21.01.1980
Neðri deild: 21. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

39. mál, óverðtryggður útflutningur búvara

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Mig langar að gera grein fyrir afstöðu minni í þessu máli, sem þó kom fram að nokkru leyti við umr. sem hér fóru fram fyrir nokkrum dögum um frv. um óverðtryggða framleiðslu landbúnaðarvara. Það frv. er nánast alveg samhljóða því frv. sem nú er til umr. Munurinn á frv. tveimur er sá einn, að í öðru er gert ráð fyrir að Byggðasjóður útvegi eða greiði 3 milljarða kr. framlag, í hinu að það verði ríkissjóður. Ég sé ekki verulega mikinn mun á þessu tvennu, enda hefur hér hafist mjög forkostulegt kapphlaup Sjálfstfl. annars vegar og Framsfl. með Alþb. sér við hlið hins vegar um eignarréttinn á þessum málflutningi eða því frv. sem hér er til umr.

Það hefur margt verið rætt og mörgum skeytum beint að Alþfl. í umr. um landbúnaðarmál. Þeir menn, sem það hafa gert, hafa yfirleitt átt sökina á því hvernig komið er í íslenskum landbúnaði. Landbúnaðarstefna sú, sem rekin hefur verið á Íslandi síðustu tvo áratugi, er landbúnaðarstefna Sjálfstfl. og Framsfl. Sú stefna hefur leitt til þess framleiðsluvanda sem nú er við að stríða í íslenskum landbúnaði. Yfir þetta er verið að reyna að klóra þegar farið er fram á stöðugar bætur.

Ég vil að það komi strax fram við upphaf máls míns, að mér er fullljós vandi bænda og ég geri mér fulla grein fyrir að þeim verður að koma til aðstoðar. En samt sem áður vil ég ítreka það og leggja á það þunga áherslu, að menn reyni nú að spyrna við fótum og renna ekki áfram sömu slóð og gert hefur verið undanfarin ár í landbúnaðarmálum og að landbúnaðarstefnunni í heild verði breytt.

Hér kom fram hjá einum hv. þm. áðan að breytingar hefðu verið gerðar á framleiðsluráðslögunum á s.l. vori, sbr. lög nr. 15/1979, en þessar breytingar voru m.a. fólgnar í því annars vegar að heimila kvótakerfi í landbúnaðaframleiðslunni, en hins vegar að heimila innheimtu skattgjalds á kjarnfóður. En það, sem einfaldlega hefur gerst, er að hvorug heimildin hefur verið notuð.

Það er til býsna lítils að setja lög sem eiga að hamla gegn óráðsíu í máli af þessu tagi ef lagaheimildirnar eru ekki notaðar. Á þetta vildi ég aðeins benda sem dæmi um að menn hafa hugsað vel, en það hefur minna verið gert.

Ég vil eingöngu í sambandi við þær umr., sem hér hafa farið fram um hlutverk Bjargráðasjóðs, spyrja þeirrar spurningar, hvar eigi að taka féð sem sjóðurinn á að úthluta. Það hefur engin skýring komið fram á því hvar það fé á að taka, og séu ekki til neinir tekjuliðir þar sem hægt er að ná í þetta fjármagn gefur auga leið að þarna er um lánsfjármagn að ræða eða það er hugsað sem slíkt, annaðhvort erlent lán eða innlent lán, sem bætist ofan á þá útflutningsuppbótaþörf sem hér er verið að ræða. Það þarf ekki að benda á þann mikla verðbólguhvata, sem sífelldar lántökur eru, og þarf ekki að benda á afleiðingarnar sem munu fylgja í kjölfarið.

Ég vil benda á að útflutningsuppbótaþörfin á þessu ári umfram hin lögbundnu 10% verður um 6 milljarða kr. Þetta er dæmi sem enn er ekki farið að hugsa fyrir. Hvar á að taka þetta fjármagn? Það bætist ofan á þá 3 milljarða sem við erum að tala um núna.

