17.01.1980
Efri deild: 19. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í B-deild Alþingistíðinda. (465)

65. mál, greiðsla opinberra gjalda 1980

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Eins og komið hefur fram í umr. er til meðferðar á Alþ. frv. um breytingar á skattalögum og athugun á því frv. hefur tekið lengri tíma en menn töldu æskilegt. Þótt við ýmsir höfum lýst okkur reiðubúna til að flýta afgreiðslu þess hefur staðið á fulltrúum annarra flokka í þeim efnum. Þess vegna m.a. hefur hæstv. fjmrh. og núv. ríkisstj. talið sér nauðsynlegt að flytja það frv. sem hér er til umr.

Hér hafa komið fram nokkuð andstæð sjónarmið um hvernig beri að fara með þetta frv. Annars vegar er sjónarmið hæstv. fjmrh. um að brýna nauðsyn beri til að hraða frv. mjög, jafnvel hraða því svo að það verði afgreitt frá hv. d. í dag. Hins vegar eru þau sjónarmið, sem bæði hafa komið fram frá hv. 5. þm. Reykv., fyrrv. forsrh. Ólafi Jóhannessyni, og eins einstökum þm. og fulltrúum sveitarfélaga, að brýna nauðsyn beri til að gera ýmsar breytingar á frv., þótt nokkuð sé misjafnt hvaða breytingar þeir aðilar vilja gera.

Hv. 5. þm. Reykv. flutti hér athyglisverða ræðu, þar sem hann rökstuddi að ónauðsynlegt væri að innheimtuhlutfall ríkissjóðs væri jafnhátt og gert er ráð fyrir í frv., með sérstöku tilliti til yfirlýsinga um góða fjárhagsstöðu ríkissjóðs. Hins vegar hafa ýmsir lýst mjög erfiðri fjárhagsstöðu sveitarfélaga. Ég tel að hún sé mjög erfið, sé jafnvel orðin slík að hún stefni eðlilegu lýðræðislegu og stjórnskipulegu starfi sveitarfélaga í hættu. Það getur verið mjög varhugavert í þjóðfélagi okkar, sem byggir stjórnskipun landsins og lýðræðislegt samfélag okkar mjög svo á því að sveitarstjórnirnar séu eðlilegar starfseiningar, að kreppa svo að þeim fjárhagslega sem raun er nú. Þess vegna er brýnt að innheimtuupphæðin til sveitarfélaganna vegna verðbólguþróunarinnar og þeirrar tekjurýrnunar, sem sveitarfélögin hafa orðið fyrir mörg hver og reyndar flest í heild, sérstaklega á síðustu árum, sé hækkuð.

Nú mun koma í minn hlut sem formanns fjh.- og viðskn. þessarar deildar að stýra meðferð n. á frv. Ég vil lýsa því hér, að ég vil ógjarnan verða til þess að frv. verði afgreitt í þeim búningi sem mjög alvarleg óánægja er með bæði innan þings og utan. Á hinn bóginn eru þeir erfiðleikar sem hæstv. fjmrh. hefur hér lýst. (ÓlJ: Mitt mál átti ekki að skilja þannig að ætti að tefja fyrir afgreiðslu þessa máls.) Nei, það er m.a. það sem ég er að spyrja um. Þá athugun á fjárhagsstöðu ríkissjóðs, sem væri nauðsynleg forsenda þess að menn teldu sig þurfa að breyta frv. í núverandi mynd, er varla hægt að finna nú. Ég vildi því beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh. og einnig til hv. 5. þm. Reykv., ef hann telur nauðsynlegt að skýra það aðeins, hvort gerlegt sé eða þá vilji þeirra, sem um þetta hafa fjallað hér, að málið sé ekki afgreitt frá þessari d. fyrr en t.d. á morgun. Þá er ég reiðubúinn að leggja þá vinnu í nánari athugun á þessu máli sem þarf.