17.01.1980
Efri deild: 19. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í B-deild Alþingistíðinda. (461)

65. mál, greiðsla opinberra gjalda 1980

Fjmrh. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Eins og hv. þdm er kunnugt komu til framkvæmda um s.l. áramót lög nr. 40 frá 1978, um tekjuskatt og eignarskatt: Ágalli á þeirri lagasetningu vár sá, að ekki var gert ráð fyrir þegar frv. að þeim lögum var á dagskrá á sínum tíma á Alþ., að sá háttur yrði hafður á, eftir að þau lög gengju í gildi, sem verið hefur, þ, e. að lagt yrði á og innheimt ári eftir á, heldur var með frv. á sínum tíma flutt frv. um staðgreiðslu skatta sem dagaði uppi í Alþ. þegar núverandi lög nr. 40 frá 1978 voru afgreidd. Þetta varð til þess, að þegar lög nr 4011978 komu til framkvæmda nú um áramótin vantaði í löggjöfina öll ákvæði um fyrirframinnheimtu skatta og raunar öll innheimtuákvæði. Þau ákvæði voru meðal annarra ákvæða í frv. til l. um breyt. á lögum nr. 40 1978 sem ég lagði fram á hinu háa Alþingi skömmu fyrir jólin og af ýmsum ástæðum er knýjandi að hljóti afgreiðslu á næstu dögum. Formenn fjh.- og viðskn. beggja deilda þingsins, sem hafa unnið mjög vel og saman að skoðun þess máls, tjáðu mér hins vegar um s.l. helgi, að ekki væru líkur á að það frv. hlyti samþykki á Alþingi í þessari viku.

Vegna ýmissa ástæðna, sem nánar eru skýrðar í bréfi sem ég hef sent formönnum beggja nefndanna, er hins vegar nauðsynlegt að lögleiða fyrir n.k. helgi ákvæði um fyrirframinnheimtu skatta, fyrirframgreiðslu opinberra gjalda og enn fremur almenn innheimtuákvæði. Til greina kom að taka innheimtukaflann út úr frv. því, sem er til meðferðar í hv. Nd., og gera tilraun til að fá hann lögfestan. Það varð þó að ráði í samráði við formenn fjh.og viðskn. að samið yrði sérstakt frv. um greiðslu opinberra gjalda fyrri hluta ársins 1980 og flutt í því skyni, og varð það sammæli við nm. að þeir féllust á, a.m.k. formenn beggja n., að gera sitt til að hraða afgreiðslu málsins svo að hægt væri að ljúka meðferð og afgreiðslu og frv. gæti orðið að lögum fyrir lok þessarar viku.

Það var orðin svo brýn nauðsyn að kveða á um hvert fyrirframgreiðsluhlutfallið skyldi verða af þinggjöldum frá í fyrra að um miðjan dag í gær varð ég að tilkynna sveitarfélögum, sem biðu eftir upplýsingum þessa efnis, hvað líklegt væri að Alþ. mundi samþykkja. Ég hafði áður formlega óskað eftir því við fjh.- og viðskn.-menn og raunar þingflokkana, að þeir fjölluðu fyrir fram um þetta mál þannig að ég gæti fengið einhverja vitneskju um hvað líklegt væri að mundi ná fram að ganga. Áður en ég lagði frv. fram vannst hins vegar ekki tími til að fjalla endanlega um málið í þingflokkunum utan einum, þ.e. Sjálfstfl. Mér barst tilkynning frá Sjálfstfl. um að hann mundi geta stutt þá till., ef ég gerði hana, að upp í væntanleg þinggjöld hvers gjaldanda skyldi að þessu sinni greiða 65% af þinggjöldum þeim sem honum bar að greiða á árinu 1979. Af viðræðum við menn úr öðrum flokkum, þ. á m. nm. úr fjh.- og viðkn. beggja deilda, þóttist ég einnig geta treyst því nokkuð örugglega að þeir mundu a.m.k. fyrir sitt leyti vera reiðubúnir til að veita þeirri tillögu atfylgi, þó svo að formleg afstaða annarra þingflokka en Sjálfstfl. og Alþfl. lægi ekki fyrir. Því er sú till. gerð í 1. gr. frv., að á fyrri hluta ársins 1980 skuli innheimta fyrir fram til ríkissjóðs upp í væntanleg þinggjöld hvers gjaldanda 65% af þinggjöldum þeim sem honum bar að greiða á árinu 1979. Fyrirframgreiðslan fellur síðan í gjalddaga í fimm jöfnum fjárhæðum samkv. orðanna hljóðan í 1. gr. frv.: hinn 1. febr., 1. mars, 1. apríl, 1. maí og 1. júní, eins og gert mundi hafa verið ef lögin, sem féllu úr gildi um s.l. áramót, hefðu gilt áfram.

