17.01.1980
Efri deild: 19. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í B-deild Alþingistíðinda. (466)

65. mál, greiðsla opinberra gjalda 1980

Fjmrh. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég vona að hv. dm. forláti þó að ég geti því miður ekki eytt löngum tíma í að svara fsp. þeirra, eins og ég gjarnan vildi gera, af þeirri einföldu ástæðu að málið er komið í algeran eindaga. Sveitarfélögin og aðrir þeir, sem kröfur gera í febrúarlaun, þurftu að vita um miðjan dag í gær hvert yrði innheimtuhlutfallið sem þeim yrði heimilt að gera kröfur um, og það liggur fyrir í bréfum hjá formönnum fjh.- og viðskn. beggja d. mjög ítarlegur rökstuðningur um að þessa formlegu ákvörðun um fyrirframinnheimtu gjalda þarf að taka í dag og sveitarfélögin þurftu um prósentuna að vita í gær. Ef töf verður á málinu núna er hætt við að ekki verði unnt að innheimta fyrirframgreiðslur miðað við 1. febr., þannig að greiðsla verði ekki innt af hendi af febrúarlaunum. Þetta er ekki aðeins vandamál fyrir ríkissjóð og sveitarfélögin, sem þarna mundu missa af tekjum, heldur er þetta ekki síður tjón fyrir einstaklingana sem yrðu þess vegna að skipta greiðslum opinberra gjalda á árinu 1980 á mun færri mánuði, sem yrði að sjálfsögðu til þess að skattbyrði á laun þeirra aðra mánuði ársins mundi mjög verulega þyngjast. Þar eð málið er komið í eindaga og ég vil sem sé ekki tala lengi til að tefja ekki málið frekar vona ég að hv. dm. fyrirgefi þó að ég svari ekki spurningum þeirra eins vel og ég gjarnan mundi vilja gera og eins og þeir eiga vissulega rétt á.

Í fyrsta lagi vil ég taka það fram varðandi staðgreiðslu skatta, að eins og þm. muna var flutt um það frv. á þinginu 1978 í tengslum við frv. það sem síðar varð að lögum nr. 40 frá 1978, en Alþ. var þá ekki reiðubúið til að afgreiða það stóra og mikilvæga mál þrátt fyrir yfirlýsingar manna um nauðsyn slíkrar kerfisbreytingar. Það er vitað mál, að mikinn undirbúning þarf til að koma fram þeirri kerfisbreytingu í skattamálum að í stað eftirágreiðslu skatta verði tekin upp staðgreiðsla. Hins vegar var það mál hvorki undirbúið á árinu 1978 né 1979, heldur var þvert á móti á þessum árum unnið að undirbúningi þess að komið yrði við eftiráinnheimtu skatta eins og verið hefur. Þegar ég kom í fjmrn. lá þar á borðum fullbúið frv. um eftiráheimtu skatta. Þó svo allir þm. séu af vilja gerðir til þess að gera þá breytingu á innheimtumálum skatta, sem hv. þm. Ólafur Jóhannesson vék að áðan, hefur það mál því miður ekki hlotið þann undirbúning sem nauðsynlegur er.

Varðandi það hlutfall sem lagt er til, 65% til ríkisins, skal tekið fram, að í beiðnum sínum til fjmrn. og þm. um að fyrirframgreiðsluprósentan yrði hækkuð, tóku sveitarfélögin fram að þau áætluðu nokkru meiri tekjuhækkun milli ára en kemur fram í aths. við frv. þetta, þ.e. þau áætluðu tekjuhækkun milli ára um 45% a.m.k. í stað 43%, sem reiknað er með í aths. frv., og ég skal fúslega viðurkenna að þar er nokkuð vægilega spáð.

Hvað sem því líður að miða við að tekjuhækkunin milli ára yrði á bilinu 43–45%, eitthvað þar um bil, þyrfti fyrirframgreiðsluhlutfallið að vera 70% miðað við að ekki yrði um að ræða neina skattbyrðaraukningu frá árinu 1979 til ársins 1980. Ef menn stefndu að óbreyttri skattbyrði milli ára, eins og t.d. var gert í fjárlagafrv. því sem lagt var fyrir 101. löggjafarþingið, hefði fyrirframgreiðsluprósentan þurft að verðá 70%. Með því að ákvarða fyrirframgreiðslu 65% er hins vegar stefnt að talsvert minni skattbyrði á árinu 1980 en var á árinu 1979, og fyrirframgreiðsluhlutfallið 65% yrði í þessu sambandi miðað við að dregið yrði úr tekjuskattsheimtu samkv. fyrri áætlunum um u.þ.b. 8 milljarða kr. í álagningartölu. Ef menn ákveða lægri fyrirframgreiðsluprósentu en nemur 65% og ætla samt sem áður að sjá til þess að skattgjöld innheimtist nokkurn veginn jafnt fyrri og seinni helming ársins yrðu menn að lækka skattheimtuna enn meira. — Þetta er um prósentuna og rökin fyrir því, að hún skuli vera ákveðin í frv. þessu 65%, en hvorki 60% né 70%, eins og lagt er til að gert verði um útsvarið.

