22.01.1980
Sameinað þing: 14. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

217. mál, kaup og sala á togurum

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég held að það sé rétt að menn átti sig á, hvernig skipulag þessara mála er, þegar umr. af þessu tagi fara fram, hver eru raunverulega afskipti ríkisins af togarakaupum, hvaða stjórntækjum er unnt að beita samkv. því skipulagi sem við búum við.

Í fyrsta lagi er það fram að taka, að fiskiskip eru á frílista, þau eru ekki háð innflutningsleyfum. Þau hafa verið á frílista að undanförnu. Engin af undangengnum ríkisstj. hefur tekið þá ákvörðun að taka fiskiskip af frílista. Þess vegna eru þau ekki háð innflutningsleyfum. Flestar vörur, sem við notum hér, eru auðvitað ekki háðar innflutningsleyfum heldur. Flestar vörur okkar eru sem betur fer á frílista. En ráðin, sem hafa verið tiltæk, hafa verið lánafyrirgreiðsla, sem svo er nefnd, þ.e. spurningin um hvers konar lán væru veitt úr innlendum sjóðum eða hvers konar heimild væri leyfð til lántöku erlendis frá. Þetta eru þau tvö stjórntæki sem hafa verið notuð til að hafa hemil á eða greiða fyrir togarakaupum, eftir því hvað menn hafa viljað gera á hverjum tíma.

Fiskveiðasjóðslánin eru innlend, eins og ljóst er. Þar hefur lánskjörum verið breytt eftir því sem menn hafa talið á hverjum tíma að væri nauðsynlegt og eðlilegt til að ná fram ákveðinni stefnumörkun í þessum efnum, ýmist til að auka innkaup á togurum eða til að draga úr þeim. Um nokkur undangengin ár hefur verið talin ástæða til að þrengja þessi kjör. Menn hafa auðvitað ekki gert það að gamni sínu, heldur vegna þess að menn hafa séð fram á að ef of rúmur innflutningur yrði á fiskiskipum og skipastóllinn yxi hratt eða hann yxi yfirleitt, þá væru menn í raun og sannleika að rýra kjör útgerðarinnar í heild og sjómanna, það kæmi minna í hlut hvers og eins þegar um væri að ræða takmarkaða auðlind, sem af er tekið, og það þess vegna takmarkað sem kæmi í hlut heildarinnar. Þeim mun fleiri sem bitust um það, þeim mun minna kæmi í hvern hlut. Þetta er auðvitað grundvallarskýringin á því, að menn hafa gripið til ráðstafana til að hafa hemil á innkaupunum. Það er ekki gert af illmennsku. Það er gert af góðmennsku. Það er til að sjá til þess að hagur þeirra, sem í greininni starfa, sé bærilegur og fari ekki versnandi.

Síðan er það spurningin um erlendu lántökurnar. Þar þarf sérstaka heimild sem viðskrn. veitir. Slíka heimild veitti fyrrv. viðskrh. að því er varðaði t.d. togarakaupin á Neskaupstað. Þar með var það mál komið í farveg og hafði sinn gang, hvaða skoðun svo sem sjútvrh. hafði á því.

En þó að hvorki sé sótt um Fiskveiðasjóðslán né erlenda lántöku er samkv. þeim reglum, sem í gildi eru, hægt að flytja inn skip. Það var sú staðreynd sem fyrrv. viðskrh. stóð frammi fyrir að því er varðaði kaupin á Ými. Þar var einungis um það að ræða, að samkv. gildandi lögum og reglum í landinu hlaut útgerðarmaðurinn að fá yfirfærslu fyrir vörur sem voru á frílista. Þetta er kerfið. Ég get verið jafnundrandi og þið á því, að menn skuli hafa þá fjármuni sem þarf til að kaupa skip með þessum hætti, og ég er alveg sannfærður um að þetta sé að ýmsu leyti varasamt fyrirkomulag. En þetta er það kerfi sem við höfum búið við. Og ég held að þó að menn gagnrýni ýmislegt í þessu sambandi sé alveg nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir með hvaða hætti þetta kerfi vinnur, hvaða stjórntækjum menn ráða yfir, eins og fyrirkomulagið er núna.

