22.01.1980
Sameinað þing: 14. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í B-deild Alþingistíðinda. (514)

217. mál, kaup og sala á togurum

Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Á þskj. 44 hef ég leyft mér að leggja fram fsp. til hæstv. sjútvrh. um kaup á togurum og um togarasölur erlendis. Mikið hefur verið rætt um kaup og sölu á togurum að undanförnu og ekki að ástæðulausu. Mörgum hefur fundist — og hafa verið sögusagnir uppi í sambandi við þau mál — að það sé misjafnt hvernig mönnum gengur að komast yfir togara. Talið er að sum byggðarlög hafi verið hindruð í að komast yfir togara þó að aðstaða þar sé öll með þeim hætti að vinnsla úr sjávarafla sé eina atvinnugreinin sem hægt er að koma við, eins og sakir standa, til þess að halda uppi atvinnu fyrir það fólk sem þar býr. En á sama tíma er keyptur hver togarinn á eftir öðrum til sama byggðarlagsins jafnvel ó þeir veiði eingöngu til sölu á erlendum mörkuðum. Í þessu sambandi hefur verið bent á togarakaup til Hafnarfjarðar, og þá fyrst og fremst á kaupin á togaranum Ými, sem keyptur var frá Bretlandseyjum á síðasta ári. Eftir sögusögnum að dæma er það hrein krossgáta, hvernig farið var að því að koma þeim kaupum í kring. Vonandi er hægt að skýra það, og fer þá best á því að það sé gert. Hins vegar er talið að þessi togari selji allan afla sinn í Bretlandi og einnig annar togari sem sama útgerðarfélag á og gerir út.

Í blaðaviðtali við framkvæmdastjóra eins hraðfrystihúss fyrir skömmu er gefið í skyn hvernig hægt sé að komast yfir togara í Bretlandi án þess að greiða þá í reiðufé. Sé eitthvað til í því, sem þar kom fram, eru þessi mál komin á mjög alvarlegar brautir að mínum dómi. Hvorki hæstv. ríkisstj.Alþ. getur komist hjá því að ræða þessi mál og upplýsa þau fyrir þjóðinni, því hvaða aðilar vilja liggja undir þeim grun, að það sé látið afskiptalaust að togarakaup erlendis frá séu gerð, jafnvel með vafasömum hætti, en á sama tíma séu veiðar takmarkaðar fyrir innlendar fiskvinnslustöðvar og hindruð togarakaup fyrir staði sem skortir mjög tilfinnanlega hráefni til vinnslu, svo hægt sé að halda uppi sæmilegri atvinnu.

Því hef ég leyft mér að bera fram eftirfarandi fsp. til hæstv. sjútvrh.:

1. Hvaða aðilar hafa keypt togara frá 1. sept. 1978 og til þessa dags: a) nýja, b) notaða, c) hvaðan var hver þeirra keyptur?

2. Hvað hafa margir togarar selt afla sinn erlendis á sama tíma? a) Hvað heita þessir togarar og hvaðan er hver þeirra gerður út? b) Hvað hefur hver þeirra farið margar söluferðir á umræddum tíma? c) Hvert var heildaraflamagn þessara togara, er þeir seldu erlendis á þessu tímabili? d) Hvert var heildarverð, sem fékkst fyrir þennan afla? e) Hvað hefði fengist fyrir þennan afla í gjaldeyri, ef hann hefði verið unninn í fiskvi5nnsluhúsum okkar og engar togarasölur átt sér stað erlendis á þessum tíma?