Ég verð að segja þá skoðun mína klárt og kvitt hér og nú, að menn hafa því miður tekið allt of lítið mark á þeim viðvörunarorðum sem hér komu fram fyrir 15–20 árum um að stefnan í landbúnaði væri röng. Það er nú fyrst að menn, sem hafa varið þessa stefnu fram í rauðan dauðann, viðurkenna að hún hefur verið röng. Það er rangt að framleiða svo skiptir hundruðum og þúsundum lesta fram yfir það sem við neytum sjálf. Það verður ekki leyst með því einfalda ráði, sem heyrðist hér á dögunum, að hækka launin hjá fólkinu í landinu svo að það geti borðað meira af landbúnaðarafurðum. Svo einfalt er það ekki.

Ég tel brýna nauðsyn bera til að breyta lögunum um Framleiðsluráð landbúnaðarins. Hlutverk þess þarf að breytast og neytendur þurfa að fá meiri þátttökurétt í ákvörðunum um búvöruverð og fleira af því tagi. Það er sjálfsagt að bændur ráði sjálfir framleiðsluverði á kindakjöti, ull, gærum og öðrum sauðfjárafurðum, og sama gildir vitanlega um kjöt af nautgripum, og að formi til verði það Framleiðsluráð sem taki þá verðlagsákvörðun, en þar skipa fulltrúar bænda meiri hluta. Hins vegar er það alveg ljós nauðsyn að útflutningsuppbætur á sauðfjárafurðir verða að falla niður í áföngum. Mætti hugsa sér t.d. að það gerðist á fjögurra ára tímabili frá og með 1. jan. þessa árs. Síðan tel ég að brýna nauðsyn beri til að niðurgreiðslur á kindakjöti og kjöti af nautgripum minnki smátt og smátt á næstu 2–3 árum, en falli þá alveg niður, nema upp verði teknar almennar niðurgreiðslur á kjötvörum. Ég tel að það sé brýn nauðsyn á að skapa heilbrigða samkeppni milli framleiðslugreina einstakra kjötvörutegunda, svo sem kindakjöts, nautakjöts, hrossakjöts, svínakjöts og alifuglakjöts, sem yrði bæði landbúnaði og neytendum til góðs.

Það er hægt að halda áfram umr. á þessu stigi og um hvað nauðsynlegt sé að gera í íslenskum landbúnaði. Það gildir ekki að „bjarga í horn“ þegar allt er komið í „svíl“, eins og nú er verið að gera. Það er nákvæmlega það sem verið er að gera nú. Það hefur oftar en ekki verið talað um vanda landbúnaðarins, en sjaldnar hefur verið rætt um hvað gera skuli í raun og veru til áð leysa úr þeim vanda, því að menn hafa verið furðulega íhaldssamir og afturhaldssamir í landbúnaðarmálum á Íslandi. Þetta þarf ekki nokkur maður að láta segja sér að sé ekki rétt.

Ég vildi ekki láta hjá líða að koma hér upp og benda á þessi atriði.

Eitt óttast ég, auk þess sem ég hef nú rætt, að þær breytingar, sem gerðar voru s.l. vor á framleiðsluráðslögunum, þ.e. um kvótakerfið og skattgjald á kjarnfóður, og þær heimildir, sem enn hafa ekki verið notaðar, eigi eftir að reynast landbúnaðinum miklu erfiðari en nokkurn grunar. Ég er hræddur um að kvótakerfið, sem er mjög flókið og erfitt í framkvæmd, geti kannske í besta falli komið í veg fyrir að núverandi ófremdarástand versni, en það bætir raunverulega ekki ástandið. Ég óttast líka að það muni draga úr framleiðni í landbúnaði. Þó svo að við séum að berjast við offramleiðslu er enginn fengur í að draga úr framleiðninni sem slíkri.

Ég held einnig, ef grannt er skoðað, að fóðurbætisskatturinn sé líklegur til að valda verðhækkun á þeim framleiðsluvörum landbúnaðarins sem hafa aðlagast innlendum markaðsaðstæðum og njóta ekki útflutningsuppbóta, svo sem ef talað er um egg, alifuglakjöt og svínakjöt. Að þessu leytinu er fóðurbætisskatturinn ranglátur og væri þess vegna ekki ónauðsynlegt að fella hann úr gildi eða heimildina til að leggja hann á.

Ég held ég láti kyrr liggja þau orð, sem voru látin falla í garð Alþfl. og mín við umr. hér í síðustu viku um mál sem er nánast algerlega af sama toga spunnið og það sem hér um ræðir, og mun láta staðar numið.