22.01.1980
Sameinað þing: 14. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í B-deild Alþingistíðinda. (525)

217. mál, kaup og sala á togurum

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Enn ítreka ég að ég óska þess, að tekinn verði rýmri og vítalausari tími en við höfum haft til að ræða þessi umfangsmiklu mál til nokkurrar hlítar.

Ég hefði ekki kvatt mér hljóðs öðru sinni ef hv. þm. Páll Pétursson hefði ekki tekið upp á því að myrkva þau ljós, sem fyrr höfðu skinið í sölum Alþingis, og upplýst ástæðurnar fyrir því, að Fonturinn var seldur frá Þórshöfn á sínum tíma, nýuppgert skip með miklum kostnaði, sem Þórshafnarbúar sátu uppi með skuldirnar af, — selt fyrir sáralítið fé, gott skip, til Siglufjarðar, að því er virðist aðilum sem litlum skyldum gegna í sambandi við íbúa Siglufjarðar hvað það varðar að útvega þeim atvinnu við að vinna fisk og gera hann að dýrmætri vöru til útflutnings. Sú saga hefur verið sögð hér áður. Það vil ég fullyrða við hv. þm., að hvorki skorti dugnaðinn hjá þeim Þórshafnarbúum né fyrirhyggjuna í stjórn fyrirtækis þegar um var að ræða útgerð á því skipi. Því var komið yfir á hendur Þórshafnarbúum með litlum hellindum, og giftan, sem skipinu fylgdi, var þá eftir því.

Aðeins í lokin, fyrst ég er kominn hingað upp, vil ég biðja hæstv. sjútvrh. að skýra enn betur fyrir okkur spurninguna, sem hann bar hér fram, um mismuninn á því að láta smíða fyrir okkur skip erlendis og að selja ísfisk óunninn úr landi. Ein af ástæðunum fyrir því, að við höfum orðið að láta smíða fyrir okkur skip erlendis, er sú, að ýmsum byggðarlögum hefur legið svo á að afla sér farkosts til þess að ná í fisk til vinnslu, til þess að útvega fólki sínu atvinnu heima fyrir. Ein af ástæðunum hefur m.a. verið sú, að hv. valdsmenn, hæstv. ráðh., hafa heimilað útgerðarbröskurum að sigla með óunnið hráefni til útlanda samtímis því sem gerðar hafa verið vægast sagt mjög vafasamar ráðstafanir til að hindra fiskveiðar frá þeim stöðum þar sem atvinnu vantar, þar sem fólk vantar hráefni til vinnslu í frystihúsunum. Og svo má spyrja hvort einhver munur sé á að leyfa flutning á 30 þús. tonnum af ísvörðum fiski úr landi til sölu á ísfiskmarkaði erlendis á þeim tíma, þegar takmarkaðar eru fiskveiðar á miðunum okkar í kringum landið, og því að láta smíða fiskiskip erlendis. Þetta er eins og menntaskólagrín. Það minnir á fáránleika þríliðunnar, sem hefur gengið í gegnum íslenskan húmor öldum saman, að bera fram svona spurningu.

Ég óska eftir að hæstv. ráðh. veki sjálfur máls á þessum atriðum hér í þinginu. Það væri gott, hentugt og smekklegt af honum að gera það í tíma þar sem okkur gefst tóm til að ræða þessi mál af nokkurri skynsemi. Ég efast ekkert um að ráðh. muni fúslega taka þátt í slíkum umr. og jafnvel hvetja til þeirra, ef verða mætti til að upplýsa þessi mál.