22.01.1980
Sameinað þing: 14. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í B-deild Alþingistíðinda. (507)

216. mál, Hafísnefnd

Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Á þskj. 44 hef ég ásamt hv. þm. Stefáni Jónssyni borið fram fsp. um það til hæstv. félmrh., hvers vegna hafísnefnd var leyst frá störfum. Fsp. hljóðar þannig:

„1. Hvaða ástæður lágu til þess, að ríkisstj. tók þá ákvörðun að leysa hafísnefnd frá störfum áður en hún var búin að skila af sér því verkefni sem henni var falið að inna af hendi?

2. Hefur ríkisstj. falið öðrum að ljúka þeim störfum sem hafísnefnd hafði ekki leyst af hendi?“

Hafísnefnd var skipuð af hæstv. félmrh. 6. apríl s.l. Í skipunarbréfinu segir með leyfi forseta:

Ríkisstj. hefur ákveðið að skipa nefnd með fulltrúum þingflokka til þess að gera úttekt á þeim vanda, sem skapast hefur á hafíssvæðum, og tillögur til úrbóta.“

Tildrög þessarar nefndarskipunar voru þau, að sveitarstjórnarmenn og kaupfélagsstjórar á hafíssvæðinu höfðu samband við þm. og óskuðu eftir því, að hafísnefnd yrði sett á fót eins og gert var á hafísárunum 1965 og 1968. Ég hafði t.d. samband við Ólaf Jóhannesson, sem þá var forsrh., um að þessi nefnd yrði tilnefnd, og ég hygg að aðrir þm. af Norðurlandi muni hafa haft samband við aðra ráðherra.

Áður en nefndin hóf störf ræddi hún við hæstv. félmrh. um starfssvið nefndarinnar, og tel ég að ráðh. hafi verið samþykkur þeim tillögum sem nm. settu þá fram um starfssvið og starfstilhögun. Við fleiri ráðh. ræddu nm. um þessi málefni, ýmist einn nm. eða fleiri saman, og kom ekki fram að neinn ágreiningur væri um það, hvað hafísnefnd ætti að taka sér fyrir hendur eða hvert hennar verksvið væri.

Nefndin skilaði bráðabirgðaskýrslu til ríkisstj. 6. júní s.l. Í tveimur köflum hennar kemur fram hvað nm. höfðu í huga og lögðu til er þeir ræddu þessi mál við hæstv. ráðh. Kaflarnir eru á þessa leið, með leyfi forseta:

„Tillögur til úrbóta: Nefndin hefur ákveðið að skipta tillögugerð sinni í tvennt:

Í fyrsta lagi varðandi aðgerðir þegar í stað til þess að bæta beint og óbeint tjón eftir megni.

Í öðru lagi um ráðstafanir til lengri tíma sem gætu dregið úr erfiðleikum og tjóni vegna hafískomu í framtíðinni. Þar er einkum um að ræða samgöngu- og birgðamál, einnig aðild grásleppusjómanna að sjóðakerfinu.“

Síðar segir í lokakafla þessarar skýrslu:

„Í þessari skýrslu er tjón hvergi nærri tilgreint nákvæmlega í tölum. Þó er ljóst að um umtalsverðar upphæðir verður að ræða. Þegar heildarniðurstaða liggur fyrir, þá getur það skipt verulegum upphæðum til eða frá, hvernig t.d. grásleppubátunum nýtist framlenging á veiðitíma og svo hvernig ríkisstj. bregst við tillögum nefndarinnar um að veita þrem togurum undanþágu frá veiðibanni í sumar, enn fremur netabátum frá þeim byggðarlögum sem byggja atvinnulíf sitt á sjávarafla og urðu fyrír verulegum töfum í vetur við fiskveiðar vegna hafíss.

Nefndin stefnir að því að afla upplýsinga um birgðastöðu á hafíssvæðinu, þ.e.a.s. eins og hún var þegar ís var landfastur. Af þeim upplýsingum verður hægt að draga ýmsar ályktanir varðandi skipulag birgðamála á svæðinu og tengja niðurstöðu síðustu hafísnefndar. Í haust hyggst nefndin skila tillögum um ýmis framtíðarverkefni, svo að verjast megi betur en nú áföllum vegna hafískomu.“

Eftir að farmannaverkfallið skall á og bera fór á vöruskorti, t.d. á fóðurvörum, olíu og áburði, óskaði ríkisstj. eftir því, að hafísnefnd ynni að því að fá undanþágur til þess að flytja þessar vörur á harðindasvæðið. Eftir að verkfallinu lauk hefur enginn fundur verið boðaður í hafísnefnd, að ég veit til, þrátt fyrir að sumir nm. höfðu óskað eftir því. Ég var að vísu spurður að því í eitt skipti í sumar, þegar ég var fyrir norðan, hvort ég yrði tiltekna daga hér í Reykjavík, en það kalla ég ekki fundarboð.

Allt fram á þennan dag hafa borist bréf þar sem kvartað er undan því, að ekki hafi enn fengist eðlileg afgreiðsla ýmissa mála, og óskað eftir skýringum á því. Ég tel að allar slíkar aðfinnslur og kvartanir, sem berast um þau málefni sem hafísnefnd átti að fjalla um, hafi átt að taka til afgreiðslu á fundum nefndarinnar. Eins og fram kom af því, sem ég las hér upp úr bráðabirgðaskýrslu hafísnefndar til ríkisstj., var þar gert ráð fyrir að nefndin aflaði sér upplýsinga um birgðastöðu verslunarfyrirtækja á hafíssvæðinu, þegar ís var landfastur á síðasta vori. M.a. taldi nefndin að af þeim upplýsingum væri hægt að draga ýmsa lærdóma. Enn fremur skyldi athuga geymslurými fyrir olíu og bensín á hafíssvæðinu og möguleika verslana til að birgja sig upp af fóðurvörum og athuga, hvaða breytingar hafa orðið síðan hafísnefnd 1978 lauk störfum, og gera síðan tillögur til úrbóta að loknum þessum athugunum. En mér er ekki um það kunnugt, að nokkuð af þessu hafi verið gert.

Ég gerði mér vonir um að formaður hafísnefndar færi að hressast að kosningum loknum, en þá barst okkur nm. eftirfarandi bréf, með leyfi forseta:

Ríkisstj. hefur ákveðið að leysa frá störfum nefnd þá, sem þann 6. apríl s.l. var skipuð til þess að gera úttekt á þeim vanda, sem skapast hefur á hafíssvæðinu, og tillögur til úrbóta. Um leið og þetta tilkynnist yður, er yður sagt upp störfum í nefndinni.“

Þetta er skrifað 10. des. Þar sem stöðugt er verið að spyrja okkur fyrirspyrjendur um störf þessarar nefndar og við höfum orðið fyrir ámæli út af starfsleysi hennar allt frá síðustu vordögum og af því að hér er um að ræða öryggismál, sem þörf er að gefa fullan gaum, er þessi fsp. hér fram borin.