Í 2. og 3. gr. eru ákvæði að mestu leyti óbreytt frá þeim lögum sem gilt hafa um innheimtu opinberra gjalda, að öðru leyti en því, að hv. Nd. breytti einu orði í 3. gr. við afgreiðslu eftir 2. umr. í gær, en þar sagði svo, með leyfi forseta:

„...skal greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem ógreitt er, talið frá og með gjalddaga. Dráttarvextir eru þeir sömu og hjá innlánsstofnunum“. — Þarna breytti hv. Nd. einu orði, þ.e. í stað orðsins „ógreitt“ var sett orðið: gjaldfallið. Mér er tjáð að það breyti í raun og veru ekki neinu um framkvæmdina. Í þeim lögum, sem féllu úr gildi um s.l. áramót, var heimild til fjmrn. um að hægt væri að gjaldfella þinggjaldaskuld í heild ef ekki væri tiltekin fjárhæð greidd á réttum gjalddaga. Nú er slík heimild ekki lengur í lögum, að því er mér er tjáð, þannig að ekki er mögulegt að gjaldfella meira af skuldum vegna opinberra gjalda en það sem í gjalddaga er fallið. Það er ekki hægt að gjaldfella allar eftirstöðvarnar. Því breytir það í raun og veru engu hvort orðið „ógreitt“ eða „gjaldfallið“ stendur í 3. gr.

Meðan þessi mál voru til umr. í þinginu í gær og í fyrradag á milli manna kom í ljós, að sveitarfélögin þóttust fara nokkuð illa út úr því fyrirframgreiðsluhlutfalli sem verið var að ræða um að ákveða fyrir ríkissjóð. Ég verð að taka fram að þetta fyrirframgreiðsluhlutfall, 65% af þinggjöldum fyrra árs, er við það miðað að Alþ. fallist á þá till. sem gerð er í fjárlagafrv. um að lækka mjög verulega tekjuskattsbyrðina frá því sem hún áður var ráðgerð. Ef Alþ. féllist ekki á slíka tekjuskattslækkun hefði prósentan þurft að vera nærri 70–75%. Sveitarfélögin, þar sem ekki er ráðgert að lækka útsvarsheimtu með sama hætti, bentu á að þau mundu ekki ná fé sínu nægilega hratt inn til þess að þeim væri unnt að ljúka nauðsynlegum framkvæmdum samkv. framkvæmdaáætlun ef þeim væri aðeins heimilað að innheimta 65% af útsvörum fyrra árs. Samkv. þeirri heimild, sem sveitarfélögin hafa í þessu sambandi, var þeim að óbreyttum ákvæðum ekki heimilt að fara hærra en upp að þeirri fyrirframgreiðsluprósentu sem ríkissjóður hefur heimild til að láta innheimta af þinggjöldum fyrra árs. Þar sem hins vegar var augljóst að hér í þinginu var mikill skilningur á málaleitan sveitarfélaga greip ég til þess ráðs að kveða svo á í 4. gr. að sveitarstjórnum skuli heimilt á árinu 1980 að innheimta fyrir fram upp í greiðslu útsvara allt að 70% af útsvari fyrra árs eða öllu hærra hlutfall en ríkissjóður mun innheimta af þinggjöldum fyrra árs. Í síðustu mgr. 4. gr. eru svo ákvæði um að þar sem innheimta ríkis og sveitarfélaga sé sameiginleg geti fjmrh. með reglugerð ákveðið fyrirframgreiðsluna innan þeirra marka sem um getur í 1. mgr. 1. gr. og 1. mgr. þessarar greinar með hliðsjón af hlutfalli milli útsvara og þinggjalda í viðkomandi umdæmi árið 1979. Athuganir hafa leitt í ljós, að t.d. fyrir Reykjavík, þar sem innheimta gjalda til ríkis og borgar er sameiginleg og Gjaldheimtan hefur hana með höndum, mundi þetta þýða að fyrirframgreiðsluhlutfallið yrði nálægt 68%.

Þegar valin var 70% heimild til sveitarfélaganna var við það stuðst, að fjármálastjóri Reykjavíkurborgar hafði óskað eftir við mig að ég beitti mér fyrir því hlutfalli, og sama hafði gert formaður stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga í bréfi sem hann sendi mér. Hins vegar hafa komið þær ábendingar frá öðrum sveitarfélögum, t.d. Kópavogi, að bað hlutfall muni tæpast nægja þeim, og hafa þau óskað eftir að fá það hækkað úr 70 í 75%. Ég þarf ekki að orðlengja um það, en fjh.- og viðskn. Nd. fjallaði um þá málaleitan á fundi sínum í gær og niðurstaðan varð að n. gerði ekki tillögur um aðrar breytingar en þá einu orðalagsbreytingu sem fram kemur á nál. á þskj. 98.

Herra forseti. Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál að þessu sinni, en legg áherslu á að til þess að unnt verði að koma við fyrirframinnheimtu opinberra gjalda 1. febr. n.k. er nauðsynlegt að mál þetta verði afgreitt frá hv. deild í dag. Ég treysti því, að hv. fjh.- og viðskn., þdm. og þingforseti. beiti atfylgi sínu til þess að svo geti orðið.

Að svo mæltu legg ég til að að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.