22.01.1980
Sameinað þing: 14. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í B-deild Alþingistíðinda. (521)

217. mál, kaup og sala á togurum

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka þátt í þessum umr., en út af þeim orðum, sem féllu hjá hæstv. sjútvrh. síðast, finnst mér rétt að komi fram hvað það er sem gagnrýnt hefur verið. Það er ekki gagnrýnt að stöðva innflutning skipa, heldur hitt, að þegar möguleiki er á að selja gamalt skip úr landi fyrir annað nýrra sé það stöðvað. Þó verið sé að beita aðhaldsaðgerðum í þessum efnum, sem hefur verið beitt og ég er sammála hæstv. ráðh. um, er óskynsamlegt, þegar möguleiki er á því að losna við gamalt úrelt skip.

Eins og Neskaupstaður gat gert og gerði, að neita um innflutning þegar útgerðin átti jafnmikið í skipinu og raun ber vitni. Það er einnig um fleiri að ræða en Neskaupstað, þó að mest hafi verið um það mál rætt opinberlega.

Það var í sjálfu sér ekki mikið við því að segja þó að hæstv. ráðh. gerði þetta. En lítum á það, að Gunnvör hf. á Ísafirði fékk leyfi til að selja skuttogarann Júlíus Geirmundsson úr landi til Noregs og gerði um leið samning um nýtt skip. Þá lagði sjútvrn. á það, með bréfi til útgerðaraðilans Gunnvarar hf. á Ísafirði, ríka áherslu að seljandi gerði kaupanda að fullu ljóst að ekki yrði veitt leyfi til að selja og flytja skipið aftur til landsins, eins og segir orðrétt í þessu bréfi. Það var alveg hreint og klárt, að hin norska skipasmíðastöð, sem Gunnvör hafði samið við, hafði tekið togarann Júlíus Geirmundsson upp í kaupverð hins nýja skips og því var alveg öruggt að hann færi úr landi. En þá gerist það, að þar sem þetta er jafnvel tryggt og raun ber vitni er leyft að kaupa sama skip aftur til landsins. Þetta gerði að verkum að þeir aðilar, sem fóru fram á það sama og Neskaupstaður, t.d. annað útgerðarfélag á Ísafirði, Hrönn hf., og sennilega fleiri, áttu bágt með að sætta sig við afgreiðslu mála. Þetta var hæstv. ráðh. mest gagnrýndur fyrir.

Ég tel fyrir mitt leyti rangt að farið. Þó að verði að beita aðhaldsaðgerðum eins og þessum, sem nauðsynlegt er að beita og ég er ráðh. alveg sammála um, mega þær ekki kosta að ekki sé hægt að láta fara fram eðlilega endurnýjun flotans. Ég er alveg sammála ráðh. um að stuðla eigi að íslenskri skipasmíði. En íslenskar skipasmíðastöðvar taka ekki gömul, úrelt skip, þegar samningar eru gerðir við þær, og við losnum ekki við þau skip úr landi með öðrum hætti. Þess vegna eigum við ekki að mínum dómi að hafna möguleikum þegar þannig er ástatt að hægt er að losna við skip sem eru orðin þjóðhagslega óhagstæð í rekstri og við getum stuðlað að endurnýjun flotans í staðinn. Þetta ber á milli. Ég tek ekki undir gagnrýni á hendur ráðh. fyrir að beita aðhaldsaðgerðum, en þarna sýndi hann óþarfa hörku að mínum dómi.