja: hitaútstreymi á þann hátt sem við nú höfum og við lyktina.

Það er hv. alþm. kunnara en svo að ég þurfi að fara að rekja það ítarlega hér, með hvaða hætti við sóum þeim hráefnum sem við tökum úr sjónum í kringum landið, samtímis því sem varla kveður sér hljóðs verkfræðingur eða hagfræðingur meðal vor nú svo að hann tali ekki um ofnýtingu á þessum auðlindum okkar. Það liggur á borðinu fyrir okkur, útreiknað af glöggum mönnum, að með því einu móti að hirða lifrina, sem við nú fleygjum í sjóinn, og slógið úr fiskafla okkar og nýta til bræðslu gætum við fengið upphæð sem nema mundi um 7 milljörðum kr., og sú upphæð þykir nú þess verð að minnast á hana þegar við ræðum um fjárhag ríkisins eða stöðu útflutningsatvinnuveganna. Þá fer það heldur ekkert á milli mála, eftir því sem sérfræðingar hafa sagt okkur fyrir löngu og ítrekað fyrir skemmstu, að með því að hreinsa frárennslisvatnið frá fiskvinnslustöðum okkar, bæði frystihúsunum og saltfiskverkuninni, og koma þannig í veg fyrir sóðaskap utanhúss, sem m.a. á sök á mikilli fjölgun flugvargs hér á landi, gætum við heimt verðmæti sem stæði miklu meira en undir kostnaðinum sem af hreinsibúnaðinum stafaði.

Það er óþarfi í þessu sambandi að geta þess, sem að vísu var vikið að í framsöguræðu hv. þm. Helga Seljans, eða orðlengja hvernig ástatt er um framleiðslu okkar á fiskimjöli, hversu við í okkar ofurkappi höfum þó dregist aftur úr í framleiðslu á gæðamjöli samanborið við fiskimjölsframleiðsluna hjá frændum okkar Norðmönnum og Færeyingum. — Ég vil aðeins geta þess, vegna þess að hv. síðasti ræðumaður vék að því með hvaða hætti Færeyingar hefðu forðast ólykt frá fiskimjölsverksmiðjum sínum, að Færeyingar framleiða fiskimjöl með nútímatækni sem selst á miklu hærra verði en það fiskimjöl sem við seljum, en hafa valið fiskimjölsverksmiðjum sínum stað með tilliti til þéttbýlisins á stormasamri strönd í fjarlægð frá þéttbýli, þannig að þeir hafa ekki lagt í tiltölulega mikinn kostnað við hreinsibúnað í þeim verksmiðjum.

En svo við víkjum enn að þeim agnúa sem mér finnst þrátt fyrir allt á því að leggja mjög mikið fé af mörkum til að losna við ólyktina eina saman, en huga ekki samhliða að þeim óþrifum og þeirri sóun sem ólyktin stafar af, get ég ekki stillt mig um að geta þess, að ef við tækjum okkur til og notuðum milljón tonn af loðnu, sem við brúkum núna til framleiðslu á fiskimjöli, annars flokks að gæðum, til svínafóðurs og svo náttúrlega til framleiðslu á fyrrgreindri ólykt, — ef við notuðum þessa loðnu til fiskeldis, til laxeldis, gætum við framleitt 250 þús. tonn af laxi með því að nota loðnuna á þann hátt. Ég sagði áðan að verðmætin, sem við köstuðum með slógi og lifur á sjó, næmu 7 milljörðum og það væri talsverður peningur. Svo ég noti sams konar hógværð í orðalagi mundu 250 þús. tonn af laxi, sem við breyttum loðnunni okkar í, nema 750 milljörðum ísl. kr. Það er enn þá meiri peningur.

