22.01.1980
Sameinað þing: 14. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í B-deild Alþingistíðinda. (506)

214. mál, eftirlitsskylda Tryggingarstofnunar ríkisins á gjaldtöku tannlækna

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Það er rétt, sem fram kom í grg. hv. 1. þm. Vesturl., að tannviðgerðir skólabarna eru orðnar gífurlegur kostnaðarliður sveitarfélaga. Meðan ég starfaði sem gjaldkeri Mosfellshrepps hafði ég tækifæri til að fylgjast nokkuð með reikningum frá tannlæknum, og ég held að meginatriði þessa máls sé það, að framkvæmdar séu í ríkum mæli dýrar viðgerðir, svo sem gullfyllingar og/eða gullkrónur svonefndar, sem er hár kostnaðarliður í þessum viðgerðum. Það, sem ég held að sé aðalatriðið í þessu, er að það þurfi að endurskoða hvort raunhæft sé að opinberir aðilar eigi að greiða þessar dýru viðgerðir án nokkurs eftirlits eða aðhalds þar um. Það er í ýmsum tilvikum e.t.v. nauðsynlegt, en það er ekki víst, að það sé alltaf brýn þörf á því að framkvæma þessar dýru viðgerðir á svo ungum börnum sem raun ber vitni. Það er mikils virði að huga vel að þessum lið heilbrigðisþjónustunnar og ætti að leggja ríka áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir og jafnframt að greiðslu á kostnaði við þessar tannviðgerðir verði þannig háttað, að hagsýni sé gætt fyrir báða aðila.

Mér dettur í hug í sambandi við þetta eftirlit, sem hv. flm. talaði um að við reyndum einu sinni að láta Tryggingastofnunina skoða reikning sem okkur þótti vera úr hófi hár, og það kom að sjálfsögðu ekkert út úr því. Það var staðfest, að þessi ákveðna viðgerð hefði verið framkvæmd á barninu. Hitt var svo annað mál, hvort það var bráðnauðsynlegt að framkvæma svo dýra viðgerð sem þarna var um að ræða, sem kostaði mörg hundruð þús. kr. Ég held að þetta sé aðalatriðið, að hugað sé vel að þessum lið, að það sé e.t.v. hægt að veita þarna eitthvert aðhald í því, hvort slíkar viðgerðir séu alltaf nauðsynlegar.