Ég hef verið gagnrýndur fyrir að hafa beitt fádæma hörku gagnvart einu bæjarfélagi, nefnilega Neskaupstað. (StJ: Dalvík líka.) Nú já, Dalvík líka, þá það. Sannleikurinn í málinu er þessi: Eftir að ljóst varð að það var áframhaldandi innflutningur á skipum og það þurfti að grípa til mjög verulegra takmarkana á þorskveiðunum taldi fyrrv. ríkisstj. ekki stætt á öðru en standa gegn innflutningi á skipum. Fjárfestingaráætlun fyrrv. ríkisstj. byggðist á því, að ekki yrði um frekari innflutning á fiskiskipum erlendis frá að ræða. Það var á þessum tímamótum og að þeim atburðum gerðum, sem hér hafa verið raktir aðrir, sem Síldarvinnslan á Neskaupstað hafði áhuga á að kaupa skip erlendis frá. Á sama tíma var það stefnumörkun ríkisstj. og ég held allra þingflokkanna, að efla ætti innlendan skipasmíðaiðnað. Hvað er líklegra til þess að efla innlendan skipasmíðaiðnað en hann fái verkefni? Ég spyr líka vegna þess að menn eru að tala um sölu á fiski erlendis: Hvaða munur er á því að láta smíða skip erlendis eða selja fisk erlendis? Er það ekki sams konar útflutningur á verkefnum sem menn vilja gjarnan láta vinna hér innanlands? Þannig var staðan í málinu á þessum tíma og það var á grundvelli þessara tveggja atriða, um að halda skipasmíðinni innanlands eftir því sem mögulegt væri og með tilliti til þeirrar stefnumörkunar ríkisstj. í heild að ekki skyldi verða um frekari innflutning á fiskiskipum að ræða, sem ég lét koma skýrt og skorinort fram mína skoðun og beitti þeim ráðum, sem ég réð yfir til að vinna gegn þessum innflutningi.

En það er fleira í þessu máli, nefnilega það, að ekki er hægt að tala um þetta sér sérstaka árás mína á Neskaupstað. Auðvitað valdi Neskaupstaður sér þetta hlutverk. Hann vildi brjótast út fyrir ákveðna linu og honum tókst það. Hann tók upp bardagann gegn stefnumörkun ríkisstj. og braut hana að hluta til niður. En það voru ótalmargir aðrir sem höfðu áhuga á að kaupa togara. Menn geta auðvitað velt því fyrir sér, hvers vegna Neskaupstaður ætti að fá leyfi frekar en Reyðarfjörður eða þeir aðilar t.d. á Suðurnesjum og Suðurlandi sem höfðu sótt um, eða t.d. Akranes og þar fram eftir götunum. Þetta er auðvitað ekkert einfalt mál. Ef menn ætla að hafa hemil á stækkun skipastólsins er það auðvitað aðgerð sem ekki getur staðið nema skamman tíma að standa gegn öllum skipakaupum því að ákveðin endurnýjun verður að eiga sér stað. En sannleikurinn er sá, að menn hafa ekki fundið betra ráð enn þá til þess að fá jafna og eðlilega tæknilega endurnýjun. (Gripið fram í: Í hvaða kjördæmi hefur fjölgað mest togurum síðan hæstv. ráðh. tók við?) Það hef ég ekki lagt saman, enda reyni ég ekki að standa eftir þeirri reglu að úthlutað sé eftir kjördæmum. Það geri ég alls ekki.

Ég held að þessi mál öll eigi að vekja okkur til umhugsunar um hvernig við eigum að hafa stjórnkerfið í þessum efnum, hvernig við eigum að hafa hemil á stærð skipastólsins þannig að afkoma skipanna og sjómannanna geti verið sem best. Mér finnst ekki að við höfum fundið neitt himneskt skipulag í þeim efnum, og mér hefur ekki fundist neitt sérlega skemmtilegt að beita þeim aðferðum sem ég hef þurft að beita til þess að standa við þá stefnumörkun sem hefur verið uppi af hálfu ríkisstj. og líklega flestra, ef ekki allra flokka.

Það var vikið hér að öðru máli, varðandi Dagnýju. Ég tel að hér sé um aðra fsp. að ræða, herra forseti, og mun ekki gera það að umtalsefni undir þessum lið. Það er auðvitað athyglisvert, að mörgum þykir gagnrýni vert hversu margar söluferðir eru farnar til útlanda og þeim sé misjafnt skipt. en það koma líka samstundis upp varnaðarorð og varnir fyrir því að menn skuli fara slíkar söluferðir, t.d. að afkoman sé misjöfn. Ég held að einmitt það sé aðalskýringin á því, að söluferðir eru farnar, og hjá flestum hverjum sé um það að ræða að þeir séu að bjarga sér fjárhagslega með því að fara söluferðirnar. — Og ef söluferðum er misskipt eftir einstökum stöðum hugsa ég að það sé fyrst og fremst til marks um að þær séu flestar farnar þaðan sem afkoman í greininni er verst.