21.01.1980
Efri deild: 22. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í B-deild Alþingistíðinda. (477)

52. mál, almenn hegningarlög

Dómsmrh. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Frv. þetta um breytingu á hegningarlögum felur í sér þá breytingu eina að hækka sektahámark. Skv. breytingu, er gerð var á hegningarlögunum 1976, var sektahámark ákveðið 5 millj. kr. Nauðsynlegt þykir að sektafjárhæðir almennt fylgi verðlagsþróun og að sektahámark standi eigi í vegi fyrir því, að sektir verði ákveðnar í samræmi við eðli brots. Það er í sjálfu sér matsatriði, hvert lögboðið sektahámark skuli vera. Þótti rétt að hækka hámarkið nú í 30 millj. kr. Er það reyndar eitthvað meiri hækkun en nemur verðlagsbreytingum frá 1976, en höfð hliðsjón af því, að fjárhæðin mun standa um eitthvert árabil. Rétt er að benda á að sektahámark hegningarlaga gildir eigi aðeins um sektaákvarðanir skv. þeim lögum, heldur einnig við sektaákvörðun samkv. ýmsum sérlögum, þar sem sektahámark er ekki ákveðið, t.d. áfengislögum. Er reyndar nauðsynlegt að endurskoða ýmis slík sérákvæði, þar sem sektahámarkið er ákveðið nokkur þús. kr. og hefur staðið óbreytt um árabil. Er þá eðlilegra að geta vísað til hins almenna ákvæðis í hegningarlögunum.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta frv. og legg til að að þessari umr. lokinni verði því vísað til 2. umr. og hv. allshn.