22.01.1980
Sameinað þing: 14. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í B-deild Alþingistíðinda. (518)

217. mál, kaup og sala á togurum

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Það er ákaflega misjafnt hversu lagnir menn eru að segja gömul, einföld og þó sífellt ný sannindi á alþýðlegan hátt, eins og hv. þm. Stefán Valgeirsson gerði í upphafi máls síns: Það er mjög misjafnt hvernig mönnum gengur að komast yfir togara. Svo hefur verið lengi. Og einhvern veginn fannst mér hann líta til hv. þm. Sverris Hermannssonar, sem sat honum til hægri handar, þegar hann mælti þetta.

Ég geri ráð fyrir því, að við verðum að ætla annan tíma og rýmri til þess að ræða þá hliðina, sem lýtur að útgerð togaranna og tengslum togaranna við fiskiðjuverin í landinu, og einnig til þess að ræða það atriði sem lýtur að hagkvæmni þess að láta skipin sigla. Ég saknaði þess í svari hæstv. ráðh. áðan, að hann skyldi ekki taka af okkur dálítið ómak með því að fara út í það að greina okkur frá fisktegundunum sem siglt var með í þessum siglingum, yfir 100 siglingum á rösku einu ári, sem hann gerði okkur grein fyrir áðan.

Þegar borið er saman verðið, sem fæst fyrir fiskinn í erlendri höfn og fengist hefði fyrir hann ef hann hefði verið unninn hér innanlands, þá er þetta náttúrlega úrslitaatriði. Eins og stendur er efalaust heppilegt fyrir okkur að láta sigla með sumar fisktegundir við gefnar aðstæður á erlendan markað og fá þannig hærra verð fyrir. Hitt er að mínu viti algerlega óafsakanlegt, þegar siglt er með þorsk á erlendan markað samtímis því sem ýmis byggðarlög á landi hér eru svipt hráefni sem veitir fólkinu á þeim stöðum vinnu, eins og átti sér stað s.l. sumar, — eins og útfærð hefur verið aðferð hæstv. sjútvrh. við takmarkanir á úrtöku úr þorskstofninum, að heimila þá siglingu, eins og hann hefur gert, til aflasölu erlendis á vöru sem okkur vantar til þess að vinna í frystihúsunum hér heima.

Ég geri ráð fyrir að lögum samkv. geti sá maður — ef við víkjum að því með hvaða hætti menn komast yfir togara — sem á nóga peninga til þess farið til útlanda og keypt sér togara. En spurningarnar, sem fram voru bornar varðandi kaupin á Ými og möguleika á því að festa kaup á togurum erlendis með sérsamningum, sem m.a. mundu tryggja sölu á afla erlendis upp í kaupverð, eru náttúrlega spurningar sem við þyrftum að taka hér til meðferðar og óska þess þá af hæstv. núv. sjútvrh. eða næsta sjútvrh., ef svo brátt ber að, að hann kafi dálítið dýpra í málið en hæstv. ráðh. gerði í svari sínu áðan og að við göngum þannig frá þessu, að við þurfum ekki að bera ónefnda menn fyrir óljósum sögum, og ræðum þetta mál þá til hlítar, þannig að menn verði ekki bornir brigslum.