17.12.1979
Neðri deild: 3. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

9. mál, olíugjald til fiskiskipa

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða efnislega þessi brbl. eða þetta frv. sem hér liggur fyrir. Ég er sammála hæstv. sjútvrh. um að brýna nauðsyn bar til að setja þessi lög, og sömuleiðis er ég honum sammála um að efla tilraunir til að auka sókn í þær fisktegundir sem taldar voru vannýttar, til þess þá um leið að draga úr sókn í aðrar fisktegundir sem eru annaðhvort fullveiddar eða ofveiddar. Ég er líka honum sammála um uppbætur þær sem voru teknar upp á verði karfa og ufsa. Hins vegar er ég nokkuð undrandi yfir einu atriði, að það var hvatt til þess að auka sókn í grálúðu, en á verð hennar er engin uppbót greidd á öllu þessu tímabili. Og þó við færum yfir yfirleitt allar þessar helstu fisktegundir, þá er minnsta hækkun, sem hefur orðið nú síðustu þrjú ár, á verði á grálúðu. Ég vil spyrja hæstv. sjútvrh. hvernig á því standi, að þessi eina fisktegund verður útundan af þeim fisktegundum sem sjómenn og útgerðarmenn voru eðlilega hvattir til að auka veiðar á. Mig minnir að á s.l. ári hafi veiði á þessum fiski verið um 10 þús. tonn og aukning á þessu ári 5 þús. tonn. Ég hef þetta ekki hjá mér, en ég mun þá leiðrétta það síðar ef ég fer hér með rangar tölur. En fyrirspurn mín til hæstv. ráðherra er þessi: Hvernig stendur á því, að engar uppbætur voru til þess að bæta verðið á grálúðunni og koma þannig til móts við þá aðila sem lögðu sig fram að auka sóknina í veiðar á þeim fiski?