Ég hef aldrei sagt um afkomu ríkissjóðs að hún hafi verið góð um s.l. áramót, heldur að þróunin hefði undir árslokin verði jákvæðari í þeim efnum en menn hefðu átt von á að hún yrði. Hins vegar er það náttúrlega staðreynd, að því miður tókst ekki að standa við ýmis áform, svo sem að greiða Seðlabankanum 5,1 milljarð kr. á árinu. Sú endurgreiðsla, þegar gert er upp nettó, gat ekki orðið, því að tvívegis voru bráðabirgðalán tekin hjá bankanum á árinu 1979, fyrra lánið upp á 4000 millj. kr. og það síðara upp á 4500 millj. kr. Þó svo að staðan hafi farið batnandi á árinu og meira í þá átt en menn þorðu að gera sér vonir um, er síður en svo að afkoma ríkissjóðs í árslok hafi verið góð. Menn geta ekki talað um góða afkomu ríkissjóðs á meðan skuld ríkissjóðs við Seðlabanka er 30 milljarðar kr., þegar ríkissjóði er uppálagt að reyna jafnan í lok hvers árs að vera skuldtaus við þá ágætu stofnun.

Ég tek það aðeins fram, að nákvæmlega sami háttur var hafður á innheimtu fyrir áramótin 1979–1980 og var hafður á innheimtu fyrir áramótin 1978–1979 og önnur áramót þar á undan. Og það sem meira var: það voru m.a.s. notaðar sömu auglýsingarnar með hvatningu til manna um að gera skil á opinberum gjöldum og notaðar voru á árinu á undan og þær voru lesnar jafnoft og á árinu á undan, þannig að venjan um auglýsingalestur til að hvetja menn til greiðari skila fyrir áramótin hefur staðið óbreytt um margra ára bil. Hins vegar er það álit manna, án þess að miklar athuganir liggi þar á bak við, að ein ástæðan fyrir því, að skil urðu nokkru örari á skattheimtu til ríkisins á s.l. ári en oft hefur áður orðið, sé sú vaxtabreyting sem gerð var af fyrrv. hæstv. ríkisstj., hún hafi stuðlað að betri skilum á opinberum gjöldum á árinu 1979 en gerðist á árunum á undan.

Í sambandi við að ræða saman fyrirframgreiðsluhlutfall til ríkisins, eins og hér er lagt til, 65%, og önnur gjöld, sem falla í gjalddaga fyrstu mánuði ársins, vil ég í fyrsta lagi taka fram að fasteignagjöldin greiðast að sjálfsögðu sveitarfélögum. Mér er ekki heldur kunnugt um að neinn gjalddagi fasteignagjalda sé í febrúar.

Ég vil sem sé biðja þm. velvirðingar á því að ég get ekki svarað öllu frekar spurningum sem komu fram hér, eins og þó væri vert, né heldur tekið tíma til að ræða ríkisfjármálin almennt. En varðandi ábendinguna um 3. gr., að þar sé aðeins rætt um gjöld samkv. lögum þessum o.s.frv. og orkað geti tvímælis a.m.k. hvort þarna sé ríkissjóður að taka dráttarvexti af gjöldum til sveitarfélaga, held ég og vil biðja menn að athuga hvort ekki séu slík refsiákvæði í lögum um tekjustofna sveitarfélaga hvað sveitarfélögin varðar. Án þess að ég hafi lagt stund á lögvísindi og þótt ég sé lítið heima í þeim málum sýnist mér liggja alveg ljóst fyrir, að hið eina, sem það frv. sem hér liggur fyrir varðar sveitarfélögin, sé að þar sé sveitarfélögunum gefin heimild til að taka fyrirframgreiðslu sem sé meiri en 60% af álögðum gjöldum sveitarfélaga fyrra árs, en það prósent er bundið fast í lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Hins vegar hefur sveitarfélögunum verið veitt heimild til að fara fram úr 60% fyrirframgreiðsluhlutfallinu. Það þarf að sinna þeim erindum sveitarfélaganna að heimila þeim í þessu sambandi að fara fram úr fyrirframgreiðsluhlutfalli ríkissjóðs. Af þeirri ástæðu eru sérstök ákvæði um fyrirframgreiðsluprósentu sveitarfélaganna í 4. gr., ella væri ekki á sveitarfélögin minnst í þessu frv., ef ekki hefði komið til þörf þeirra að fara fram úr fyrirframgreiðsluprósentu ríkisins. Og mér er nær að halda að öll ákvæði, m.a. um dráttarvexti í þessu sambandi, séu í lögum um tekjustofna sveitarfélaga, því að þetta frv. fjallar raunar aðeins um fyrirframgreiðsluprósentin til ríkisins, um innheimtufyrirkomulag og viðurlög, og um að sveitarfélögum sé heimilt að fara fram úr fyrirframgreiðsluhlutfalli ríkissjóðs í þessu tilviki.