21.01.1980
Efri deild: 22. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í B-deild Alþingistíðinda. (490)

22. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég á ekki sæti í þeirri n., sem fjalla mun um þetta mál, ekki fremur nú en er síðast var um það fjallað. Ég vil því ekki sleppa tækifærinu nú þegar við 1. umr. til þess að gagnrýna þetta frv. mjög harðlega og það, hvernig unnið var að samningu þess, og vík þeirri útásetningu minni síður en svo til þess ráðh. sem sat á stóli í menntmrn. þegar frv. var samið.

Hér hefur verið tekið saman talsvert rit, frv. til l. um fuglaveiðar og fuglafriðun. Það kemur í ljós þegar við fyrsta yfirlestur, sem raunar kemur fram í aths., að hér er fyrst og fremst unnið að því að verja hagsmuni eins hóps sem neytendahóps á landi hér, þar sem eru æðarræktarmenn. Nú er ég síður en svo á móti þeim eða þeirra starfsemi, er lengi raunar hefur látið gott af sér leiða. Sjálfur er ég alinn upp í æðarvarpi, ef svo má segja, og þykir vænt um þennan fugl, æðarfuglinn, og vil að hann verði verndaður áfram, enda er þetta fugl sem gefur okkur björg í bú. En það koma fleiri sjónarmið til álita, þegar semja skal lög um fuglaveiðar og fuglafriðun, en hagsmunamál æðarræktarbænda.

Svo vandlega hefur verið hugað að hagsmunum æðarræktarbænda við samningu þessa frv., og skjólstæðings þeirra, æðarfuglsins, að hér kemur víða fram, að því er mér virðist, allmikill og að sumu leyti, að því er mér finnst, óverðskuldaður fjandskapur í garð annarra fugla á landi hér. Ég get nefnt sem dæmi að hér er hvatt til skefjalausra ofsókna gegn ýmsum fuglategundum sem geta verið æðarfuglinum sérstaklega harðar í umgengni í viðleitni sinni til þess að sjá eigin stofnum farborða. Og hér er sneitt í þessu frv. að hagsmunum annarra þegna en þeirra, sem arð hafa af æðarvarpi, af ekki nógu mikilli fyrirhyggju, virðist mér, sums staðar a.m.k.

Mér þykir það ljóst af ýmsum atriðum frv., að ekki hefur verið hugað nærri því nógu mikið að því að færa ýmsa hugsun fyrirhugaðrar lagasetningar í átt til nútímaviðhorfa. Ég gæti nefnt mörg dæmi, en á bls. 6, í 26. gr., blasir við mér aðeins eitt dæmi af mörgum um þennan ágalla frv. Í 26. gr. segir:

„Skipum og bátum skal óheimilt að þeyta eimflautur að óþörfu í grennd við fuglabjörg.“

Nú má svo vera, að eimflauta finnist um borð í íslensku skipi eða báti núna, mér er ekki kunnugt um það. Óljósan grun hef ég um það, að eina eimflautan, sem til sé á Íslandi nú, sé á Síldarverksmiðjunni SR 46 á Siglufirði.

Svona ákvæði skaðar náttúrlega ekki neinn, en þetta er bara dæmigert um það, með hvaða hætti hefur verið unnið að samningu þessa frv. og hvað það fer óralangt frá því að sinnt hafi verið sem skyldi við samningu þessa frv. ýmsum atriðum sem varða sannarlega líf í landinu á síðari hluta 20. aldar.

Hér kemur fram í þeim greinum, sem fjalla um friðun einstakra fuglategunda, þess háttar þekking á lífi og viðgangi fuglastofnanna á landinu sem gerir það að verkum, að ég leyfi mér stórlega að efast um að svo hafi verið sem gefið er þó í skyn og raunar sagt í frv., að einn af þekktustu fuglafræðingum landsins hafi átt drjúgan þátt í samningu þess, þar sem því er haldið fram að endur, sem eru — svo sem ég ætla að þm. sé ljóst — vaðfuglar, hafist við á svipuðum slóðum og rjúpan að vetrinum og þess vegna sé æskilegt að þær andartegundir, sem leyft er að skjóta á ákveðnum tíma, séu friðaðar á sama tíma, til þess að rjúpa verði ekki skotin í blóra við endurnar, af því að hún hafist við á svipuðum slóðum.

Fleiri atriði þessu lík koma fyrir í frv. sem gera það dálítið vafasamt í augum þeirra sem áhuga hafa á því að kynna sér líf íslenskra fugla, ég tala nú ekki um þeirra sem hafa svolítinn áhuga á því að veiða þá lögum samkv. á þeim tíma sem slíkt er leyfilegt.

Svo ég víki aðeins að þeim atriðum sem lúta ættu beinlínis að því að gera þetta að frv. um fuglaveiðar, þá er sneitt hjá því í frv. að skera úr um ágreiningsatriði varðandi veiðirétt á fuglum. Hér eru látin liggja enn þá óhreyfð atriði sem hafa valdið mjög hörðum deilum á hverju einasta hausti, t.d. varðandi rétt til rjúpnaveiði á landi hér, svo að óþolandi má orðið kallast. Nægir að benda á, þó að þessi skortur komi fram á fleiri stöðum, 5. gr., 2. málsgr., þar sem stendur:

„Öllum íslenskum ríkisborgurum eru fuglaveiðar heimilar í afréttum og almenningum utan landareigna lögbýla, enda geti enginn sannað eignarrétt sinn til þeirra.“

Á hverju einasta hausti s.l. 15 ár hafa þegnar landsins staðið með steyttan hnefann hver framan í öðrum á heiðum og í háfjallahlíðum, annar ef ekki báðir með byssu um öxl, og þvargað um það, hvort annar hvor aðili eða jafnvel báðir geti sannað eignarrétt sinn til þess lands sem þeir þá á standa á rjúpnaskyttiríi.

Það er einnig ljóst, að í frv. þessu verður að kveða miklu ljósar á en hér er gert um rétt landsmanna til þess að stunda fuglaveiðar. Eins og sakir standa nú fylgir byssuleyfinu réttur til þess að stunda veiðar á þeim dýrategundum sem ekki eru friðaðar lögum samkv., án þess að sá réttur sé skilgreindur ítarlega að öðru leyti. Og skyldurnar, sem þessum rétti fylgja, eru ákaflega óljósar, einkanlega ef borið er saman við löggjöf á Norðurlöndum, í Þýskalandi, Bretlandi og öðrum þeim löndum Evrópu þar sem þessum málum, er lúta að heimildinni til þess að veiða dýr með byssu, hefur verið komið í sæmilega siðgott form.

Ef umhyggjunni fyrir æðarfuglinum, þeim ágæta fugli æðarfuglinum, er sleppt, þeirri sem fram kemur í þessu frv., þá þykir mér sem mjög mikið skorti á að kveðið sé á um það nægilega ljósum orðum og af nægilegri þekkingu, hvernig þeir menn, sem stunda skotveiði á landi hér, eiga að koma fram gagnvart þessum blessuðum veiðidýrum, sem þeim er þó heimilað að veiða á tilteknum tíma. Og ég held að við ættum annað tveggja að vísa þessu frv. til gagngerrar endursmíðar með hliðsjón af siðbestu löggjöf, sem við þekkjum frá grannlöndum okkar, ellegar þá að stuðla að því, að skipuð verði ný nefnd til þess að semja alveg nýtt frv. um fuglaveiðar og fuglafriðinn.