22.01.1980
Sameinað þing: 14. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í B-deild Alþingistíðinda. (508)

216. mál, Hafísnefnd

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Spurt er hvers vegna hafísnefnd var leyst frá störfum með bréfi frá 10. des. s.l. og hvort verkefni hennar hafi verið falin öðrum. Hinn 6. júní s.l. sendi hafísnefnd fyrrv. ríkisstj. ítarlega bráðabirgðaskýrslu. Var þar gerð grein fyrir störfum nefndarinnar og athugunum og margþættar tillögur gerðar til ríkisstj. um aðgerðir til úrbóta á þeim mikla vanda sem skapaðist á hafíssvæðunum s.l. vor. Í meginatriðum vörðuðu tillögurnar aðgerðir í samgöngumálum, undanþágur frá veiðibanni og fjárhagsaðstoð ýmist í formi styrkja eða lána — vegna netatjóns, aflatjóns, sérstaks flutningskostnaðar og tímabundinna greiðsluerfiðleika fiskvinnslustöðva og bátaeigenda. Ég held að hv. fyrirspyrjandi hljóti að vera mér sammála um það, að ríkisstj. tók þeim tillögum mjög vel og varð við þeim í öllum meginatriðum, þó að framkvæmdir hafi á sumum sviðum dregist of mikið hjá hinum einstöku sjóðum sem um málin áttu að sjá.

Síðustu aðgerðirnar voru samþykktar í fyrrv. ríkisstj. Á fundi hennar hinn 24. júlí s.l. er bókað í fundargerð þess fundar, að forsrh. hafi lýst því yfir að með þeim teldi hann störfum nefndarinnar lokið. Þetta var 24. júlí, og þar sem fyrrv. forsrh. hafði lýst því yfir, að með þessum aðgerðum teldi hann störfum nefndarinnar lokið, skýrði ég frá því, að ég mundi leysa nefndina frá störfum.

Hins vegar kom í ljós að Bjargráðasjóði og Aflatryggingasjóði, sem hafði verið falin úrlausn ákveðinnar samþykktar ríkisstj., væri nauðsynlegt að fá ýmsar upplýsingar og gögn frá nefndinni og njóta aðstoðar hennar. Fól ég því nefndinni að vera þessum aðilum innan handar og leysti hana ekki frá störfum fyrr en þessum verkefnum lauk í des. s.l. Var þá lokið öllum þeim verkefnum, sem nefndinni hafði verið falið að annast, og hún hafði leyst þau af hendi með sóma að mínum dómi. Leyfi ég mér að vitna í því sambandi til erindisbréfa nefndarinnar. Hið fyrra var dags. 6. apríl og það las hv. fyrirspyrjandi upp, en þar er sagt, að nefndin skuli gera úttekt á þeim vanda, sem skapast hefði á hafíssvæðunum, og tillögur til úrbóta. Með bréfi dags. 30. maí var verkefnum nefndarinnar lýst ítarlegar. Þar sagði svo, með leyfi forseta:

„1. Stuðla eftir föngum að lausn flutningsvandamála á hafíssvæðunum, þótt rætur þeirra megi rekja til annarra aðstæðna en hafíss, svo sem ófærðar og verkfalla.

2. Safna upplýsingum um tjón á veiðarfærum og aðrar fjárhagslegar afleiðingar hafíssins sem til álita kemur að bæta.

3. Gera tillögur um bótagreiðslur til þeirra sem orðið hafa fyrir beinu fjárhagstjóni, þar með talið hvaða tegund tjóns skuli bæta og að hve miklu leyti.“

Öllum þessum verkefnum hafði nefndin lokið er hún var leyst frá störfum, eins og áður segir, og frekari verkefni voru henni ekki falin.