Þá á ég enn þá eftir að tíunda það sem við sóum á fiskiskipunum okkar með því að henda slóginu, með því að henda smáfiskinum, sem þar kemur um borð, og í allri umfjöllun okkar um sjávarafla. Nú má vel vera að menn drepi þar við fæti og hugsi sem svo, að það sé um langtímamarkmið að ræða þar sem hugað er að því að breyta þeim fiski, sem við förum þannig með, í svo dýrmæta vöru. Það er ekki rétt. Ef við tökum ákvörðun um að hefjast handa í sambandi við fiskræktina hér við land, hvort heldur við ælum fiskinn í þróm við landið, í söltum sjó eða stunduðum hafbeitina, sem kallað er, hef ég grun um að við gætum náð því marki að nýta loðnuna, smáfiskinn, vinnslufiskinn eða bræðslufiskinn fremur til þess háttar arðbærra hluta og við mundum ná því marki miklu fyrr en við munum ná því marki að útiloka algerlega ólykt frá fiskimjölsverksmiðjunum, ekki síst ef haldið verður áfram með sama semingi að vinna að því máli og gert hefur verið á liðnum árum.

Það gladdi mig að hv. þm. Gunnar Thoroddsen skyldi rifja upp þakklæti mitt fyrir frv. sem hann flutti á vordögum 1978 um umhverfisvernd, — ummæli mín á þá lund að fyrir flutninginn á frv. og undirbúning þess gæti ég fyrirgefið honum margt. Það er ekki svo að skilja að ég geti fyrirgefið honum neitt meira fyrir það núna en ég gat þá, en vil aðeins vegna þess þingmáls, sem við ræðum hér, skilgreina þetta dálítið nánar.

Eitt af því, sem ég þóttist geta fyrirgefið honum á þeirri stundu fyrir frv. um umhverfisvernd, var að þar voru lögð á ráðin um með hvaða hætti við gætum komið fram þrifnaði yfirleitt. Þrifnaðurinn var fyrst og fremst markmiðið, en ekki það fyrst og fremst, eins og í öðrum málum sem hv. þm. og þáv. iðnrh. hafði beitt sér fyrir, að fela reyk, ólykt og óhollustu sem stafaði af óþrifnaði í sambandi við framleiðslu.

Ég er sömu skoðunar og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, að gera þurfi ýmsar breytingar á frv. því um umhverfisvernd sem hv. þm. Gunnar Thoroddsen stóð þá að og hv. þm. og þáv. ráðh. tók sjálfur fram, ef mig minnir rétt, í framsöguræðu sinni að í væru ýmis atriði sem þyrftu umfjöllunar og athugunar við. Ég er enn þá þeirrar skoðunar, að þetta frv. sé vel þess virði að dustað verði af því rykið og það lagt fram, e.t.v. með einhverjum breytingum, til umfjöllunar hið allra fyrsta.

Það er rétt, að í grannlöndum okkar í Norðvestur-Evrópu hafa þau mál, sem lúta að umhverfisvernd, verið mjög á dagskrá síðasta áratuginn, misjafnlega þó eftir því hvernig ástatt var um umhverfi þeirra þjóða sem þar búa. Sumar þeirra stóðu orðið mjög illa að vígi vegna sóðaskapar í iðnaðaruppbyggingu liðinna kynslóða. Aðrar stóðu betur að vígi og þar hefur allri umræðu um umhverfisvernd og verndun lífríkis verið hagað á dálítið annan veg en þar sem mjög litlu þarf að kosta til að koma málefnum í rétt horf á skömmum tíma. Og þar, svo sem með grönnum okkar á Norðurlöndum, hafa þróast ný hugtök sem hafa veruleg áhrif á pólitíska hugsun í þessum löndum, jafnvel svo að þar er orðið rætt um „vistpólitík“ í salarkynnum löggjafanna. Þar er átt við að nauðsynlegt sé að marka stefnu stjórnvalda hverju sinni með tilliti til lífríkis og umhverfis og möguleika mannsins að halda áfram að lifa í því umhverfi og í sátt við lífríki sitt, ekki aðeins næstu 15 árin, eins og gjarnan er reiknað með þegar fjallað er um efnahagsmál verksmiðja, ekki síst orkufreks iðnaðar, hvort heldur er fiskimjölsverksmiðja eða málmblendiverksmiðja, heldur fyrst og fremst miðað að því, hvort menn geti lifað þar um ókomin ár, þó þúsundum skipti.

Ég vil lýsa stuðningi mínum við þáltill., en jafnframt vekja athygli á því, að fyrir okkur liggur miklu meira verk en fela ólykt af sóun og sóðaskap, heldur að ráðast gegn slíku, vegna þess að það er okkar hagur og ekki bara hagræði.