22.01.1980
Sameinað þing: 14. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í B-deild Alþingistíðinda. (517)

217. mál, kaup og sala á togurum

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Togaraútgerð og skipakaup eru meðal veigamestu þátta í okkar hagkerfi og þeirri byggðastefnu sem við viljum leggja áherslu á í þessu landi. Hæstv. sjútvrh. hefur orðið frægur fyrir að beita fádæma hörku, óskiljanlegri hörku, gagnvart einu bæjarfélagi, sem er meðal gróskumestu útgerðarstaða hér á landi, og hamla eftir bestu getu gegn því, að það bæjarfélag geti endurnýjað skipakost sinn. Hann hefur á þann hátt greinilega hafið hér á loft stefnu í skipakaupum sem virðist ekki taka nokkurt tillit til þess, hvernig fiskvinnslufyrirtækjum viðkomandi staða er háttað, hvort um er að ræða veigamikinn þátt í atvinnulífi bæjarfélagsins eða hve vel viðkomandi bæjarfélag liggur við miðum. Ef hæstv. sjútvrh. væntir þess, að hann verði tekinn alvarlega í þessari stefnumótun, þá vil ég taka undir með síðasta ræðumanni, hv. þm. Stefáni Valgeirssyni, að kaup togarans Ýmis þurfa að upplýsast algerlega hér á Alþ. af hæstv. ráðh. Þetta skip hefur verið notað til þess að flytja afla af Íslandsmiðum til útlendra hafna á sama tíma og hæstv. ráðh. hefur beitt eindæma hörku gagnvart endurnýjun togaraflota byggðarlaga í landinu, annarra en síns heimabæjar, Hafnarfjarðar. Ég vil enn fremur óska eftir því við hæstv. fyrrv. fjmrh., Tómas Árnason, sem hér var í þingsalnum fyrir skömmu, að hann geri grein fyrir því hér í umr., hvers vegna hann beitti sér fyrir því að selja viðbótartogara til Siglufjarðar í ráðherratíð sinni sem fjmrh., þegar ljóst er að frá engu bæjarfélagi á landinu hefur verið siglt jafnrækilega með afla eins og frá Siglufirði. Í ljós kemur í skýrslu sjútvrh. hér áðan, að 33 söluferðir eða nánast þrjár í mánuði allt árið um kring hafa verið farnar af togaraflota þessa bæjarfélags.

Við skulum gera okkur grein fyrir því, að togarakaup og endurnýjun togaraflota eru meðal viðkvæmustu mála fyrir byggðarlögin í þessu landi og fyrir efnahagslíf landsheildarinnar. Tveir ráðh., sem eiga hlut að skipakaupum líkt og með togarann Ými og þann togara, sem fjmrn. beitti sér fyrir að væri seldur til Siglufjarðar, eiga að gefa þjóðinni greinargóða og fulla skýringu á þessum ráðstöfunum.