22.01.1980
Sameinað þing: 14. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í B-deild Alþingistíðinda. (513)

216. mál, Hafísnefnd

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Mér er bæði ljúft og skylt sem eina fulltrúa fyrrv. stjórnarandstöðu í hafísnefnd að taka undir þau ummæli formanns, að mér vitanlega hefur önnur þingnefnd ekki starfað meira en hafísnefnd gerði í þá tvo mánuði sem hún starfaði í raun. Þar var mjög snarplega á málum tekið. Ríkisstj. fékk tillögur nefndarinnar í hendur eins fljótt og kostur var, og meðal þeirra tillagna var einróma tillaga okkar fjórmenninga um verulegar samgöngubætur á Norðurlandi eystra, sem ná raunar suður um og austur í Vopnafjörð. Þessar samgöngubætur er nú verið að framkvæma. Þannig var snarplega á málum tekið.

Það má hins vegar segja, að nokkuð hafi skort á, eftir að sjóðir og stofnanir fóru að taka við þessu máli, að nægilega vel hafi verið að því unnið. Í fyrstu var ríkisstj. fyrrv. með tillögur nefndarinnar nokkuð lengi í athugun hjá sér, áður en hún fól sjóðum og stofnunum framkvæmd málsins. Síðan hefur hafísnefnd ekki fylgst með störfum þessara aðila, en til þess hefði kannske verið full ástæða.

Út af því, sem hv. 2. þm. Norðurl. e. sagði um þetta ákveðna mál á Þórshöfn, þá er það alveg rétt hjá honum, að það hefur komið fram megn óánægja í sambandi við þennan eina bát þarna sem skemmdist verulega í hafís og var mjög lengi frá veiðum meðan á viðgerð stóð. Ég kynnti mér hvernig þetta mál stæði hjá Aflatryggingasjóði, og var mér tjáð að ekki væri unnt samkv. reglum sjóðsins að bæta þessa frátöf. Varð þessi útgerðarmaður fyrir mjög verulegu tjóni, sem var mjög sérstaks eðlis, og hefði sjálfsagt verið æskilegt að fjalla alveg sérstaklega um það í þessari ágætu nefnd.

Ég vil taka undir þau orð hæstv. ráðh., að ástæða sé til þess að hyggja að þessum málum þannig að forða megi frá verulegu tjóni af völdum hafíss, ef þessi vágestur skyldi heimsækja okkur á ný, sem alltaf má búast við. Og þá vil ég alveg sérstaklega vekja athygli á því, að það er mjög nauðsynlegt að hyggja að því, að hafísspár geti komist hér á laggir, að hægt sé að standa þannig að hafísspám, að þær séu sæmilega áreiðanlegar. En mér er sagt af sérfróðum mönnum, að það væri unnt að gera með allnokkrum undirbúningi.